Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Finnbogi Magnússon, formaður Landbúnaðarklasans, er jafnframt framkvæmdastjóri Jötuns Véla á Selfossi.
Finnbogi Magnússon, formaður Landbúnaðarklasans, er jafnframt framkvæmdastjóri Jötuns Véla á Selfossi.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 10. maí 2019

Gríðarlegir möguleikar og framtíðin björt

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Finnbogi Magnússon, fram­kvæmda­stjóri Jötuns Véla ehf.  á Selfossi, er líka formaður Landbúnaðar­klasans. Markmið Landbúnaðarklasans er að stuðla að aukinni arðsemi gegnum nýsköpun og fagmennsku í landbúnaði á Íslandi. Með verðmætari afurðum byggjum við upp arðbærar atvinnugreinar til framtíðar þar sem gæði og sjálfbærni eru höfð að leiðarljósi.  
 
 „Fæðuöryggi þjóðarinnar skiptir líka miklu máli sem og heilnæmi matvælanna. Hreinleika okkar matvæla þurfum við að halda betur á lofti og gera betur á öllum sviðum framleiðslunnar,“ sagði Finnbogi í samtali við Bændablaðið.
 
Með Finnboga í stjórn Landbúnaðarklasans eru reynsluboltar á ýmsum sviðum. Þetta eru: Sunna Gunnars Marteinsdóttir, sem kemur frá MS, sem er varaformaður, Berglind Hilmarsdóttir bóndi, Einar Gunnar Guðmundsson frá Arion banka hf., Oddný Anna Björnsdóttir, ráðgjafi, Tjörvi Bjarnason frá Bændasamtökunum og Þórir Haraldsson frá Líflandi ehf.
 
Finnbogi segir að gríðarlegir möguleikar séu í landbúnaði og framtíðin sé björt ef vel sé á spilum haldið. Hann segir það m.a. lýsa sér í því að bændur í dag horfi á landbúnaðinn í víðara samhengi en eingöngu framleiðslu á mjólk og kjöti. Það sé óumflýjanleg þróun að bændum í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt muni fækka. Aftur á móti séu miklir möguleikar á öðrum sviðum landbúnaðar og tengdra greina sem geti komið í staðinn ef rétt sé á spilum haldið. Því eigi þessi fækkun framleiðenda í hefðbundnu greinunum ekki að þurfa að hafa í för með sér byggðaröskun ef samtök bænda og stjórnvöld verða búin að skapa grundvöll fyrir fólk til að nýta þessi tækifæri sem best. 
 
Mikilvægt sé á þessum tíma­punkti að landbúnaðurinn fari í heildstæða stefnumótun til næstu áratuga sem sé endurskoðuð á að lágmarki fimm ára fresti þannig að þeir sem reka bú í dag viti hver opinbera stefnan sé varðandi t.d. bústærð og sjálfbærni og geti þannig skipulagt framtíð sína betur. Mér finnst þessa heildarsýn vanta að miklu leyti í dag og hver búgrein sé svolítið að keyra sjálfstæða stefnu sem ekki endilega tekur tillit til heildarhagsmuna íslensks landbúnaðar eða þjóðarinnar. Í mínum huga er lykilatriði í að byggja hér upp enn öflugri landbúnað en nú er að við séum öll að róa í sömu átt og beitum áhrifum okkar saman en ekki sundruð í minni hópum.“ 
 
Finnbogi segir að ef Íslendingar ætli að treysta að miklu leyti á innflutning matvæla þá kunni illa að fara þar sem öfgar í veðri virðast færast í aukana. Meðan við getum sjálf búið til fóður fyrir okkar framleiðslu sé í raun ábyrgðarleysi að reyna ekki með öllum ráðum að auka innlenda ræktun og auka verulega stuðning og ráðgjöf við alla ræktun. 
 
Markmiðið hlýtur að vera sjálfbærni
 
„Menn tala um að um 50–60 % af fóðri mjólkurkúnna okkar sé innflutt. Við getum hæglega komið þessari tölu niður í 20–30% ef við setjum undir okkur hausinn. Það er líka nauðsynlegt ef við ætlum okkur að auka sjálfbærni sem hlýtur að vera markmið okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. 
 
Við lifum í mjög hverfulum heimi og lítið þarf að fara úrskeiðis til að aðgengi að erlendum mörkuðum truflist. Við sjáum þetta t.d. í Skandinavíu þar sem menn hafa upplifað mjög blautt sumar 2017 og síðan mjög þurrt sumar í kjölfarið. Þetta hafði í för með sér mjög umfangsmikinn fóðurskort í viðkomandi löndum og mikið fjárhagslegt tjón fyrir bændur. Ein hliðarverkun af þessum öfgum er að í ár er mjög erfitt að nálgast sáðkorn af þeim yrkjum sem við sækjumst mest eftir og gæði þess eru minni en venjulega vegna uppskerubrestsins og því þurfa sumir bændur hérlendis að sætta sig við að kaupa sáðkorn af yrkjum sem ekki eru eins örugg til þroska.
 
Við erum á undanförnum árum búin að fylgjast með fréttum af mis umfangsmiklum uppskerubresti í korni og annarri ræktun sem eru að hafa veruleg áhrif á heimsmarkaðsverð og framboð. 
 
Ef menn ætla að treysta að miklu leyti á innflutning þá kann illa að fara þar sem öfgar í veðri virðast færast í aukana. Meðan við getum sjálf búið til fóður fyrir okkar framleiðslu er í raun ábyrgðarleysi að reyna ekki með öllum ráðum að auka innlenda ræktun og auka verulega stuðning og ráðgjöf við alla ræktun. Ráðgjöf og almenn áhersla á ræktun okkar nytjajurta hefur því miður verið í hálfgerðu skötulíki undanfarna áratugi þannig að bændur sem hafa haft áhuga á eflingu ræktunar hafa því miður oft gefist upp.“
 
Köfnunarefnið fljótlega unnið úr lofti á búunum
 
„Við erum að horfa á að innan fimm til tíu ára verði orðið raunhæft fyrir bændur að vinna sitt eigið köfnunarefni úr loftinu heima á bæ og blanda því við skítinn á bænum og gera þannig köfnunarefnis blandaðan skítinn að aðaláburðinum sem borinn er á tún og akra. Það eru þegar komin í gang nokkur prufuverkefni með þessari tækni sem virðast lofa góðu. Mér finnst þetta mjög heillandi framtíðarsýn og styðja sýn okkar um aukna sjálfbærni mjög vel.“ 
 
Aukin krafa um grasfóðrun dýra
 
„Ég heyri það í mínum ranni að í Ameríku er farið að bera meira á umræðu þar sem neytendur eru varaðir við að kaupa kjöt sem framleitt er að mestu með eldi dýra á korni og alls konar afgangs hráefni. Ástæðan á að vera að hráefnið er misgott og getur innihaldið sveppaspora og önnur eiturefni vegna t.d. notkunar eiturefna við ræktun og lélegra geymsla sem verða eftir í kjöti dýrsins og setjist fyrir í okkur og geti valdið veikindum. Því sé betra að neyta einungis kjöts af dýrum sem eru grasfóðruð og í Ameríku er kjöt af skepnum sem er fóðrað nær eingöngu á grasi selt á veitingastöðum og verslunum sem grasfóðrað kjöt (grassfed beef) og selt mun dýrara en annað sambærilegt kjöt.  
 
Við sjáum mjög áhugaverðar tilraunir í Danmörku þar sem Seges er að gera fóðrunartilraunir á sláturgrísum. Þeir eru fóðraðir á grasi og smárablöndu í stað innflutts sojafóðurs sem er flutt um langan veg og er oft og tíðum erfðabreytt. Fyrstu niðurstöður þessara tilrauna benda til að vaxtarhraði grísanna sé sambærilegur og bragð sé eins. Ef þetta er raunin opnast miklir möguleikar hérlendis til ræktunar túna í svínafóður í stað innflutts fóðurs.“ 
 
Eigum mikla möguleika í ræktun
 
„Við Íslendingar eigum mikið graslendi og eigum að leggja áherslu á að nýta það í okkar matvælaframleiðslu. Við getum ræktað gras, við getum ræktað smára, við getum ræktað bygg með ágætum árangri og sjáum að bændurnir á Sandhóli eru að ná frábærum árangri í hafrarækt og nepju. Kínóa, sem er mjög dýr og vinsæl korntegund, virðist líka mögulegt að rækta hér. 
 
Alaskalúpína er mögnuð planta sem við höfum nýtt of lítið. Við ættum að setja lúpínu sem víðast í örfoka land sem lið í kolefnisjöfnun og búa þannig til nýtt nytjaland á 20–30 árum sem hægt verður að nýta undir margvíslega ræktun. Þar er hugsanlega mögulegt að nota líka aðrar lúpínutegundir í sáðskipt sem henta sem fóður sem Alaskalúpínan gerir ekki og auka þannig próteinmagnið í heimaaflaða fóðrinu, auk þess sem lúpínan skilur eftir sig mikið af köfnunarefni fyrir næsta árs ræktun.“
 
Alls konar hugmyndir eldmóður og kraftur
 
Finnbogi segir að margvíslegt annað en hefðbundin kjöt- og mjólkurframleiðsla komi til með að skapa drifkraft í landbúnaði á komandi árum.
 
„Það getur tryggt að sveitirnar verði áfram fullar af lífi og þar myndist ekki eyðibyggðir. Það sem maður upplifir í tengslum við landbúnaðarklasann er að það er fullt af fólki um allt land með alls konar hugmyndir og gríðarlegan eldmóð og kraft. Oft og tíðum þarf ekki meira en smá hjálp til að hjálpa þessu fólki áfram og alla slíka nýsköpun þurfum við að styðja. 
 
Bær með 200 kindur og tvennt í heimili getur þannig hæglega breyst í 10 manna vinnustað í einhvers konar matvælaframleiðslu eða vinnslu og verið að nýta þær auðlindir sem landið býr yfir til verðmætasköpunar.“ 
 
Nýtt uppbyggingartímabil í sveitum
 
„Nú erum við að vera komin með ljósleiðara út um allar sveitir. Það er því orðinn möguleiki fyrir fólk að flytja út í sveit þótt það þurfi að vera með góðar tölvutengingar. Fólk er farið að sækja í þau lífsgæði sem fylgja dreifbýlinu. Ef við nýtum okkur það þá getum við verið að horfa fram á nýtt uppbyggingartímabil í sveitum landsins án þess endilega að vera að grafa skurði, fjölga kúm og kindum.  Þess í stað getum við verið að horfa á sértækari vöruframleiðslu í sveitunum, bæði tengdum landbúnaði og ekki.“ Þörungaræktun, ræktun skordýra á matarafgöngum til að búa til fóðurprótein, kræklingaræktun við strendur landsins og fiskeldi í smáum stíl, eru allt vaxtarbroddar sem geta styrkt landbúnað mikið og aukið framleiðsluverðmæti og mikilvægi hans fyrir byggðafestu og þjóðarbúið í heild.
 
Getum mikið lært af sjávarútveginum
 
– Er Landbúnaðarklasinn kannski að ná svipuðu flugi og sjávarútvegs­klasinn komst í?
„Ég held að við eigum töluvert langt í land hvað það varðar. Það eru ótrúlega flottir hlutir sem Sjávarútvegsklasinn hefur gert á undanförnum árum. Með nýsköpun og þróun sem átt hefur sér stað í sjávarútveginum, meðal annars fyrir tilstuðlan Sjávarútvegklasans, er búið að skapa gríðarleg aukin verðmæti sem skiptir milljarðatugum á hverju ári. Það var gert með því að beisla þá orku sem liggur í frumkvöðlakraftinum úti um allt land og nýta betur það hráefni sem menn eru með í höndunum. Í Landbúnaðarklasanum erum við að byrja að taka fyrstu skrefin á þeirri vegferð. Þar erum við að fá menn til að skilja hversu mikil orka bíður þar eftir að verða beisluð. 
 
Ef við horfum á sjávarútveg í kringum 1980 þá voru menn að veiða eins mikið og hægt var upp úr sjó en hugsuðu kannski minna um meðferðina á fiskinum. Það var í raun verið að fara með verðmætt hráefni sem hálfgert gúanó. Ef það vantaði pening í kassann þá fóru menn bara og veiddu meira. Í hugum manna var sjórinn nær ótæmandi auðlind. Þótt mörg fyrirtæki væru vel rekin þá voru margir í basli og margir ekki að gera neina frábæra hluti. Það mætti segja að afurðirnar á þessum árum hafi verið í lélegu meðallagi á heimsvísu. Síðan hefur staðan breyst þannig að vörur íslensks sjávarútvegs eru með þeim allra verðmætustu sem þekkjast á heimsvísu. Vörumerkið Ísland er þar með orðið það verðmætasta í heimi, kannski ásamt Noregi.  Ef við gátum gert þetta í sjávarútvegi, af hverju getum við þá ekki gert þetta líka í landbúnaðinum?  Í báðum tilfellum erum við að tala um matvöru þar sem ímynd hreinleika og heiðarleika hefur gríðarlega mikið að segja.“
 
Erum að selja villibráð í byggingarplasti á hrakvirði
 
„Ef við skoðum t.d. lambakjötið, þá erum við enn að selja lambakjöt sem pakkað er í byggingarplast í stórum stíl. Við erum að reyna að sannfæra fólk um að við séum með villibráð sem er einstök í sinni röð. Lömb sem lifi mest  allt sitt líf frjáls og hamingjusöm í náttúrunni. Þegar kemur svo að slátrun, áframhaldandi vinnslu og meðferð kjötsins, eigum við mjög langt í land. Ég er þar með ekki að segja að það sé ekki gert eitthvað gott á því sviði því það er vissulega vöruþróun í gangi. En það er ekkert vit í því að búa til villibráð sem er í sjálfu sér dýrt ferli, en ætla sér síðan að selja þessa vöru á hrakvirði.“ 
 
Kanadískir sauðfjárbændur fá tvöfalt hærra skilaverð
 
„Mér finnst mjög áhugavert að skoða hvað Kanadamenn gerðu í sauðfjárræktinni. Þar hef ég best kynnt mér stöðuna í Quebeck-fylki. Þeir voru á svipuðum stað fyrir 30 til 40 árum og við erum nú. Bændur fengu lítið fyrir lambakjötið sitt, en þá tóku þeir dreifingarmálin og markaðssetninguna í eigin hendur. Þeir fóru að láta féð bera á ca 8 mánaða fresti og hafa þá féð mest í rúmgóðum húsum, m.a. vegna ásóknar úlfa. 
 
Þá gerðu þeir samninga við ein sjö eða átta sláturhús til að slátra eftir ákveðnum forskriftum. Síðan var gerður samningur um að hver bóndi afhendi svo og svo mörg lömb reglulega til slátrunar allt árið um kring. Húsin sjá svo um að meðhöndla kjötið eftir ákveðnum óskum. Þetta hefur leitt til þess að í dag er skilaverð til bænda í Kanada um tvöfalt hærra en hér.“ 
 
Allt selt ferskt og hangið 
 
„Þar er allt lambakjöt selt ferskt og allt er það hangið. Það er ekki verið að selja misgóða bita í byggingarplasti. Heldur eru skornir út vöðvar  í handhægum, neytendaumbúðum. Þetta er nú dýrasta kjötið sem maður finnur í kjötborðinu, ásamt kannski einhverri annarri villibráð. 
 
Kindakjötið er mikið dýrara í Kanada en nautakjöt vegna þess að það er selt sem lúxusvara. Á sama tíma er hægt að kaupa í kanadískum verslunum frosið nýsjálenskt lambakjöt á miklu lægra verði, en fólk velur frekar það kanadíska.“
 
Lambakjöt á ekki að keppa við kjúklingakjöt
 
„Á Íslandi erum við að reyna að selja lambakjöt á sama verði og kjúklinga þar sem umsetningin er margfalt meiri. Þarna erum við ekki á réttri braut og því bíða okkar þar mikil tækifæri. Mér finnst varðandi lambakjötið að við séum á svipuðum stað á þróunarbrautinni og sjávarútvegurinn var fyrir 30–40 árum. Þarna höfum við auðlind sem við erum ekki að nýta okkur eins og hægt væri. 
 
Það sama gildir að mörgu leyti varðandi nautakjötsframleiðsluna. Það hefur oftast verið hálfgerð aukaafurð hjá mjólkurframleiðendum sem eru að framleiða mjólk og gæði kjötsins almennt mjög rokkandi. Á síðustu árum erum við samt farnir að sjá mjög öfluga framleiðendur á nautakjöti sem eru að ná að ala Íslendinga á 20 mánuðum upp í um 300 kg og fá flotta flokkun. Með nýju erfðaefni sem menn fara að geta nálgast í sumar opnast alveg nýr kafli og verður mjög gaman að fylgjast með þeim breytingum sem því munu fylgja.“
 
Eigum nóg af grasi og mun ódýrara land en keppinautarnir
 
„Ef menn horfa á hvað þarf til að framleiða nautakjöt, þá er svarið einfalt, það er gæðagras og það þarf mikið af því. Við eigum mikið af grasi og það sem meira er, að landverð hér er tiltölulega lágt, eða algengt í kringum 100 til 200 þúsund krónur á hektara. Til samanburðar er það tvær til þrjár milljónir á hektara í Skotlandi og annars staðar í Bretlandi. Húskostnaður er hér eitthvað meiri, en að öðru leyti er samanburðurinn okkur talsvert hagstæður. 
 
Ef við erum komin með gott erfðaefni og eigum nóg af grasi, af hverju ættum við þá ekki að geta flutt út nautakjöt af grasfóðruðum skepnum eins og t.d. Skotar gera með góðum árangri undir vörumerkingu Scottish Beef?“
 
Getum orðið nautakjötsútflytjendur eftir einn eða tvo áratugi
 
„Ég sé fyrir mér að að ef við höldum rétt á spilunum, þá eigum við að geta orðið útflytjendur á nautakjöti eftir tíu til tuttugu ár. Þá ættum við að geta keppt þar í verði við kjöt sem framleitt er í Skandinavíu,  Bretlandi eða Írlandi. Þar höfum við með okkur þá góðu hreinleikaímynd sem hér er af landbúnaði. Við ættum að geta nýtt okkur þar sömu stöðu og við þekkjum í fiskiðnaði,“ segir Finnbogi. 
 
„Til sjávar og sveita“
 
Hann segist þarna fyrst og fremst vera að lýsa sínum áhugamálum á þessu sviði, en í Landbúnaðarklasanum sem slíkum sé fyrst og fremst verið að styðja við sprotaverkefni sem mögulega geta orðið að einhverju meiru í framtíðinni. 
 
„Við erum t.d. að sjá í þessu verkefni, „Til sjávar og sveita,“ hugmyndir sem tengja saman bæði landbúnað og sjávarútveg. Þar erum við að sjá spretta fram mjög áhugaverð fyrirtæki. Það sem kom skemmtilega á óvart varðandi umsóknir um stuðning úr þeim klasa voru mjög margar og flottar umsóknir sem var því miður ekki pláss fyrir í þetta sinn. Vonandi getum við tekið þær inn á næsta ári.
 
Þarna er mikil gróska og margt flott fólk með frábærar hugmyndir sem við þurfum að styðja. Það virðist líka vera vilji hjá stjórnvöldum núna til að styðja meira við þennan frumkvöðlakraft. Vonandi munum við sjá það í meira fjármagni. Við sem komum að þessu erum ekki að fá greitt fyrir það, heldur gerum við þetta af einskærum áhuga fyrir að styðja frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun.“  
 
Stuðningur við sprotaverkefni skilar sér margfalt til baka
 
„Ég held að fjármagn sem yfir­völd setja í þetta skili sér margfalt til baka. Ef t.d. bara eitt af þessum tíu verkefnum sem eru í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita í dag springur út, þá getum við verið að tala um hundruð milljóna í tekjur fyrir þjóðarbúið á næstu árum. Hagsmunirnir eru því gríðarlega miklir fyrir okkur öll. Hagsmunir landbúnaðar, sjávarútvegs og ferðaþjónustu fara þar allir saman. 
 
Allt byggir þetta á að við erum að selja ímynd landsins, hreinnar ósnortinnar náttúru og einhvers konar kraftaverkafólks, hvort sem við erum það í raun eða ekki. Við erum að búa til þá ímynd að við séum hraust þjóð, langlíf og oft og tíðum sæmilega hamingjusöm. Héðan kemur ótrúlegur fjöldi af afreksfólki miðað við höfðatölu. Eftir þessu er tekið og fólk trúir því jafnvel að það sé eitthvað í matnum sem hér er framleiddur, í vatninu, eða öðru. Þetta er okkar ímynd og stærsta auðlind sem við þurfum að varðveita og fær fólk til að heimsækja okkur svo milljónum skiptir. 
 
Þetta er ekkert mjög flókið. Ef við gerum eitthvað vel og leggjum okkur fram af lífi og sál þá náum við árangri,“ segir Finnbogi. 
 
Gjörbreytt staða í dreifingu matvæla í framtíðinni
 
Hann telur að eftir svo sem tíu ár þá verði viðskipti með hágæða matvæli milli landa gjörbreytt. Í stað hillupláss í stórmörkuðum, þá verði komin fá stór matarvöruhús á sérvöldum stöðvum í Evrópu. Þar panti fólk matvæli í gegnum netið með upprunavottorði og sögunni á bak við framleiðsluna og fær hann sendan beint heim til sín. Við sjáum þetta nú þegar í Ameríku eftir að vefverslunin Amason keypti matvörukeðjuna Wholefoods. Þessi þróun mun opna mikla möguleika fyrir okkur að mati Finnboga. Í stað þess að vera með vörur sýnilegar í verslunum úti um alla Evrópu til að reyna að ná til viðskiptavina, sem eru mjög dreifðir, þá  getum við dreift á 5 til 10 matarvöruhús sem tugir milljóna meðvitaðra neytenda hafa beinan aðgang að í gegnum netið.  
 
„Þetta er allt annar veruleiki og heimur sem við þurfum að fara að nýta okkur. Þar eigum við orðið mikla góðvild í þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað koma á hverju ári og vilja kaupa íslenska matvöru þegar heim er komið,“ segir Finnbogi Magnússon.
Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...