Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sigurlaug Gissurar­dóttir, formaður Félags ferðaþjónustubænda.
Sigurlaug Gissurar­dóttir, formaður Félags ferðaþjónustubænda.
Mynd / Tjörvi Bjarnason
Viðtal 17. ágúst 2015

Ferðaþjónustubændur þurfa að skerpa á sinni sérstöðu

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Miklar annir hafa verið hjá ferða­þjón­ustubændum í sumar. Ferða­manna­straumurinn eykst ár frá ári og aðilar í ferðaþjónustu hafa átt fullt í fangi með að anna eftirspurn. Fréttir af nýj­um hótelum og uppbyggingu eru daglegt brauð og von er að menn spyrji sig hvernig þróunin verði á næstu misserum. Sigurlaug Gissurar­dóttir er formaður Félags ferðaþjónustubænda og rekur ásamt eiginmanni sínum, Jóni Kristni Jónssyni, bændagistingu á Brunn­hóli á Mýrum í Hornafirði. Hún segir að mörg krefjandi verkefni bíði félagsins og að bændur í ferðaþjónustu verði að standa saman og afmarka þjónustu sína og sérstöðu með skýrum hætti.
 
Ferðaþjónustan hefur breytt mannlífi í sveitum
 
Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan tekið við sem aðalbúgrein hjá mörgum bændum. Þeir sem byrj­uðu smátt samhliða öðrum búskap hafa fjölgað herbergjum og hefðbundinn búskapur breyst. Sigurlaug segist ekki heyra menn tala lengur um ferða­þjónustuna sem aukabúgrein. Það sé augljóst að hún hafi breytt mann­lífinu í sveitinni mikið. „Áður var það þannig að bændur sinntu ákveðnum verkum á mismunandi árstímum en nú er það breytt. Það var sauðburður, síðan sláttur, smalamennska og allt í nokkuð föstum skorð­um. Nú er allt annað munstur í sveitunum. Til dæmis er ekki auðvelt að ná fólki saman í þessari sveit þar sem ferðaþjónustan stýrir svo mikið samfélaginu. Stundum sakna ég þess raunar – að það sé ekki sama reglan á hlutunum. Ég hef stundum sagt að ferðamennirnir séu harðari húsbændur en kýrnar voru nokkurn tíman!“
 
Sífelld endurskoðun nauðsynleg
 
Í ferðaþjónustunni er mikilvægt „að vera á tánum“ í rekstrinum því annars fjarar fljótt undan. „Einn bóndi orðaði það svo að ef þú sinnir ekki árlegu viðhaldi eða gerir reglulegar endurbætur á húsnæðinu eða þínum rekstri þá dregstu aftur úr. Þetta er hlut­ur sem við ferðaþjónustubændur þurfum alltaf að hafa í huga. Ég hef oft vakið máls á að Félag ferðaþjónustubænda geti verið bændum innan handar við að bæta skipulagið heima á bæjunum. Án þess að við förum að segja bændum að taka til þá er mikilvægt að vekja umræðu um að ásýndin skiptir miklu máli. Nákvæmlega hvernig hægt er að útfæra þetta liggur ekki fyrir en ýmsum hugmyndum verið velt upp. Upplifun gestanna þarf að ná alveg frá þjóðveginum og inn í hýbýlin sem þeir búa í og aftur til baka,“ segir Sigurlaug. 
 
Gæðakerfi tekur breytingum
 
Ferðaþjónustubændur á Íslandi hafa um árabil rekið öflugt gæðastarf og verið með sérstakt gæðakerfi og eftirlit með því. Á síðasta aðalfundi félagsins var hins vegar ákveðið að breyta um áherslur og færa ferðaþjónustubændur undir gæðakerfi Vakans sem er útbreitt á meðal fyrirtækja í greininni. Þá verða þeir metnir til jafns við aðra ferðaþjónustuaðila. 
 
„Ég held að menn séu almennt sammála um að færast yfir í nýtt gæðakerfi sem er að ryðja sér rúms og heitir Vakinn. Það er ekki skynsamlegt fyrir bændur að vera teknir út eftir öðru kerfi en önnur ferðaþjónusta í landinu. Það er engin launung á því að það eru mjög skiptar skoðanir á meðal félags­manna um gæðamálin. Það eru ýmsir sem eru hræddir við að breyta og vanir því kerfi sem er við lýði. Okkar kerfi hefur hins vegar ekki virkað sem skyldi að öllu leyti og er barn síns tíma. Það var til dæmis erfitt að fylgja eftir erfiðum málum og erfitt að halda úti eftirlitskerfi sem í raun og veru hafði eftirlit með sjálfu sér. Mín skoðun er að það sé betur komið í höndum þriðja aðila,“ segir Sigur­laug.
 
Í kjölfar þessara breytinga með gæða­eftirlitið skapast tækifæri fyrir félagið að sinna öðrum þáttum að mati formannsins. „Við þurfum því í raun og veru að finna okkur ann­an tilgang. Við sjáum hann meðal ann­ars í því að aðstoða bændur við að ná markmiðum Vakans en líka í því að skerpa á sinni sérstöðu, auka samkeppnishæfi og búa til vörur eða skapa afþreyingu fyrir gestina sem eykur viðskiptin. 
 
Vöruþróun og sérstaða
 
„Hver bóndi þarf að fá aðstoð og hvatningu til þess að þróa sölupakka sem gerir það að verkum að staðurinn þinn hefur eitthvað umfram aðra að bjóða. Markmiðið er að halda gestinum lengur eða gera þjónustuna eftirsóknarverða og eftirminnilega. Til þess að undirbúa okkur undir ný tækifæri, þá hefur stjórn undan­farið unnið að endurskoðun á starfsemi félagsins og í því sambandi m.a. sent vinnudrög á alla félagsmenn til athugasemda og ábendinga.“  
 
Annað sem Sigurlaug nefnir og varðar tilgang félagsins er að nýjar kynslóðir sem nú eru að koma inn í ferðaþjónustuna gera aðrar kröfur en hennar kynslóð hafi gert á sínum tíma. „Þarfirnar eru allt aðrar. Fólk er betur menntað í dag og veraldarvanara en við vorum á sínum tíma,“ segir hún. 
 
Nýir félagsmenn og tryggð við söluskrifstofuna
 
Önnur áskorun sem félagið stendur frammi fyrir er að afla nýrra félags­manna og að sannfæra fólk um að halda tryggð við söluskrifstofu Ferðaþjónustu bænda. Tilkoma Netsins og alls kyns erlendar bókunarsíður hafa breytt landslaginu mikið á síðustu árum. Það er því ekki óeðlilegt að fólk spyrji sig hvaða erindi það á inn í félagsskap ferða­þjónustubænda eða í sölunet skrifstofunnar þegar hægt sé að afla viðskiptavina með öðrum leiðum. 
 
„Þetta er það sem við þurfum að átta okkur betur á og skilgreina. Við þurfum að komast upp úr þeim hjólförum að líta á okkur eingöngu sem ferðaþjónustu fyrir gistingu. Við þurfum að vera meira alhliða. Í „hillum“ ferðaþjónustubænda þarf að vera til fleira en gisting. Gestur­inn þarf að geta valið úr veitingastöðum, áhugaverðum búskap að skoða og annarri afþreyingu í nágrenninu. Á endanum fari hann ekki bara sæll eftir að hafa gist í góðu rúmi á einhverjum stað heldur fari hann heim til sín með upplifun og minningar í huganum, staðráðinn í að koma aftur. Þetta tel ég að sé stærsta áskorunin sem við ferðaþjónustubændur stöndum frammi fyrir,“ segir Sigurlaug og nefnir að þessi staðreynd styrki enn frekar trú hennar á mikilvægi þess að bæir í Opnum landbúnaði og í félaginu Beint frá býli vinni með ferðaþjónustubændum.
 
Erlendar bókunarsíður í samkeppni
 
Sigurlaug segir ekkert launungarmál að þeirra stærsti keppinautur í dag séu aðrar bókunarsíður eins og Booking.com. „Þegar ég tala um okkur á ég við ferðaþjónustu­bændur sem eigum okkar félagsskap sem á stóran hlut í ferðaskrifstofu. Þegar vel hefur gengið leggur skrifstofan  okkur til fjármagn til reksturs fé­lagsskaparins og arðurinn, sem hefur raunar ekki verið greiddur út á hverju ári, gerir okkur kleift að gera ákveðna hluti fyrir okkar félagsmenn. Félagsgjöldin, sem hald­ið hefur verið í lágmarki, gefa okkur um þrjár milljónir á ári sem duga skammt í rekstrinum. Til þess að halda í þennan arð þurfum við að reka öfluga skrifstofu og standa saman að henni, m.a. með því að setja ekki öll herbergin okkar í sölu hjá Booking eða á aðrar bókunarsíður,“ segir Sigurlaug.
 
Þurfum að velja vel nýja félaga
 
„Ungt fólk, hvort sem það er úti í sveit eða í þéttbýli, selur sína gist­ingu í gegnum Booking. Ég get tekið dæmi hér úr sveitinni af nýstofnuðu gistiheimili sem selur mestan part af sinni gistingu  í gegnum  erlendar bók­un­arsíður. Ég held að svarið við því sé að Félag ferðaþjónustubænda þurfi að gera eitthvað fyrir þetta fólk sem gerir það eftirsóknarvert fyrir það að vera í okkar félagsskap. Í staðinn fyrir að hafa alltaf beðið eftir því að einhver sæki um aðild þá þurfum við einfaldlega að velja okkur flotta samstarfsaðila úti í sveit,“ segir Sigurlaug og bætir við að sölukerfi Ferðaþjónustu bænda hafi ýmislegt upp á að bjóða umfram erlendu bókunarvélarnar eins og til dæmis bókun afþreyingar og tengingu við reikningagerð og bókhald.
 
Rekstur ferðaskrifstofunnar og sala hlutabréfa
 
Félag ferðaþjónustubænda á fjórð­ung í Ferðaþjónustu bænda hf. Fé­lagsmenn, starfsmenn og félagið sjálft eiga hina hlutina. Nú stendur til að opna fyrir sölu og kaup á hlutabréfum í skrifstofunni en til þessa hafa ekki verið viðskipti með eignarhluta í Ferðaþjónustu bænda hf. Það hefur verið gagnrýnt í gegnum tíðina að nýir aðilar geti ekki keypt sig inn í reksturinn og þannig staðið jafnfætis öðrum félagsmönnum. 
 
„Það er rétt að það hefur myndast togstreita á milli þeirra félagsmanna sem eiga hlut í skrifstofunni og þeirra sem eru ekki á meðal eigenda. Menn hafa til að mynda gagnrýnt að það sé of mikil áhersla lögð á að gera hluta­félagið upp með hagnaði sem að síðan fari til hluthafa sem eru jafnvel ekki starfandi í greininni lengur, svokallaðir „óvirkir hluthafar“. Þeir félagsmenn sem eiga ekki hlut í skrifstofunni hafa horft ofsjónum til þess arðs sem greiddur er út og vilja eiga hlutdeild í honum. Það hefur verið unnið að því að breyta þessu og gefa nýjum félagsmönnum kost á að eignast hluti. Liður í þessu ferli var að lækka verðmæti félagsins með nokkuð stórri arðgreiðslu fyrir tveimur árum til þess að hlutafjárkaup þessara aðila yrðu aðgengilegri. Ég hef talað fyrir þess­um breytingum innan stjórnar Ferða­þjónustu bænda og yrði fyrir miklum vonbrigðum ef félagsmenn kaupa ekki hluti þegar þetta tækifæri gefst,“ segir Sigurlaug og nefnir að e.t.v. muni það bæta félagsandann og tryggð við Ferðaþjónustu bænda hf. þegar fleiri rekstraraðilar geti haft þarna arðsvon.
 
Vonandi kemur ekki stórt bakslag
 
Aðspurð um þróunina í íslenskri ferða­þjónustu síðustu misserin viður­kennir Sigurlaug að hún sé með miklum ólíkindum. 
 
„Þetta er lyginni líkast – sá mikli fjöldi sem kemur til landsins. Það getur ekki verið að þetta haldi áfram endalaust en vonandi kemur ekki stórt bakslag sem leiðir til þess að við sitjum uppi með vannýtt þjónusturými. Ég get alveg sætt mig við að það dragi úr hraðanum og tel að það væri ekki slæmt að það dragi úr fjölgun ferðamanna. Við höfum verk að vinna við að dreifa ferðamönnunum meira um landið og þar held ég að heimamenn á hverjum stað þurfi að taka höndum saman og vinna heima­vinnuna. Það þýðir ekki að bíða eftir því að einhver renni í hlað eða að einhver óskyldur aðili byggi upp svæðið þitt – við verðum að vita hvað við viljum sjálf. Þarna eiga sveitarfélög að taka höndum saman við landeigendur og marka stefnu,“ segir Sigurlaug Gissurardóttir, formaður Félags ferðaþjónustubænda og bóndi á Brunnhóli.
 

8 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...