Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Katrín Andrésdóttir litar ull sem selst eins og heitar lummur á Þingborg.
Katrín Andrésdóttir litar ull sem selst eins og heitar lummur á Þingborg.
Fréttir 13. ágúst 2020

Býr til litrík verðmæti úr íslensku ullinni

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Katrín Andrésdóttir, fyrrverandi héraðsdýralæknir, hefur undan­farin ár litað íslenska ull í öllum regnbogans litum undir merkinu Slettuskjótt sem selst eins og heitar lummur á Þingborg. Katrín segir mikil verðmæti felast í íslensku ullinni og að ullin sé framtíðarefni í textíl. 
 
„Ég hef verið í Þingborgarhópnum frá upphafi, eða í 30 ár, og eftir að ég hætti að vinna fyrir nokkrum árum fór ég að sinna handverkinu meira. Við erum góður hópur handverksfólks með fjölbreytta þekkingu og í Þingborg höfum við frábæran sölustað. Gæðanefnd sér til þess að aðeins er á boðstólum úrvals vara úr íslensku efni.
 
Það er mjög gaman að læra nýjar aðferðir og efnistök. Maja Siska, þýskur arkitekt og listamaður sem býr í Skinnhúfu í Holtum, hefur verið einstaklega dugleg að halda námskeið í ullarvinnslu. Hún fékk meðal annars eitt sinn Lauru Spinner, barnalækni og þráðlistakonu frá Bandaríkjunum, til að halda litunarnámskeið. Kennd var notkun duftlita, litaduft leyst upp í ediksblöndu og hitað í örbylgjuofni eða potti. Þarna náði ég tökum á lituninni og hef síðan litað band, lopa og jafnvel heil prjónastykki, trefla og peysur. Þetta hefur allt selst ótrúlega vel, töluverð nákvæmnisvinna en það er jú vinna við allt sem maður vill gera vel,“ segir Katrín.
 
 
Fá sótspor í ferlinu
 
Katrín segir Þingborgarhópinn heppinn með það að vera með úrvalsull í höndunum en ár hvert fer hópurinn í þvottastöð Ístex á Blönduósi þar sem þau fá að velja bestu ullina. Samstarfið við Ístex er mjög mikilvægt.
„Ullin er rekjanleg alla leið til bónda, ég reyni líka að velja ull frá svæðum þar sem ekki er ofbeit. Ístex vinnur síðan fyrir okkur lopa, einband og tvíband. Lopinn okkar er orðinn landsþekkur, kannski vita færri að einbandið og tvíbandið er líka miklu mýkra.
Sótsporin eru mikilvæg. Okkar ull fer aldrei út fyrir landsteinana en mjög víða hafa ullarvinnslustöðvar lagst af og flutningar á ull eru miklir. Dýravelferð og mengun eru líka mikilvægir þættir þegar valið er band fyrir prjónaskapinn. Margir velja merinóull, úrvals ull af langræktuðu fé. Þá verður að skoða upprunann og velja vottað „non-mulesing“. Merinofé er með mikinn dindil og húðfellingar á rassi, maðkaflugur (blowflies) sækja í að verpa þarna og þá geta kindurnar maðkað lifandi. Groddaleg lausn Ástrala á þessu er s.k „mulesing“ dindill og skinn skorið niður af rassi ódeyfðra lamba. Ástralir framleiða u.þ.b. 75% ullar á heimsmarkaði.“
 
 
Ull er framtíðarefni í textíl
 
„Superwash“ ullin getur verið mikill umhverfissóði. Algeng framleiðsluaðferð er fjarlæging hreistursins af ullarhárunum með klórefnum sem gjarnan er gert í Kína. Síðan er ullin meðhöndluð með plastefnum (t.d. resin) en þessi plastefni losna síðan úr í þvotti og fara út í náttúruna sem örplast.
Litun ullar fer líka oft fram í löndum þar sem ekki eru gerðar miklar kröfur vegna umhverfisverndar. Iðulega fer lokafrágangur, svo sem spuni og pökkun, fram í löndum sem við treystum, ferlið er því oft ógagnsætt. Nú er mikil vakning vegna fatasóunar, prjónaband er mikilvægur þáttur sem við verðum að skoða.
Íslenska ullin er því yfirleitt umhverfisvænn kostur. Góðar ullarflíkur þarf sjaldan að þvo, þær halda vel  lögun sinni og slitna yfirleitt fallega. Efnasamsetning ullar er til helminga bundið kolefni, því er hægt að skila henni aftur til jarðarinnar og hún grotnar þá niður á fáum árum. Ull er framtíðarefni í textíl, ég er sannfærð um það.“
 
Skoðið meira á instagram.com/slettuskjott/ og facebook.com/slettuskjott/