Ólafur Ericsson handleikur töðuna.
Ólafur Ericsson handleikur töðuna.
Fréttir 13. ágúst

Brennivín sem ilmar af sveitinni

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Nýverið kom á markað nýtt handgert íslenskt brennivín frá fyrirtækinu Brunni Distillery sem ber nafnið Þúfa og er skír­skotun í ís­lenska sveit. Upprunalega átti vínið að heita Hey­skapur enda er reyrgresi uppistaða sem bragð­efni vínsins sem gefur mjúkt og gott heybragð af brennivíninu. 
 
„Þetta var hugsað sem drykkur hestamanna, eins og ginið sem við settum á markað árið 2016, Himbrimi, sem var hugsað sem drykkur veiðimanna. Himbriminn átti upprunalega að vera til einkanota í veiðiferðum fjölskyldunnar en síðan komust barþjónar í þetta og úr varð að ég og ítalskur félagi minn, Junio Carchini, hófum að þróa vöruna til sölu. Árið 2019 vann Himbrimi verðlaun sem besta gin í sínum flokki á heimssýningu ginframleiðenda og þá fór boltinn enn frekar að rúlla. Nú er himbriminn borinn fram á Michelin-veitingastöðum víða í Evrópu og er jafnan dýrasta ginið á matseðlinum. Undanfarið höfum við síðan þróað brennivín og er Þúfa afrakstur þess,“ útskýrir Óskar Ericsson, annar eigenda Brunns. 
 
 
Sætur vanillukókoskeimur
 
Félagarnir vinna út frá því markmiði að nota úrvalshráefni til að framleiða hágæðavörur þar sem íslenska vatnið leikur stórt hlutverk. Þeir auglýsa ekki vörurnar sínar heldur nýta sér orðsporið til að koma vörunum á framfæri.
„Við vildum endurheimta orðspor brennivínsins og framleiða gæðavöru en einnig að leggja íslenskri byltingu lið sem er að hefja fáguð eimingahús til vegs og virðingar. Þúfa er okkar framlag í arfleifð hins íslenska brennivíns og viljum við kynna það erlendis sem hágæða áfengi. Útgangspunkturinn í Þúfu er íslenskt reyrgresi svo það er mikið heybragð af brennivíninu. Reyrgresi hefur verið notað til að gefa góða lykt inn á heimili og hefur verið notað til dæmis á kirkjugólfum og inn í skúffur sem dæmi. Það gefur sætan vanillukókoskeim og síðan notum við kúmen til að það teljist brennivín ásamt vallhumli. Þetta er búið til af mikilli natni og er í raun íslensk útgáfa af ákavíti,“ segir Óskar.
 
Enginn ruddi
 
„Ég fer með ljá á sumrin og slæ reyrgresið sem ég tek niður við fjöru svo það er svolítil selta í því sem gefur örlítinn karamellukeim. Síðan er það þurrkað og því snúið daglega eins og heyi. Síðan notum við gæðaspíra og sérsmíðaðan eimingarketil en þetta er eimt yfir vatnsbaði við 360 gráðu hita. Það eykur mýkt vörunnar og notað er íslenskt hveravatn í eimingunni. Útkoman verður síðan mjúkt og flókið brennivín sem gefur mikið bragð og eftirbragð svo þetta er enginn ruddi. Það má segja að þetta ilmi af sveitinni og íslenskri náttúru og gott er að dreypa á þessu með klaka og njóta frekar en að skjóta þessu í sig. Við höfum fengið mikinn meðbyr og seljum nú til margra landa í Evrópu ásamt Ameríku og Ástralíu. Það kom örlítið bakslag núna vegna kórónukrísunnar en það er í raun til góðs því þá hefur okkur unnist tími til að fara í enn frekari vöruþróun.“