Bærinn okkar 19. mars 2020

Skarð

Að sögn Vilborgar Ástráðsdóttur, ábúanda í Skarði, er jörðin stórmerkileg. „Hún er það að því leyti að á henni er tjörn sem heitir Kumbutjörn og samkvæmt áreiðanlegum fornum heimildum býr þar óvætturinn og þjóðsagnadýrið Nykurinn. Sagt er að hann ferðist neðanjarðar á milli Kumbutjarnar og Úlfsvatns á Vörðufelli og tjarnarinnar á Miðfelli. Þess má geta að allir gráu hestarnir sem eru í Skarði eru úrvals reiðhestar,“ segir Vilborg.

Skarð er fyrrum prestssetur en árið 1980 keyptu annars vegar hjónin Sigurður Björgvinsson og Jenný Jóhannsdóttir og hins vegar Jón Áskell Jónsson og Guðbjörg Kristinsdóttir jörðina og skiptu á milli sín. Árið 1999 byggðu Sigurður yngri og Vilborg íbúðarhús á jörðinni. Árið 2003 brá Jón Áskell búi eftir fráfall Guðbjargar og Benedikt Björgvinsson, bróðir Sigurðar eldri, og Erna Gísladóttir kona hans ásamt Sigurði og Jenný keyptu hans hlut í jörðinni. 

Býli: Skarð, Skeiða- og Gnúp­verjahreppi.

Staðsett í sveit:  Skarð er í svokallaðri framsveit hins gamla Gnúpverjahrepps. Stóra Laxá norðvestan megin og sjá má glitta í Þjórsá til suðausturs.

Ábúendur: Sigurður Björgvinsson og Jenný Jóhannsdóttir ásamt Sigurði syni þeirra og Vilborgu tengdadóttur.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): Sigurður og Vilborg eiga fjögur börn, Ástráð, Sigurlinn, Magnús og Hrafnkel.

Þrír hundar sem eru dyggir aðstoðarmenn og þó nokkrir kettir sem hafa aðallega það hlutverk að vera skemmtikraftar og músabanar.

Stærð jarðar?  Um 400 ha.

Gerð bús? Í Skarði er blandaður búskapur. Nautaeldi í samstarfi við nágrannana í Þrándarholti.   Hrossarækt og sauðfjárbúskapur til gleði og yndisauka.

Á bænum eru fáein frístundahús sem eru leigð út til ferðamanna. Einnig er stunduð skógrækt á bökkum Stóru Laxár.

Sigurður og Jenný eru komin á eftirlaun eftir langan starfsaldur í Búrfelli (Sigurður) og frá kennarastörfum (Jenný).

Sigurður yngri er verkfræðingur og smiður og vinnur fjölbreytt verkfræðistörf á skrifstofu hér í Skarði. Vilborg er leikskólakennari og vinnur hálfa vinnu í leikskóla en rekur einnig silkiprentvinnustofuna Híalín hér í Skarði.

Fjöldi búfjár og tegundir? 50– 60 naut í fjósi. 50–60 hross á vetrarfóðrum og 17 kindur.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum?  Ræs á hefðbundnum morgunverðartíma til að komast í skóla og vinnu. Morgungegningar þegar búið er að drekka nokkra kaffibolla.
Síðan tekur hefðbundinn vinnudagur við; verkfræðistörf, leikskóli/silkiprentun og sauma­skapur. Kvöldgjafir og útreiðar fyrir kvöldmatartíma.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Alltaf erfiðast þegar skepnur slasa sig og það er kannski ekki hægt að segja að naut séu skemmtikraftar.  En sannarlega skemmtilegast þegar ungviðið fæðist – fylgjast með vorkomunni og auðvitað má ekki gleyma fjallferðum.

Á bænum þarf að vera til dágóður hópur af færum fjallhrossum því 3 fjölskyldumeðlimir hafa fjallferðir að sérstöku áhugamáli og sá fjórði bíður óþreyjufullur eftir því að hafa aldur til að fara til fjalls.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár?  Hestamennskan og hrossaræktin eru það sem málið snýst um og lögð verður áfram áhersla á að vera með fáar en góðar kindur.
Líklega verður dregið úr nauta­eldinu smátt og smátt.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara?
Að auka verðmætagildi íslenskra landbúnaðarvara í augum almennings og að auðvelda rekjanleika.
Íslenska lambakjötið er stórkostlega vanmetið og það mætti hvetja vinsæla matarbloggara til að nota það meira – því það tekur mjög vel við kryddi og hægt að nota á mjög fjölbreyttan hátt. Hugsanlega mætti auka aðgengi að úrbeinuðu lambakjöti í verslunum – að það sé jafn auðfengið og kjúllinn.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Alltaf til smjör og rjómi, ef það vantar þá eru vandræði og ekki hægt að elda neitt af viti.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Hamborgari úr heimaslátruðu nauti, með beikoni frá Korngrís og glás af grænmeti frá Flúðum.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Margt mjög skemmtilegt og yfirleitt hægt að hafa gaman af öllu.  Spretthlaupið á eftir graðhestinum er kannski örlítið minnisstætt. En það vildi til að sumarstarfsmaður Skógræktarinnar hafði óvart misst út úr girðingunni spriklandi graðhest – því hann hafði ekki alveg reynslu eða kunnáttu til að opna hlið, passa upp á að hesturinn slyppi ekki út og keyra í gegn. Eftir hlaupin þurfti svo að hugga þennan ágæta en hágrátandi mann því hann var sannarlega miður sín yfir mistökunum á fyrsta deginum í nýju sumarvinnunni.