Bærinn okkar 07. maí 2020

Selalækur

Á Selalæk hafði búið sama fjölskyldan síðan 1946 þangað til við kaupum af þeim Bjarna Jónssyni og Kristínu Bragadóttur og tökum við búinu þann 11. febrúar 2020.

Býli:  Selalækur 2.

Staðsett í sveit:  Selalækur er staðsettur á Rangárvöllum.

Ábúendur: Þorgeir Þórðarson og Sólveig Mekkin Eggertsdóttir.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): Þorgeir og Sólveig Mekkin ásamt 4 börnum; Antonía Líf, 14 ára, Glódís Líf, 10 ára, Indíana Líf og Þór Karel sem eru bæði 7 ára og 2 hundar og slatti af köttum.

Stærð jarðar?  218 ha og þar af 90 ha ræktaðir.

Gerð bús? Mjólkurkýr og sauðfé.

Fjöldi búfjár og tegundir? 62 mjólkurkýr, 57 kvígur, 55 naut, 40 kindur og 2 hrútar.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Byrjum daginn á því að mjólka kýrnar eftir mjaltir eru svo er það nokkuð breytilegt eftir dögum og árstíma.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Það er nú ekkert sem er skemmtilegra en annað, þetta er svo fjölbreytt en heyskapurinn kemur samt upp í hugann þegar meður fer svona yfir störfin.
Leiðinlegast þegar gripur veikist eða drepst og þegar það bilar eitthvað í mjaltakerfinu.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Það verður tíminn svolítið að leiða í ljós. Róbót er á innkaupalistanum og svo stefnum við bara á að lifa og njóta.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í framleiðslu íslenskra búvara? Mjólkurframleiðsla og svo höldum við að grænmetisrækt á Íslandi eigi gott tækifæri núna.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Mjólk, ab mjólk, egg og rabarbarasulta.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Grillað folaldakjöt og með því.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar yngsta dóttirin (7 ára) á bænum spurði pabba sinn í mjöltum hvort að það kæmi nýr pungur á kúna þegar þessi pungur væri búinn, benti á júgrað á kúnni, mjög hugsi á svip.