Bærinn okkar 07. nóvember 2019

Hjálmsstaðir 1

Daníel Pálsson er alinn upp á bænum Hjálmsstöðum í Laugardal í Bláskógabyggð og tekur við jörðinni af afabróður sínum.

Þau Ragnhildur Sævarsdóttir flytja að Hjálmsstöðum eftir nám á Hvanneyri árið 2008, gerðu upp gamalt hús og hreiðruðu um sig. Tóku svo við búskapnum af for­eldrum Daníels árið 2013 og byggðu nýtt fjós sem tekið var í notkun árið 2015. Daníel er fimmti bóndinn í beinan karllegg sem stundar búskap á Hjálmsstöðum og hefur sama ættin búið þar frá miðri 19. öld.

Býli:  Hjálmsstaðir 1.

Staðsett í sveit:  í Laugardal, Bláskógabyggð.

Ábúendur: Daníel Pálsson og Ragnhildur Sævarsdóttir.

Fjölskyldustærð (og gæludýra):  Við hjónin og börnin okkar þrjú, Kári, 12 ára, Védís, 7 ára og Dagur Steinn, 4 ára.

Stærð jarðar? Tæpir 900 ha. Þar af um 60 ræktaðir. 

Gerð bús? Hér er rekið kúabú.

Fjöldi búfjár og tegundir? Við erum með rúmlega 40 mjólkandi kýr, kvígur og uppeldi sem því fylgja, nokkrir nautgripir aldir til slátrunar og 4 reiðhestar okkur til skemmtunar. Lífræna músagildran Ari stendur sig líka vel. Samtals eru þetta rúmlega 100 gripir.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Farið er í fjós klukkan sex alla morgna. Komið inn rétt áður en skólabíllinn rennur í hlað og séð til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig í þeim efnum. Þeim minnsta er komið á leikskólann og þá taka við gegningar, viðhald, gjafir, þrif og annað þvíumlíkt sem tilheyrir búgerð sem þessari. Eftir að síga fór á seinni hluta kvótaársins hefur færst æ meir í aukana að fara þurfi í aukavinnu á milli mála. Kvöldin enda síðan á mjöltum og svo er farið út í fjós rétt fyrir svefn til að aðgæta beiðsli og bjóða góða nótt.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Það sem sumum finnst leiðinlegt finnst öðrum skemmtilegt. Ragnhildi finnst leiðinlegt að gefa kálfum pela, krökkunum finnst það skemmtilegt. Daníel þolir ekki bókhald og kemur þá ekkert nálægt því. Þetta endar með því að öll verk eru unnin af einhverjum sem finnst það bara nokkuð fínt.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Ómögulegt að segja, verð og framboð á kvóta ráða þar miklu.

Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Grasrótin er öflug og við berum mikla virðingu fyrir þeim sem gefa sig í það erfiða starf að vera í forsvari fyrir bændastéttina.

Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Sóknarfærin eru víða. Við erum að framleiða frábærar afurðir við síbatnandi aðbúnað dýra og vinnuaðstæður.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Við erum kannski ósköp heimóttarleg en okkur finnst ekkert prinsippmál að flytja eigi út vörur. Það útheimtir gríðarmörg kolefnisspor sem heimurinn allur hefur ekkert efni á, svo eru þetta síbreytilegir markaðir sem eru að gefa misjafnt af sér, hálfgert lotterí. Við viljum styrkja innanlandsmarkaðinn og ekki treysta um of á útflutninginn.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Ísskápurinn er annaðhvort hálftómur eða hálffullur, svarið er misjafnt eftir því hver situr fyrir svörum.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Gúllassúpa, grjónagrautur og spælt egg.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar við rákum kýrnar í vetrarfærð þann 4. október 2015 eftir morgunmjaltir frá gamla fjósinu yfir í það nýja. Einnig var mjög eftirminnilegt þegar við stóðum í framkvæmdum við byggingu nýs fjóss og Daníel rétt náði að skola steypuna af stígvélunum og kveðja her manna sem voru að byggja fjósið því við áttum pantaðan tíma í keisara með þann yngsta. Daníel tók svo síðasta símtalið til að staðfesta kaupin á steinbitunum rétt áður en uppskurður hófst.