Horft til suðurs yfir Kleifar við vestanverðan Ólafsfjörð. Ytri-Á lengst til vinstri á myndinni, sem var tekin sumarið 1969.
Horft til suðurs yfir Kleifar við vestanverðan Ólafsfjörð. Ytri-Á lengst til vinstri á myndinni, sem var tekin sumarið 1969.
Mynd / Úr einkasafni
Fólk 19. október 2020

„Þetta var í hæsta máta mjög sérstakt og forvitnilegt“

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Mér finnst að þessi saga eigi erindi til fólks. Aðstæður Íslendinga nú eru auðvitað gjörbreyttar frá því sem Ytri-Ár fjölskyldan bjó við á tuttugustu öld. Lífsbaráttan í þá daga laut að því að eiga í sig og á, fólk dró fram lífið af gæðum náttúrunnar til lands og sjávar,“ segir Óskar Þór Halldórsson, sem hefur skrifað bókina Á Ytri-Á. Óskar Þór starfaði lengi við blaða- og fréttamennsku. 

Ytri-Á vísar til Ytri-Gunnólfsár á Kleifum við vestanverðan Ólafs-fjörð. Þar er húsaþyrping og þegar flest var á tuttugustu öld bjuggu þar hartnær hundrað manns sem lifði af landbúnaði, sjóróðrum og fiskverkun. 

Þungamiðjan í þessari nýju bók, er saga hjónanna Finns Björnssonar og Mundínu Þorláksdóttur á Ytri-Á á Kleifum og tuttugu barna þeirra sem þau eignuðust á 28 árum, frá 1917 til 1945. Sextán barnanna komust til fullorðinsára, fjögur dóu í æsku. Finnur og Mundína létust á níunda áratug síðustu aldar. Átta af sextán börnum þeirra sem komust til fullorðinsára eru á lífi. Afkomendur Finns og Mundínu eru nú tæplega fjögur hundruð. 

Á Ytri-Á er yfirgripsmikil saga þar sem varpað er ljósi frá ýmsum hliðum – í gleði og sorg – á hið daglega líf stórfjölskyldunnar á Ytri-Á. Kleifarnar, Ólafsfjörður, Hvanndalir og Héðinsfjörður koma hér líka við sögu. Bókin er 516 blaðsíður og í henni eru á sjötta hundrað ljósmyndir, sem flestar hafa ekki áður birst. 

Mundína og Finnur með sextán börnum sínum sem komust til fullorðinsára. 

Sögusviðið stórt og óvenjulegt

„Sagan um Finn og Mundínu og börnin þeirra tuttugu er eðli málsins samkvæmt viðamikil. Sögusviðið er stórt og óvenjulegt, ég þekki þess engin önnur dæmi frá tuttugustu öld að hjón hafi eignast saman tuttugu börn. Þetta var því í hæsta máta mjög sérstakt og forvitnilegt,“ segir Óskar.  Skriflegar heimildir um Ytri-Ár fjölskylduna og lífsbaráttu hennar eru af skornum skammti og því var einnig stuðst við munnlegar heimildir. 

„Ég tók mikinn fjölda viðtala við afkomendur Ytri-Ár hjónanna og fleiri til þess að fá mynd af þeim og heimilishaldinu á Ytri-Á.“ 

Sumrin nýtt til að afla matar fyrir veturinn

Óskar bendir á að aðstæður okkar Íslendinga nú séu gjörbreyttar frá því sem Ytri-Ár fjölskyldan bjó við á tuttugustu öld.  Sem dæmi eignast konur á Íslandi nú að meðaltali 1,8 börn, ekki ósvipað því sem tíðkast í okkar nágrannalöndum, en langt fram eftir tuttugustu öld var algengt, einkum til sveita, að á hverjum bæ væru 5–10 börn. 

„Fyrir íslenska vísitölufjölskyldu á árinu 2020 er það eðlilega áleitin spurning hvernig í ósköpunum hjón gátu eignast tuttugu börn. Þeirri spurningu er eiginlega ekki hægt að svara með öðrum hætti en að þær kröfur sem fólk á þessum tíma gerði til lífsins og þjóðfélagsins voru á allt öðrum nótum en nú til dags. Fólkið á Ytri-Á bjó við kröpp kjör en það var aldrei skortur á nauðsynjum. Lífsbaráttan laut að því að eiga í sig og á. Fólk dró fram lífið af gæðum náttúrunnar til lands og sjávar. Sumrin voru nýtt út í ystu æsar til þess að afla matar fyrir veturinn. Stíft var róið til fiskjar á sumrin áður en sláttur hófst og síðan tók heyskapurinn við og loks sláturtíðin.“

Mundína Þorláksdóttir og Finnur Björnsson. 

Þröngt máttu sáttir sitja

Mundína og Finnur voru samheldin við barnauppeldið og heimilishaldið. Um margt voru þau þó ólík. Finnur var áberandi maður í byggðarlaginu og sagði skoðun sína umbúðalaust á mönnum og málefnum. Mundína var að sögn Óskars jafnlynd kona sem skipti aldrei skapi og gekk að verkum sínum með bros á vör. 

„Hún sagði stundum að hún skipti sér ekki af því sem henni kæmi ekki við. Að fæða tuttugu börn er sérstakur kapítuli. Tuttugu fæðingar á tuttugu og átta árum,“ segir hann og bætir við að í barnahópnum voru engir tvíburar.

„Þrátt fyrir mikil þrengsli kvörtuðu krakkarnir ekki. Eldri börnunum var gert ljóst að foreldrarnir kæmust ekki hjálparlaust yfir að annast öll verk sem þyrfti að vinna á heimilinu og því yrðu þau að koma í ríkum mæli að uppeldi yngri systkina sinna. Það þótti eldri börnunum sjálfsagt og eðlilegt og því skapaðist mikil samheldni milli systkinanna sem hefur haldist alla tíð.“

Ummælin eru afkomendum ráðgáta

Mundína var að sögn almennt heilsuhraust og fæddi öll börn sín án teljandi vandkvæða. Sýndi hún börnum sínum og barnabörnum alla tíð mikla ástúð og umhyggju. Ein frægasta setning íslenskrar sjónvarpssögu er að sögn Óskars afkomendum hennar nokkur ráðgáta. Tuttugu barna móðirin sagði í viðtali við Sigrúnu , fréttakonu á Ríkissjónvarpinu, árið 1980 að hún hafi eiginlega ekki haft gaman af börnum! Og bætti svo við: – „Þetta er sjálfskaparvíti manns sjálfs að eiga svona mörg börn.“

Útgáfuhóf Á Ytri-Á í Tjarnarborg í Ólafsfirði. Sex af átta börnum Mundínu og Finns sem eru á lífi veittu fyrstu eintökunum viðtöku. Frá vinstri: Jón Albert, Aðalgeir Gísli, Fjóla Bára, Sólrún Guðrún, Héðinn Kristinn og Óskar Þráinn Finnsbörn.

Fjöldi rafrænna listviðburða fyrir grunnskólanemendur um allt land
Fólk 17. nóvember 2020

Fjöldi rafrænna listviðburða fyrir grunnskólanemendur um allt land

„Það er virkilega ánægjulegt að geta miðlað svo fjölbreyttum og faglegum listvið...

„Þetta var í hæsta máta mjög sérstakt og forvitnilegt“
Fólk 19. október 2020

„Þetta var í hæsta máta mjög sérstakt og forvitnilegt“

„Mér finnst að þessi saga eigi erindi til fólks. Aðstæður Íslendinga nú eru auðv...

Íslensk náttúra í lykilhlutverki
Fólk 29. september 2020

Íslensk náttúra í lykilhlutverki

Magnús Ásgeir Elíasson, bóndi á Stóru-Ásgeirsá í Vestur-Húnavatnssýslu, gaf nýle...

Eini íslenski garðyrkjubóndinn sem ræktar sellerí til sölu í stórmörkuðum
Fólk 21. september 2020

Eini íslenski garðyrkjubóndinn sem ræktar sellerí til sölu í stórmörkuðum

Á Hverabakka II á Flúðum reka þau Þorleifur Jóhannesson og Sjöfn Sigurðardóttir ...

Lögleg heimaslátrun styður bændur í Bandaríkjunum
Fólk 14. nóvember 2019

Lögleg heimaslátrun styður bændur í Bandaríkjunum

Á vordögum 2019 birtust nokkrar greinar í Bændablaðinu [8., 9., 10. og 12. tbl. ...

Fær bændur til að nýta rekstur sinn til hins ýtrasta og hugsa í nýsköpun
Fólk 12. nóvember 2019

Fær bændur til að nýta rekstur sinn til hins ýtrasta og hugsa í nýsköpun

Árangur verkefna sem fylkisstjórinn í Nordland-fylki í Noregi hefur staðið fyrir...

Þar snýst lífið um ávaxtaræktun og safagerð
Fólk 22. október 2019

Þar snýst lífið um ávaxtaræktun og safagerð

Hjónin Åge Eitungjerde og Eli-Grete Høyvik eiga og reka ásamt syni sínum og teng...

Fyrstu úthlutanir úr doktorsnámssjóði
Fólk 17. október 2019

Fyrstu úthlutanir úr doktorsnámssjóði

Landbúnaðarháskóli Íslands úthlutaði nýverið úr doktorssjóði skólans í fyrsta si...