fimmtudagur, 15. apríl 2021 kl. 17:00

Hacking Norðurland

Dagana 15.–18. apríl fer fram nýsköpunarviðburðurinn Hacking Norður­land, sem er ætlað að virkja skapandi og lausnamiðaða hugsun, styðja við nýsköpun og fjölgun atvinnutækifæra á Norður­landi. Í verkefninu, sem er svokallað lausnamót þar sem frumkvöðlaverkefni keppa sín á milli, er lagt upp með að unnið sé að sjálfbærri nýtingu auðlinda eins og vatns og orku á svæðinu til matvælaframleiðslu.

Hægt er að skrá sig til þátttöku alveg þangað til lausnamótið hefst þann 15. apríl, en það má gera í gegnum vefinn Hugmyndaþorp (eða slóðinni hackinghekla.is) en í gegnum þann vettvang fer lausnamótið líka að mestu fram – meðal annars til að tryggja að allir áhugasamir um allt Norðurland geti tekið þátt.

Viðburðurinn hefst með opnunar­viðburði og vefstofu þar sem rætt verður um þau tækifæri sem felast í auðlindum svæðisins. Föstudaginn 16. apríl hefst svo lausnamótið sjálft sem stendur í 48 klukkustundir í gegnum Hugmyndaþorp, sem er stafrænn vettvangur til samsköpunar, þróaður af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla.