Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tollasamningurinn sem tók gildi 2018 – hverju hefur hann skilað?
Skoðun 3. desember 2020

Tollasamningurinn sem tók gildi 2018 – hverju hefur hann skilað?

Höfundur: Ingvi Stefánsson formaður Félags svínabænda

Nýverið skrifuðu Breki Karlsson formaður og Brynhildur Pétursdóttir frkv.stj. Neytendasamtakanna, greinina „Tollar, tap og traust“. Í þeirri grein er m.a. eftirfarandi fullyrðing sett fram um tollasamning sem gerður var við ESB 2015 og tók gildi 1. maí 2018. „Samningurinn var mikilvægt og löngu tímabært skref sem hefur skilað neytendum lægra verði.“ Mér þótti því tilefni til að kanna hvort sannreyna mætti fullyrðingu með því að nálgast gögn frá Hagstofunni frá þeim tíma þegar samningurinn tók gildi og til dagsins í dag. Meðfylgjandi mynd sýnir þróun vísitölu neysluverðs samanborið við verðþróun á kjöti samkvæmt sömu heimild.

Gögnin sýna skýrt að þessi fullyrðing er einfaldlega röng. Þ.e. kjöt hefur hækkað heldur meira en almennt verðlag í landinu. Af hverju setja fulltrúar Neytendasamtakanna svona fram án þess að kynna sér málið? Í áðurnefndri grein koma einnig fram kunnuglegir frasar um það hvernig tollverndin flytur verðmæti úr vasa neytenda yfir til innlendra framleiðenda og að samfélagið í heild tapi. En lífið er nú meira en excel og því hlýtur það að vera í besta falli barnaskapur að halda að með því að rýra stöðugt afkomu heillar greinar (bænda í þessu tilviki) sé hægt að skila einhverjum ábata beint til neytenda. Afkoma bænda hefur rýrnað verulega bæði með tollasamningum sem gerðir voru við ESB 2007 og 2015 og svo nú síðast með því að breyta fyrirkomulagi við útboð á tollkvótum. Það væri nú sárabót ef hægt væri að sjá þess merki að það tjón sem bændur hafa orðið fyrir myndi þó ekki nema að einhverju leyti skila sér í vasa neytenda. Myndin sýnir hins vegar engin merki þess. Hversu nærri á að ganga landbúnaðinum áður en stjórnvöld þora að taka á tollverndinni sem stöðugt rýrnar að verðgildi?

Norsk laun og grískt verðlag

Í áðurnefndri grein er einnig vitnað til nýlegrar skýrslu á vegum ANR þar sem fram kemur að tollar séu hvergi hærri en á Íslandi, Noregi og Sviss. Hver vill vera í samfloti með Norðmönnum og Svisslendingum? Þar eru víst allir að lepja dauðann úr skel, er það ekki? Á meðan við komumst ekki með umræðuna á það plan að ræða um hversu háu hlutfalli af ráðstöfunartekjum íslenska vísitölufjölskyldan ver til kaupa á matvælum til samanburðar við önnur lönd verður umræðan ekki ýkja málefnaleg. Auðvitað viljum við öll norsk laun og grískt verðlag, það er einfaldlega ekki í boði. Ég velti því oft fyrir mér þegar fjallað er um íslenskan landbúnað og þá staðreynd að hann nýtur tollverndar hver fréttin sé? Við erum að stunda landbúnað við mjög svo krefjandi aðstæður út frá hnattrænni legu og tollverndin er okkur því nauðsynleg. En svo ég vitni nú aftur í excel að þá mun hann alltaf gefa okkur þá niðurstöðu að „hagkvæmast“ sé að láta aðrar þjóðir sjá um að framleiða matinn fyrir okkur. Fæðuöryggi, kolefnisfótspor, sýklalyfjanotkun og dýravelferð, eru þetta einhver orð sem skipta neytendur máli? Að sjálfsögðu, en þau eiga það líka öll sameiginlegt að leiða til hærra matvælaverðs.

Bændur hafa talað um að vegna COVID og BREXIT áhrifa séu forsendur tollasamningsins frá 2015 brostnar.   Í mínum huga voru aldrei neinar forsendur fyrir samningi við Evrópusambandið þar sem fórnað var hagsmunum  hvíta kjötsins til að fá aukna tollkvóta fyrir mjólkurvörur og lambakjöt á markað Evrópusambandsins. Vonandi komumst við bændur sem allra fyrst á þann stað að átta okkur á því að heimamarkaðurinn er okkar langmikilvægasti markaður og honum eigum við fyrst og síðast að sinna. Kannski er það bara minnimáttarkennd hjá mér en ég tel einfaldlega að við eigum ekki möguleika á að keppa á erlendum mörkuðum við bændur sem fá  margfalda uppskeru pr. flatareiningu lands, nota margfalt magn af sýklalyfjum í sína framleiðslu og annar tilkostnaður er langtum lægri. 

Hver er staðan í svínaræktinni?

Hér er ekkert nýtt undir sólinni, þ.e. bændur fá færri krónur í vasann á meðan neytandinn þarf að greiða fleiri. Félag svínabænda er margbúið að benda á og vara við þessari þróun síðustu árin en án árangurs. Þannig vöruðum við ítrekað við því að bæði tollasamningurinn sem gerður var 2015 en  tók gildi 2018 og nýtt fyrirkomulag við útboð á tollkvótum (hollenska leiðin) myndi rýra afkomu bænda án þess að neytendur myndu njóta þess í hagstæðara vöruverði. Þessi gögn staðfesta það sem við höfum margoft sagt áður. Gleymum því ekki að innflytjendur á landbúnaðarvörum hafa á þessu tímabili fengið  um 3 milljarða endurgreidda frá ríkinu (sem neytendur voru búnir að borga) vegna oftekinna skatta í formi tolla. 

Stjórnlaus innflutningur

Þá er rétt að minna á að innflutningur á svínakjöti hefur farið úr því að vera 610% í byrjun þessa tímabils yfir í að vera orðinn um fjórðungur af allri neyslu á svínakjöti. Þá er reyndar eftir að taka tillit til þess að innfluttar pylsur og unnar kjötvörur eru að uppistöðu til úr svínakjöti þ.a. innflutningur er í raun umtalsvert meiri. Hvað þá heldur, ef satt reynist, að ekki komi allur innflutningur fram í opinberum tölum. Ef þessi þróun heldur áfram styttist í að innflutt svínakjöt fari fram úr innlendu í neyslu. Svínabændur hafa margoft kallað eftir því að dregin sé lína í sandinn. Við teljum eðlilegt að það sé stundaður innflutningur á svínakjöti að einhverju marki en fyrst og fremst til að anna eftirspurn í einstaka vöruliðum. En það hljóta allir að sjá að þetta getur ekki gengið svona lengur. Við fyrrgreindar aðstæður getur svínarækt ekki þrifist á Íslandi til framtíðar. Þessa stöðu þarf að fara yfir í heild sinni á sanngjarnan hátt. 

Það hefur verið sorglegt að vera vitni að áhuga og getuleysi stjórnvalda síðustu 15 árin í að standa vörð um íslenskan landbúnað. Bændur hafa líka fram að þessu algjörlega sofið á verðinum. Ég mun aldrei geta skilið hvernig fulltrúar bænda hafa trekk í trekk skrifað undir samninga um starfsumhverfi landbúnaðarins án þess að þar sé einn stafur um tollvernd. Í okkar hagsmunagæslu hefur verið alltof mikil áhersla á að endurnýja búvörusamninga og síðast var það beinlínis gert á kostnað tollverndar einsog allir vita sem vilja vita. Ég gerði mjög vel grein fyrir þeirri atburðarás á Búnaðarþingi árið 2016. Gleymum því ekki að við erum að keppa við þjóðir þar sem markaðsstærðir eru á skala sem við eigum erfitt með að skilja. 

Sem dæmi má nefna að Danish Crown í Horsens í Danmörku slátrar 100 þúsund grísum á viku. Til samanburðar er slátrað innan við 80 þúsund grísum á ári á Íslandi. Þannig verður íslenskur landbúnaður seint eða aldrei samkeppnisfær við innflutt matvæli ef einungis á að reikna dæmið í áðurnefndum excel.  Þetta umhverfi hefur leitt af sér mikla óvissu í minni búgrein og nú er svo komið að fjárfestingastyrkir sem hafa boðist svínarækt allt frá árinu 2017 liggja að mestu óhreyfðir. Úreldingarstyrkir voru hins vegar tæmdir strax. Fóður hefur hækkað mikið á þessu ári og birgðir hafa safnast upp bæði af innlendu og innfluttu kjöti og erfitt að sjá hvernig greinin á að komast klakklaust úr þessari stöðu. 

Það hefur reyndar verið mjög ánægjulegt að sjá hvernig núverandi forysta BÍ – með liðsinni búgreinafélaga og annarra hagsmunasamtaka – hefur öll lagst á árarnar að vekja athygli á því hvernig fjarað hefur undan tollverndinni og vonandi mun sú vinna skila einhverjum árangri.

Þrátt fyrir að staðan sé svona í dag held ég að framtíðin sé  björt fyrir íslenskan landbúnað til lengri tíma litið. Ég tel að bæði pólitíkin og bændur séu að átta sig á því að skynsamlegt sé að tryggja tollverndina og að einblína á að framleiða úrvalsvöru fyrir innlendan markað og haga framleiðslumagni í samræmi við það. Neytendur gera aukna kröfu um að fá heilnæma vöru og vilja vita upprunann þ.a. það er margt jákvætt í kortunum. 

Ingvi Stefánsson,

formaður Félags svínabænda

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...