Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Þess skal getið sem vel er gert
Á faglegum nótum 25. nóvember 2015

Þess skal getið sem vel er gert

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Dreifing á fagefni í landbúnaði hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum. Sú var tíðin að þarna var um verulega fjölbreytta flóru að ræða. 
 
Freyr
 
Freyr var þarna mesti öldungurinn, náði að lifa í rúma öld og ekki hvað síst á síðasta fjórðungi síðustu aldar var efnið oft á tíðum mjög fjölbreytt og umfangsmikið áður en hann geispaði golunni. Handbók bænda var komin vel til ára sinna þegar hún gafst upp á rólunum, að vísu komið allmikið af leið undir lokin að vera almanak bænda. Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands var einnig merkilegt og virðulegt rit komið vel til ára sinna þegar félagið dó og ritið þar með. 
 
Í tvígang var utan félagasamtaka bænda gefið út Búnaðarblaðið í rúman áratug í hvort skiptið og þekki ég talsvert til þess starfs í síðara skiptið. Þó að útgáfan væri að öllu leyti sjálfboðavinna þá voru þetta skemmtilegir tímar og tel ég mig vita að það hafði jákvæð áhrif á faglega landbúnaðarumræðu og miðlaði ýmsum bitastæðum hlutum til bænda. 
 
Fagrit Búnaðarfélagsins
 
Á tímabili stóð Búnaðarfélag Íslands að útgáfu fagrita; Nautgriparæktin og Sauðfjárræktin. Líka þar held ég ýmislegt lífvænlegt efni hafi komist á framfæri. Þessi útgáfa lagðist af og hjá fagfélögum þessara greina sem á þeim tíma voru á bernskuskeiði örlaði ekkert á áhuga til að gera þetta að fagritum viðkomandi greina eins og er vel þekkt á öðrum Norðurlandanna. 
Fagefni í hrossarækt
 
Í hrossaræktinni hefur aftur á móti tekist að halda uppi útgáfu fagefnis og er staða þeirra mála í allt öðru og betra formi þar en hjá öðrum greinum. Enda miðlun fagefnis þar af þessum ástæðum mun öflugri. 
 
Margt varð skammlíft
 
Fjölmargt fleira mætti hér telja upp sem margt varð skammlíft. Þær skýringar voru gefnar á þessum mikla dauða í útgáfu ritaðs fagefnis í landbúnaði voru á þeim tíma að ekki væri rekstrarlegur grundvöllur fyrir neinni slíkri útgáfu. Þetta held ég að hafi verið nokkur hálfsannleikur. Á þeim árum barðist útgáfa á Hrútaskrá og Nautaskrá nokkuð í bökkum og talin starfseminni í þessum greinum íþyngjandi. Ég og ýmsir fleiri sem komum að útgáfu þessari þá, færðum það í tal að þessa útgáfu mætti áreiðanlega auðveldlega fjármagna með auglýsingasölu. Þeir sem þá stjórnuð þeim málum hér höfðu aldrei heyrt fáránlegri fréttir. Við ákváðum því að kalla til aðra aðila að sinna þeim málum og síðan hefur þessi útgáfa siglt sinn sjó og virðist njóta talsverðra vinsælda. Þess vegna er mín bjargfasta skoðun að ekki minni hlut í áðurnefndum dauða ritaðs fagefnis í landbúnaði megi rekja til alleinarðs ásetnings nýrra stjórnenda BÍ snemma á þessari öld að geta gengið að mestu dauðri allri viðleitni til miðlunar á faglegu efni í landbúnaði.
 
Íslenskar landbúnaðarrannsóknir
 
Íslenskar landbúnaðarrannsóknir voru fyrst gefnar út um 1970 og hafa haldið sinni útgáfu með fjölbreyttum nafnbreytingaferli allt til þessa dags. Í árdaga birti það eina þekktustu vísindaritgerð á sviði landbúnaðar sem hér á landi hefur verið skrifuð, doktorsritgerð Stefáns Aðalsteinssonar um litaerfðir sauðfjár. Síðan held ég segja megi að þetta rit hafi haldið vel faglegri stöðu sinni og reisn þó að það eins og allt annað sem snýr að rannsóknarstarfi í greininni hafi liðið fyrir tveggja áratuga sveltistefnu stjórnvalda. Þó að faglegur styrkur sé góður held ég að leið efnis þess út til hins almenna bónda sé þyrnum stráð. Frekast mun það skreyta bókahillur á skrifstofum nokkurra aðila sem enn telja sig geta sinnt einhverju rannsóknarstarfi.
 
Útgáfa á pappír ekki dauð
 
Margir segja að útgáfa lesefnis á pappír heyri til liðinni tíð. Þetta held ég sé hin argasta bábilja. Þessir aðilar segja að fagmiðlun í netheimum sé orð dagsins. Ungt og dugmikið fólk hóf fyrir allnokkrum árum útgáfu á rafrænum faglegum miðli sem kallaðist Freyja og gerði það með miklum sóma en því miður virðist það hafa dáið drottni sínum. 
 
FJARVÍS af hreinni snilld
 
Ég tel mig einnig í ár hafa fylgst mjög vel með viðbrögðum notenda við nýrri útgáfu af FJARVÍS sem Eyjólfur Ingvi Bjarnason hefur leitt af hreinni snilld. Ég þekki það líka að faglegan áhuga ótrúlega stórs hóps í greininni skortir síst. Þrátt fyrir það verð ég að segja að viðbrögð notenda við notkun kerfisins sem leiðbeininga- og hjálpartækis hefur valdið vonbrigðum í ljósi þess hve notkun þess er þjál. Þetta veit ég að færist allt til betri vegar þegar Eyjólfur fer að heimsækja ykkur úti um sveitir landsins. En um leið er þetta mér enn ein ábending um að notkun hinna rafrænu miðla er verulega ofmetin af þeim sem hæst gala í þeim efnum.
 
Bændablaðið
 
Bændablaðið hóf útkomu sína undir lok síðustu aldar. Útgáfa þess hefur tekist með einstökum ágætum. Það er allt að þakka frábærum ritstjórum og blaðamönnum allt frá upphafi. Blaðið hefur mikið þróast í þá átt að verða sterkt málgagn dreifbýlisins. Faglegir blaðamenn með verulega landbúnaðarþekkingu hafa ekki verið margir. Hins vegar tel ég mig þekkja það mikið til blaðsins og vita að þar standa allar dyr opnar til birtingar á slíku efni. Þess vegna stendur það upp á okkur sem teljum okkur hafa einhverju faglegu efni að miðla að standa í stykkinu. Þar höfum við starfsmenn RML, LBHÍ og annarra fagstofnanna landbúnaðarins því miður ekki efni á sjálfshóli. Þetta er okkar eini virki faglegi vettvangur sem er virkur í dag og okkur ber að nota.
 
Margar dyr stóðu opnar
 
Þegar ég var að hasla mér völl innan íslensks landbúnaðar fyrir mörgum áratugum fann ég mér að mestu vettvang innan rannsókna. Þar sem mér stóðu góðu heilli margar dyr opnar á þessum árum fann ég fljótt að leiðin frá stól rannsóknarmannsins yfir á fjósgólfið eða fjárhúskróna var of löng þannig að ég færði störf mín á annan vettvang til að geta betur miðlað minni faglegu þekkingu þangað sem hún gat nýst. Hvort það hafi borið nokkurn árangur er annarra að meta. 
 
Þar sem störf mín voru fjármögnuð af talsverðum hluta af opinberu fé leit ég á það sem skyldu mína að reyna að miðla nýrri faglegri þekkingu á þeim sviðum sem ég taldi mig færan til til bænda. 
Á þessum árum naut ég þeirra forréttinda að starfa með mörgum ungum nemendum við Framhaldsdeildina á Hvanneyri. Leit þá á það sem hluta af starfi að miðla með nemendum niðurstöðum slíkra rannsókna teldi ég þær það verðmætar. 
 
Íslenskar landbúnaðarrannsóknir hafa búið við alvarlegt fjársvelti
 
Íslenskar landbúnaðarrannsóknir hafa búið við alvarlegt fjársvelti um langt árabil. Þessu hefur fylgt að hlutur námsverkefna í rannsóknarstarfi fer hlutfallslega vaxandi með hverju ári. Því miður held ég að brestur á miðlun niðurstaðna þessara verkefna frá hendi LBHÍ hafi orðið of mikill ef hrossaræktin er undanskilin. Þetta gerist því miður á sama tíma og þörfin fyrir slíkri miðlun hefur eðli hlutanna vegna aukist. 
 
Tengsl kjötmats og ómmælinga
 
Þetta er orðin óþarflega langur formáli að efni greinarinnar. Á síðasta ári birtist BS-ritgerð við LBHÍ sem ég tel að verði að greina nánar frá. Ritgerð þessa skrifaði Jón Hjalti Eiríksson frá Gýgjarholtskoti og nefnist hún Tengsl kjötmats og ómmælinga, bætt kynbótamat og erfðaframfarir. Jón vann þetta verk undir leiðsögn Ágústs Sigurðssonar og Elsu Albertsdóttur.
 
Í flokki allra bestu ritsmíða
 
Ég vil vera fáorður um gæði ritgerðarinnar. Að mínu viti er hún í flokki allra bestu ritsmíða í íslenskum landbúnaðarrannsóknum frá upphafi vega. Ég hef engar efasemdir að gæði hennar eru slík að hún hefði staðið til mun æðri prófgráðu við flesta erlenda háskóla. Ekki er mögulegt annað en hvetja Jón og leiðbeinendur hans til að koma þessu efni sem allra fyrst fyrir augu vísindamanna um allan heim því að þangað á það fullt erindi.
 
Efni ritgerðarinnar er hins vegar það sem ég vil fara um nokkrum orðum. Fyrst að gera stutta grein fyrir efninu sem unnið var með en það eru gögn bænda úr skýrsluhaldsgrunni sauðfjárræktarinnar um þunga, kjötmat og ómmælingar lamba frá árunum 2000–2013 með tilheyrandi upplýsingum. Það eina sem ég sakna aðeins er að lærastig lambanna komust ekki einnig með vegna þess þau fylgja nánast öllum ómmælingum en hefðu veitt mikilvægar viðbótarupplýsingar til að meta þær miklu framfarir í vöðvavexti sem fjallað er um hér á eftir. Gögnin eru að umfangi farin nokkuð að nálgast fyrsta milljónatuginn. Mögulega er þetta umfangsmesta slík rannsókn sem gerð hefur verið um heimsbyggð alla í sauðfjárrækt. Þarna fást því nákvæmari niðurstöður um fjölda erfðastuðla en dæmi eru um áður.
 
Niðurstöðurnar sem slíkar koma mér ekki að óvart þar sem ég líklega þekki gögnin meira en nokkur annar. Hins vegar fást þarna staðfestar margar af þeim hugmyndum sem ég á undanförnum áratug hef verið að ræða við bændur um allt land á fundum. Góðu heilli fá þær allar sína staðfestingu þarna.
Í sambandi við umhverfisáhrif er helst að benda á það að staðfest er að kynjamunur er í fitumatinu og má bæta kynbótamat með því. Þetta tel ég mig hafa vitað lengi þó að það kæmi ekki fram í frumrannsókn Sigurbjarnar Óla sem við Ágúst notuðum á sínum tíma við myndum BLUP matsins. Eðli þessara áhrifa eru hins vegar þannig að seinagangur minn með breytingar hefur tæpast valdið nokkrum skaða í ræktunarstarfinu.
 
Arfgengi eiginleikanna er metið 0,31 fyrir fitumatið, 0,40 fyrir gerðarmatið, 0,36 fyrir ómfituþykkt og 0,39 fyrir bakvöðvaþykkt. Þetta eru heldur hærri tölur en við höfum unnið með til þessa. Það er í raun ekkert nema jákvætt um að segja vegna þess að það leiðir til að framfarir í ræktunarstarfinu eru í raun enn meiri en við höfum verið að ætla áður.
 
Þegar nýtt kjötmat var tekið upp kom skýrt fram að samhengi eiginleika í kjötmatinu væri óhagstætt, þ.e. að almennt fór saman lítil fita og lágt gerðarmat eða öfugt. Þá var okkur hins vegar ljóst út frá ræktunarstarfinu á Hesti og norður á Ströndum að hér mundi fremur vera um ræktunarsöguleg áhrif að ræða en líffræðileg. Þess vegna var ákveðið gengið til verks að breyta þessu sambandi með markvissu ræktunarstarfi. Jón sannreynir að þetta hefur tekist að talsverðu leyti. Ef til vill er þetta ein merkasta niðurstaða ritgerðarinnar vegna þess að mér er til efa að nokkru sinni hafi áður verið jafnskýrt sýnt fram á breytingar á erfðafylgni eiginleika. Þetta er ein enn staðfesting á því hve íslenska sauðféð er einstakt til ræktunar.
 
Jón sýnir fram á að breytingarnar í öllum eiginleikunum eru verulegar, jafnvel meiri en áður hefur verið áætlað. Þær gríðarlegu framfarir sem orðið hafa í bakvöðvaþykkt er miklu meiri og samfelldari en dæmi eru um í eldri úrvalstilraunum erlendis án þess að sjá megi nokkra lækkun í breytileika eiginleikans.
Hann staðfestir einnig það sem við Ágúst höfum áður alloft bent á að breytingar til minni fitu eru að nær öllu leyti tilkomin vegna áhrifa frá vali sæðingahrútanna. Val heima á búum bænda hefur alla tíð beinst að auknum vöðvavexti og gerð lamb­anna og skilað miklu. Vonandi gefst mér bráðlega tækifæri til að velta aðeins fyrir mér hve miklu þetta markvissa ræktunarstarf hafi skilað fjárbændum í aðra hönd á síðustu árum.
 
Nú er sauðfjárrækt í landinu í raun í þeirri stöðu að val til minni fitu fer að verða óþarft. Það er því verulegt verkefni nú í vetur að gera sér sem gleggsta grein hvernig það svigrúm sem þetta gefur í ræktunarstarfinu verði best notað á næstu árum. 
 
Í ritgerðinni sýnir Jón fram á að talsvert er að sækja í að nýta niðurstöður ómmælinganna til að bæta kjötgæðamatið. Þetta sé ég öðru fremur gerast á tvo vegu. Í fyrsta lagi með öruggara mati fyrir ásetningshrútana þannig að bæði verði mögulegt að velja þá allra bestu öruggar og fyrr til notkunar á stöðvunum. Jón bendir líka á að hlutfallsleg aukning verður samt mest í mati ánna vegna þess að beinar afkvæmaupplýsingar sem bætast við hjá þeim eru miklu minni en hjá hrútunum.
 
Þá staðfestir hann vel að hrútar sem óvanalega hátt hlutfall lamba undan lendir í ásetningi eru vanmetnir fyrir kjötgæði í núverandi mati. Ég er fyllilega sammála honum um að leiðrétting vegna þessa skiptir ekki meginmáli. Þetta eru bestu hrútarnir á hverjum tíma og smávægilegt vanmat þeirra leiðir fyrst og fremst af sér til enn meiri framfara en áætlað er. Hins vegar er brýnt að nýta niðurstöðurnar sem fyrst til að bæta BLUP matið fyrir kjötgæði. Jafnframt þarf að skoða hvort ekki eigi einnig að bæta lærastigum við sem óbeinum eiginleika í gæðamatinu.
 
Fjölmarga fleiri áhugaverða hluti úr þessari frábæru ritgerð mætti tína til þó að hér verði staðar numið.
Ritgerð Jóns er ómetanlegt framlag til íslenskrar sauðfjárræktar.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...