Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Stenst Viðskiptaráð skoðun?
Skoðun 16. apríl 2015

Stenst Viðskiptaráð skoðun?

Höfundur: Erna Bjarnadóttir

Fyrir skömmu birti Viðskiptaráð Íslands skoðun sína á landbúnaði undir fyrirsögninni „Hverjar eru okkar ær og kýr?“

Viðskiptaráð leggst hér á sveif með fleiri aðilum sem hafa gert sig gildandi í umræðum um málefnum landbúnaðarins síðustu misseri og stundum er þar látið vaða nokkuð á súðum. Víða er svo langt gengið í þessari umfjöllun að ekki verður látið ósvarað. Verður þó aðeins tekið á nokkrum atriðum að sinni.

Stjórnarskrárbrot að leggja á tolla

Viðskiptaráð byrjar vegferð sína á að ýja að því að núverandi tollvernd standist ekki stjórnarskrá. Væntanlega er verið að vitna til nýgengis dóms í héraðsdómi Reykjavíkur. Sá dómur fjallaði þó alls ekki um tollverndina sem slíka heldur það hvort heimilt væri að selja tollfrjálsa kvóta sem ríkið úthlutar. Það bæri nýrra við ef að lögleiddar heimildir til að leggja á tolla væru véfengjanlegar á þennan hátt. Viðskiptaráð setur niður við það eitt að láta að þessu liggja.

Tollar á innfluttar búvörur

Töluvert er gert úr því að lítið sé hér flutt inn af búvörum sem tollar eru lagðir á. Það er þó hvergi skýrt hvaða vöruflokka í tollskrá Viðskiptaráð telur til landbúnaðarvara. Samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum eru það 24 fyrstu kaflar tollskrárinnar. Greinilegt er að VÍ heldur sig við mun þrengri skilgreiningar. Væru allir fyrrnefndir tollflokkar til umfjöllunar yrði annað uppi á teningnum enda er yfirgnæfandi þeirra vöruliða sem teljast til landbúnaðarvara samkvæmt þessu án tolla.

Til að rökstyðja slaka stöðu Íslands að þessu leyti er útlistað að aðeins 4% af innlendri neyslu tollverndaðra vara séu innfluttar vörur samanborið við allt að 38% í Danmörku, sjá mynd 3. Þessi mynd og uppbygging hennar er með öllu óskiljanleg. Hvergi kemur skýrt fram hvaða vörur er þarna um að ræða. Hvernig er þessi niðurstaða t.d. fengin. Eru þetta krónur eða kg svo dæmi séu tekin. Við eftirgrennslan kom í ljós að þetta á að vera í íslenskum krónum sem hvergi er tekið fram né heldur hvaða ár. Við hvaða verðmæti er þá miðað. Er innflutningur á cif verði eða einhverju öðru ? Varla er samt verðmæti neyslunnar á cif verði?

Við eftirgrennslan kom líka í ljós að til innflutnings í þau ESB lönd sem notuð eru til samanburðar (Finnland, Bretland, Svíþjóð og Danmörk) teljast viðskipti við önnur ESB lönd. Hvergi nokkursstaðar í umfjöllun um alþjóðaviðskipti eru viðskiptin innan ESB talin til milliríkjaviðskipta.  ESB er tollabandalag og leggur tolla á miklu fleiri búvörur en Ísland og Noregur svo dæmi séu tekin.

Í nýlegri skýrslu frá Agri Analyse í Noregi (2/2015) má lesa að ESB leggur tolla á 73,7% allra tollflokka sem innihalda búfjárafurðir, 100% allra tollflokka sem falla undir mjólk og mjólkurvörur, 80,6% allra tollflokka sem innihalda ávexti grænmeti, 73,9% af tollflokkum kaffivara, 76,1% korn og bökunarvara, 100% sykurvara og konfektvara og 81% af áfengi og tóbaki en allir þessi vöruflokkar og fleiri til teljast til landbúnaðarvara. Það er auðvitað auðvelt að sýna fram á að viðskipti með búvörur innan bandalagsins séu mikil enda leiðir það að eðli tollabandalags. En ESB hefur ekki stundað það að leggja einhliða niður tolla gagnvart öðrum ríkum til að auka innflutning og bæta hag sinna neytenda með ódýrari búvörum frá Suður-Ameríku eða Asíu. Markmið þess er að vernda sinn landbúnað og það er gert meðal annars með ytri tollum.

Er Viðskiptaráð að leggja til aukin ríkisútgjöld til landbúnaðar?

Viðskiptaráði verður tíðrætt um árangur af breyttu fyrirkomulagi stuðnings við íslenska grænmetisframleiðslu í byrjun þessarar aldar. Þá voru „[…] tollar á grænmeti felldir niður samhliða breytingum á styrkjafyrirkomulagi greinarinnar“. Með öðrum orðum var fyrirkomulaginu breytt þannig að stuðningur við greinina fellur á skattgreiðendur í staðinn fyrir neytendur. Þegar VÍ þrástagast á því að fylgja eigi þessu fordæmi fyrir aðrar búgreinar hlýtur að vera gert ráð fyrir að ríkissjóður eigi að hlaupa undir bagga fyrir aðrar búgreinar á sama hátt verði tollvernd afnumin eins og lagt er til. Líklegt má telja að þetta feli í sér aukin ríkisútgjöld svo skiptir milljörðum.

Betra er að veifa röngu tré en öngvu

Viðskiptaráð fullyrðir að einhliða niðurfelling tolla styrki samningsstöðu Íslands við gerð fríverslunar samninga síðar meir. Skýrsluhöfundar hefðu betur kynnt sér þá reynslu sem þegar er fyrir hendi af þessu. Við fyrrnefndar breytingar á rekstrarumhverfi garðyrkjunnar voru tollar felldir einhliða niður af mörgum grænmetistegundum, s.s. tómötum, gúrkum og papriku. Þegar síðar átti að beita þessu í viðskiptasamningum við ESB var niðurstaðan sú að taka þessa tolla aftur upp gagnvart öðrum ríkjum. Semsagt ekkert fékkst í staðin fyrir opnari viðskipti.  Er mikið viðskiptavit í þesskonar háttalagi?

Sparnaður neytenda af auknum innflutningi og niðurfellingu tolla

Í lok skýrslunnar kemst VÍ að þeirri niðurstöðu að meðalfjölskylda geti sparað sér 76.000 kr á ári í matarútgjöld með auknum innflutningi. Þetta er gamalkunnugt stef hjá Viðskiptaráði og fleirum sem vilja bæta hagsmuni verslunarinnar – en fela það í búning gæsku við neytendur.  Raunveruleika slíkrar góðsemi má hins vegar kynna sér í nýútkominni skýrslu samkeppniseftirlitsins um matvörumarkaðinn.   Síðan segir: „Hér er ekki tekið tillit til þess að fjölskyldan breytir líklega neyslumynstri sínu og kaupir ódýrari matvæli í meiri mæli ef tollar eru ekki til staðar.“ Þessi setning er sérlega áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi staðfestir hún þá niðurstöðu sem reyndin hefur orðið í Svíþjóð. Í síðasta Bændablaði var haft eftir forsvarsmanni í sænsku bændasamtökunum.  „Við vorum mjög barnaleg. Við héldum að við gætum haldið uppi hágæða matvælaframleiðslu fyrir kröfu hörðustu neytendurna eftir sameiningu við ESB“ er haft eftir frammámanni í sænsku bændasamtökunum nýverið. Þetta varð hins vegar alls ekki raunin og allar götur síðan hefur sænskur landbúnaður verið á hraðri niðurleið. Það er gott að VÍ staðfesti einmitt þetta en bjóði ekki upp á frasann um að íslenskir bændur hafi ekkert að óttast því auðvitað muni neytendur kaupa okkar hágæðaframleiðsluvörur.

Að lestri skoðunar Viðskiptaráðs stendur eftir sú spurning hverjar ær þess og kýr eru. Líklega eru þær einhversstaðar suður í Evrópu, kannske svartskjöldóttar eða með langa rófu. Skoðun þess virðist alla vega vera sú að leggja eigi íslenskan landbúnað niður í núverandi mynd.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...