Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Setjum dýravelferð í fyrsta sæti
Leiðari 9. október 2015

Setjum dýravelferð í fyrsta sæti

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Dýravelferðarmál hafa verið í brennidepli síðustu vikur og enginn farið varhluta af umfjöllun fjölmiðla um málaflokkinn. Margt sem hefur komið fram í umræðunni er sláandi og dæmi tekin sem eiga ekki að líðast í landbúnaði.  Bændasamtök Íslands fordæma illa meðferð á dýrum enda hafa samtökin ávallt lagt áherslu á að íslenskur landbúnaður sé til fyrirmyndar.

Um miðjan ágúst síðastliðinn gaf Matvælastofnun út starfsskýrslu fyrir árið 2014. Fjölmiðlar vísuðu í niðurstöður hennar í fréttum liðinnar viku en að auki hafði þeim borist eftirlitsskýrsla vegna heimsókna á svínabú. Myndir og niðurstöður hennar þarf ekki að fjölyrða um en augljóst var samkvæmt skýrsl­unni að á nokkrum búum þarf að gera breytingar og það strax. Svínabændur hafa skýrt sína hlið mála og fram hefur komið að aðstaða horfi til betri vegar.

Ný lög um velferð dýra tóku gildi í ársbyrjun 2014. Þau fela í sér mjög framsæknar reglur um velferð dýra og fylgja innleiðingu þeirra miklar áskoranir fyrir landbúnaðinn. Lögin og reglugerðir sem á þeim byggja gera ríkari kröfur til aðbúnaðar búfjár en áður hefur tíðkast. Markmiðið er að tryggja velferð og heilbrigði dýra með góðri meðferð, umsjón og aðbúnaði.

Eitt ráðuneyti fer nú með forsjá löggjafarinnar og Matvælastofnun fer með framkvæmd málaflokksins en þar er mikil fagþekking á velferð dýra. Samhliða var lagt til að störf búfjáreftirlitsmanna flyttust frá sveitarfélögunum til Mast en hlutverk þeirra er að stærstum hluta eftirlit með velferð búfjár.

Samkvæmt nýju lögunum var sett á fót fagráð um velferð dýra sem hefur aðsetur hjá Mast. Þessu samhliða hafa orðið miklar breytingar á þvingunarúrræðum og mögulegt að beita stjórnvaldssektum þegar við á.

Nýjar reglugerðir snerta flestar búgreinar

Nýjar reglugerðir um velferð búfjár hafa verið kynntar á síðustu misserum. Sú síðasta tók gildi í janúar sl. Þær fela sumar hverjar í sér umtalsverðar breytingar, m.a. hvað varðar gripahús og aðstöðu ýmiskonar. Kostnaður sem felst í breytingum á innréttingum og húsakosti er talinn í milljörðum króna. Bændur hafa ágætan tíma til að aðlagast breytingunum en í sumum tilvikum þurfa þeir að hafa hraðar hendur. Það á meðal annars við í svínaræktinni þar sem umfangsmiklar framkvæmdir standa yfir á nokkrum búum.

Öllum svínabúum þarf að breyta þannig að gylturnar verði í lausagöngu og bannað verður að halda gyltur á básum á meðgöngu. Gotstíur breytast bæði að stærð og gerð. Þannig þarf að stækka verulega gotdeildir frá því sem nú er. Stíurnar eiga að auka verulega velferð gyltunnar. Þessar breytingar kalla á nýjar byggingar til viðbótar þeim sem nú eru til staðar, þó ekki sé nema til að halda óbreyttu framleiðslumagni. Áætlaður kostnaður er í kringum þrjá milljarða króna að mati svínabænda.

Í nautgriparæktinni er veigamesta breytingin að bannað verður að hýsa mjólkurkýr í básafjósum eftir 31. desember 2034. Burðarstíur skal setja upp í öllum fjósum fyrir árið 2024 og kröfur um legurými fyrir gripi í uppeldi eru stórauknar. Kúabændur telja að úrelding básafjósanna muni kosta greinina um 18 milljarða króna, þar sem í þeim 320 básafjósum sem eru í notkun, eru um 9.000 básar og nýr bás kostar tvær milljónir kr. ef uppeldisaðstaða og haugrými eru innifalin.

Í minkaræktinni tekur ný reglugerð á velferð og aðbúnaði dýranna. Sótt er í sambærilegar reglur frá Danmörku og Noregi sem eru þær framsæknustu í heimi.

Í alifuglarækt og eggjaframleiðslu eru nokkrar breytingar fram undan. Setprik og klóslípibúnaður þarf að vera fyrir hendi fyrir allar varphænur ekki síðar en 1. jan. 2017. Búranotkun fyrir varphænur verður bönnuð frá og með 1. janúar 2022. Þá verður þéttleiki við eldi kjúklinga breytilegur eftir ástandi í húsunum.

Í sauðfjárframleiðslunni eru m.a. ákvæði í nýrri reglugerð sem varða gólfgerðir. Gólfefni má ekki vera meira en 60% málmur frá 1. janúar 2023. Eftirlitslaus útigangur á vetrum er bannaður nema við mjög sérstakar aðstæður.

Hrossaræktendum er gert að tryggja velferð og heilbrigði hrossa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Hesthús framtíðarinnar verða alla jafna með stærri útigerði. Gerðar eru meiri kröfur til stíustærða og bannað að halda hross á básum.

Ljúkum úrbótum sem fyrst

Til að uppfylla nýjar kröfur um dýravelferð þurfa margir bændur að leggja út í miklar framkvæmdir. Sum bú eru að berjast við að láta enda ná saman og geta því ekki unnið eins hratt að framförum og æskilegt væri. Það er viðfangsefni sem landbúnaðurinn er að takast á við. Bændasamtökin hafa lagt áherslu á að félagsmenn sínir ljúki nauðsynlegum úrbótum eins fljótt og mögulegt er. Þau eru jafnframt reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um að útfæra leiðir til að flýta því að nauðsynlegar úrbætur nái fram að ganga.

Til mikils að vinna

Í samræmi við auknar áherslur á bætta velferð og aðbúnað búfjár hefur eftirlit Mast með aðbúnaði og fóðrun búfjár stóraukist. Að mati Bændasamtakanna er þetta eftirlit afar mikilvægt og leggja samtökin mikla áherslu á samstarf bænda við stofnunina svo hægt sé að bregðast við athugasemdum og vinna að úrbótum.

Bændasamtökin hafa óskað eftir fundi í samstarfsnefnd BÍ og MAST til að ræða þessi mál og skipuleggja hvernig unnið verði að því að tryggja að velferð og aðbúnaður búfjár á Íslandi verði til fyrirmyndar.

Bændur fagna aukinni vitund og áhuga neytenda á dýravelferðarmálum. Á tímum vaxandi viðskipta með búvörur og alþjóðavæðingar er nauðsynlegt að gera sömu kröfur til erlendra framleiðenda og innlendra um aðbúnað og velferð.

Bændur vilja standa undir því trausti sem neytendur hafa sýnt þeim og það þýðir að dýravelferð verður að vera í lagi – hún verður að vera í fyrsta sæti.

Náttúran minnir á vald sitt

Enn á ný taka náttúruöflin völdin, nú í Skaftár­hreppi. Kraftmikið Skaftárhlaup ruddist fram og olli miklum skemmdum á ræktarlandi og mannvirkjum í vikunni sem leið. Forsætisráðherra og aðrir ráðamenn hafa gefið til kynna að bændum og öðrum, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum flóðanna fyrir austan, verði bættur skaðinn eins og hægt er. Það er uppörvandi fyrir bændur að fá slík skilaboð og sýnir að þeir standa ekki einir þegar á móti blæs.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...