Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands.
Mynd / HKr
Skoðun 14. mars 2019

Við verðum að verja okkar dýrmætu stöðu

Höfundur: Guðrún Sigríður Tryggvadóttir
Í upphafi Íslandsbyggðar tókust forfeður okkar og -mæður á við óblíð náttúruöflin á eyju lengst norður í Atlantshafi, þar sem veturinn var langur, sumarið stutt og duttlungar náttúrunnar óútreiknanlegir.   Harðir vetur og náttúruhamfarir settu mark sitt á líf þessa fólks. Í dag stöndum við frammi fyrir annars konar öflum sem eru engu að síður óvægin. Þessi öfl eru viðskiptahagsmunir og peningar. Hagsmunir örfárra einstaklinga sem dafna svo vel í því neyslumunstri sem við höfum komið okkur upp.
 
Umræða síðustu vikna um aukinn innflutning á búvörum hefur sýnt að almenningi er ekki sama um íslenskan landbúnað. Efnislega snúa frumvarpsdrög landbúnaðarráðherra meðal annars um að aflétta frystiskyldu á kjöti og leyfa innflutning á hráum eggjum. Fjöldi umsagna á samráðsgátt stjórnvalda er til merkis um það að hagsmunirnir eru miklir. Það er í raun ánægjulegt að sjá þau viðbrögð sem málið vekur. Sitt sýnist hverjum og ekki er alltaf samhljómur milli fólks með sama bakgrunn. Við sjáum að læknar taka málið misalvarlega og dýralæknar lýsa ólíkum viðhorfum til áhættunnar sem um ræðir. En umræðan hefur skilað því að málefni eins og smithætta, ofnotkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi eru komin rækilega á kortið. 
 
Í spurningakönnun sem Gallup gerði í lok febrúar fyrir BÍ og samstarfsaðila þeirra nefna 58% aðspurðra að þeir vilji halda þeirri reglu að innflutt kjöt sé fryst í mánuð áður en það er selt á markaði hér á landi. 24% hafa ekki skoðun og rúm 18% vilja aflétta frystiskyldunni. Fólk vill fara varlega.
 
Málið varðar heilbrigði fyrst og fremst
 
Bændur hafa lengi varað við innflutningi á hráu kjöti og þeirra rök eru flestum kunn sem lesa Bændablaðið. Málið er stórt og það varðar heilbrigði manna og dýra. Við viljum leita allra leiða til að standa vörð um þá auðlind sem felst í heilbrigðum búfjárstofnum og þeim hreinleika sem íslenskar landbúnaðarafurðir búa yfir í dag. Sá hópur sem hefur hæst um aukinn innflutning á ófrosnu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk er á öndverðum meiði við forystu bænda. Það eru fyrirferðarmiklir forsvarsmenn innan verslunargeirans og heildsalar sem hafa atvinnu af því að flytja inn mat. Mörgum finnst landbúnaðarráðherra draga taum viðskiptahagsmuna og hugsa minna um bein áhrif á landbúnað í landinu. Mótvægisaðgerðir sem ráðherra kynnti fyrir nokkru eru vissulega góðra gjalda verðar en munu þær verja okkur? 
 
Viðskiptahagsmunir ráða för
 
Það er sorgleg staðreynd að staða heimsins í dag ræðst af viðskiptahagsmunum, ekki hagsmunum heildarinnar eða velferð manna. Ekki heilbrigðri skynsemi, engum langtímamarkmiðum um hvernig við ætlum að skila jörðinni af okkur til afkomendanna. Þessum hagsmunum er stýrt af fáum, þeir eru ekki tengdir vilja almennings en við spilum samt með. Hvert erum við að stefna?
 
Við stöndum frammi fyrir því að forsvarsmenn verslunar vilja auka tekjurnar með því að taka meiri áhættu á kostnað heilla og heilbrigðis búfjár og manna. Viðvaranir þekktra sérfræðinga eru hundsaðar og hafðar að engu. Við stöndum frammi fyrir ógnunum í loftslagsmálum sem eru svo stórar að við eigum erfitt með að horfast í augu við þær. Við horfum fram á að ónæmi sýklalyfja sem er vaxandi vandamál í heimsbyggðinni allri ógni lífi stærri og stærri hluta mannkyns. 
 
Í augum sumra er Ísland kannski ekkert merkilegt en í okkar augum er það, lífsskilyrði okkar eru einstök, hreinleiki og heilbrigði búfjárstofna er í afar fáum löndum sambærilegt. Það er fágætt og auðlind sem við megum ekki tapa. Við verðum að bregðast við.
 
Öruggur matur í forgang
 
Við getum verið sammála um að íslenskur landbúnaður er einn af hornsteinum byggðar og byggðafestu í landinu. Við getum líka verið sammála um að fæðuöryggi sé mikilvægt, öll þurfum við jú að borða. En getum við ekki líka verið sammála um að það sé ekki bara nóg að hafa öruggt aðgengi að matvælum, viljum við ekki líka að þau sjálf séu örugg? Við verðum að geta treyst því að sú matvara sem er í boði sé laus við sýkingar, fjölónæmar bakteríur og önnur óæskileg efni. Það er lykilatriði að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um eiginleika vörunnar sem þeir kaupa hverju sinni.
 
Við höfum skilning á þeim rökum að ríkissjóður standi frammi fyrir skaðabótagreiðslum vegna vanefnda á gerðum samningum. En við getum samt með engu móti sætt okkur við þá niðurstöðu að hingað eigi að flytja nánast óheft vörur sem geta skaðað íslenskan landbúnað og ógnað bæði búfjárheilsu og lýðheilsu. Við ætlumst til þess af fullri alvöru að ríkisstjórnin okkar finni leiðir til þess að að afstýra þeirri vá sem fjöldamargir sérfræðingar hafa varað við.
 
Við erum ekki hrædd við samkeppni sé hún á þeim grundvelli að við fáum að keppa við vörur sem framleiddar eru við sambærilegar aðstæður, hvað varðar t.d. sýklalyfjanotkun, notkun varnarefna, dýravelferð og aðbúnað starfsfólks. Við erum ekki hrædd við að keppa við landbúnaðarafurðir sem koma frá svæðum þar sem gerðar eru sambærilegar kröfur og til okkar framleiðslu. Í stuttu máli er það kjarni málsins. Að tryggt sé að innflutningurinn uppfylli sömu skilyrði og við sjálf þurfum að fara eftir í okkar framleiðslu. Við hvetjum neytendur til að spyrja eftir þessum upplýsingum, liggi þær ekki fyrir og spyrja sig einnig um aðra framleiðsluhætti svo sem vatnsgæði við framleiðsluna og umhverfisfótspor hennar.
 
Ræðum um sérstöðu okkar
 
Ársfundur Bændasamtakanna verður haldinn á föstudaginn kemur á Hótel Örk í Hveragerði. Hefðbundin aðalfundarstörf verða fyrir hádegi en klukkan 13.00–16.00 verður haldin opin ráðstefna undir yfirskriftinni „Hver er sérstaða íslensks landbúnaðar?“ Þar verður fjallað um sérstöðuna út frá ýmsum sjónarhornum, virði hennar og verðmætasköpun. Um kvöldið verður Bændahátíð á Örkinni þar sem við ætlum að gera okkur glaðan dag. Ástæða er til að hvetja alla áhugasama til þess að koma í Hveragerði, ræða um framtíð landbúnaðarins og skemmta sér í góðra vina hópi.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...