Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Vandi og lausnir
Mynd / smh
Skoðun 13. september 2017

Vandi og lausnir

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bændur ræða nú tillögur landbúnaðar­ráðherra um lausn á vanda sauðfjárbænda vegna lækkunar afurðaverðs og mikilla birgða. Tillögurnar eru vissulega athyglisverðar en bændum þykir samt ljóst að þær séu aðeins plástur á sárið en ekki lausn á vandanum.
 
Það virðist vera samdóma álit flestra að fækka þurfi fé í landinu tímabundið til að koma í veg fyrir birgðasöfnun afurða. Ef farið verður í stórfelldan niðurskurð og samið um möguleg starfslok einhvers  fjölda bænda, þá mun birgðavandinn hins vegar aukast til muna, allavega til skamms tíma. Það sem verra er er að um leið mun það án efa leiða til tilviljanakennds niðurbrots á samfélögum víða um land. 
Það er mikilvægt að byggð haldist sem víðast um land. Einnig að hún sé kraftmikil og lifandi og skapi ásættanlegt lífsviðurværi fyrir blandað samfélag allra aldurshópa. Hver einasti bóndi sem lætur af störfum og hver einasti sveitabær sem leggst í eyði dregur máttinn úr samfélaginu sem eftir stendur. Erfiðara og mun dýrara verður að halda uppi nauðsynlegri þjónustu, bæði við íbúa á viðkomandi svæði og við vaxandi straum ferðamanna. 
 
Vissulega er vont og kostnaðarsamt að þurfa að takast á við áföll í landbúnaði. Menn mega þó ekki gleyma því að landbúnaður er víða uppistaðan í heilu sveitarfélögunum. Það að stjórnvöld bregðist við vanda eins og nú blasir við í sauðfjárrækt er ekki bara spurning um aðstoð við einhverja vesæla  rollubændur, heldur miklu frekar spurning um hvort við viljum halda landinu í byggð sem víðast eða ekki. 
 
Ef sauðfjárrækt legðist t.d. af í Húnavatnssýslum, yrði algjört hrun í samfélögum fólks sem þar býr. Því má hiklaust spyrja þeirrar spurningar hvort ekki yrði mun dýrara fyrir okkar sameiginlegu sjóði að bregðast við slíkum vanda. Það myndi um leið hafa í för með sér að afskrifa þyrfti alla innviðauppbyggingu liðinna áratuga á viðkomandi svæði. Þá þyrfti um leið að byggja upp samsvarandi innviði á öðrum stöðum, nema menn sjái fyrir sér að íbúarnir hreinlega hverfi af yfirborði jarðar. Heill landshluti gæti hæglega lagst í eyði og lokast myndi fyrir alla þjónustu á svæðinu. Afskrifa þyrfti gríðarlega fjármuni í fasteignum og setja enn meiri fjármuni í að byggja upp á öðrum stöðum. Vandi sauðfjárbænda í dag yrði trúlega harla lítilfjörlegur í þeim kostnaðarsamanburði. 
 
Annað mál sem tengist þessari umræðu er verðlagning á matvöru. Hver þekkir ekki sönginn um að íslenskar landbúnaðarvörur séu allt of dýrar? Þar verður að hafa í huga að ef sauðfjárrækt og annar landbúnaður nyti ekki stuðnings úr opinberum sjóðum væru afurðirnar án efa mun dýrari. Sama væri upp á teningnum í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ef þessa stuðnings nyti ekki við mætti leiða að því sterkum líkum að hér væri enginn landbúnaður starfræktur. Þora menn virkilega að taka þá áhættu í ljósi sögunnar í hvikulum heimi? Aðrar þjóðir treysta sér ekki til þess og þykir lífsnauðsynlegt að tryggja fæðuöryggi sinna þegna. Hví ættu Íslendingar þá að leggja út á slíka háskabraut?  
 
Það er samt bæði hollt og bráð­nauðsynlegt að menn velti við öllum steinum til að finna leiðir sem gætu leitt til meiri skilvirkni í landbúnaði. Þannig má t.d. benda á að í framsetningu afurða til neytenda er landbúnaðurinn á svipuðu stigi og sjávarútvegurinn var fyrir nokkrum áratugum. Það er t.d. stórundarlegt að það hafi þurft erlenda stórverslun inn á markaðinn til að hægt væri að bjóða íslenskum neytendum íslenskt kindahakk í neytendapakkningum og skurð á kjöti sem fólki hugnast að kaupa.  
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...