Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Til framtíðar litið
Leiðari 22. mars 2016

Til framtíðar litið

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Útgáfudagur þessa blaðs er síðasti dagur bænda til að kjósa um nýja búvörusamninga í nautgripa- og sauðfjárrækt. Samband garðyrkjubænda hefur þegar afgreitt garðyrkjusamninginn og búnaðarþing rammasamninginn. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verður ljós að viku liðinni, þann 29. mars næstkomandi. Um sama leyti kemur málið til kasta Alþingis í formi frumvarps til breytinga á búvöru-, búnaðar- og tollalögum sem samningarnir fela í sér.
 
Umræður um samningana hafa verið nokkuð hvassar á köflum. Á fyrri stigum bar einkum á gagnrýni kúabænda en núna eftir undirritun hefur umræðan verið þyngri meðal sauðfjárbænda. Það er eðlilegt í ljósi þess að það er verið að leggja til miklar breytingar. Það er þó stigið varlega til jarðar því breytingarnar fara hægt af stað og eru ekki miklar fyrstu árin. Tvær endurskoðanir verða á samningstímanum. Í tengslum við þá fyrri munu kúabændur taka afstöðu til þess hvort að afnema eigi kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og þá verður einnig tekin staða í sauðfjárræktinni í ljósi þess hvort tekist hefur að auka verðmæti afurða. Hafi markmið ekki náðst verður áframhaldið með öðrum hætti.
Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að því að ríkisstuðningur sé að lækka hjá mörgum. Í reiknivél sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur útbúið er það einmitt raunin. Almenn hagræðingarkrafa ríkisins ef miðað er við alla samningana fjóra er rúm átta prósent. Það þýðir að heildarupphæðin verður svipuð á föstu verðlagi eftir 10 ár, eins og hún er núna. Þetta varð niðurstaðan í ljósi þess að rúmar 900 milljónir fengust til nýrra verkefna í samningunum – mest í rammasamningnum. Það er ekki síst vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru. 
 
Til heilla fyrir greinina til framtíðar litið
 
Það er og hefur alltaf legið fyrir að það er markmið og tilgangur þessara samninga að færa áhersluna af stuðningi sem gengur kaupum og sölum, þ.e. greiðslumarki, yfir á stuðning sem ekki þarf að kaupa. Í því felst að stuðningurinn færist frá svæðum þar sem er mikið greiðslumark í hlutfalli við framleiðslu yfir á svæði þar sem hlutfallið er öfugt. Það er einfaldlega hugmyndin að baki að losna út úr kerfi þar sem menn þurfa að kaupa sér ríkisstuðning til að hefja sauðfjár- eða nautgriparækt. 
 
Ekki er við því að búast að þeir sem hafa varið miklum fjármunum til að kaupa sér ríkisstuðning gleðjist yfir þessum breytingum – en þetta er einfaldlega talið til heilla fyrir greinina í heild til framtíðar litið – og það er langur aðlögunartími. Það er alveg hægt að skilja sjónarmið þeirra sem hafa nýlega fjárfest í greiðslumarki. Það lá þó ekkert annað fyrir en að greiðslumarkið héldi gildi sínu út gildistíma núverandi samninga. Hins vegar er ekki hægt að stíga út úr svona kerfi án þess að valda neinum óþægindum. Þeir sem keyptu greiðslumark hafa líklega vænst þess að þeir gætu selt það einhverjum öðrum seinna. Gangi nýi samningurinn eftir verður það ekki hægt – en greinin verður heilbrigðari á eftir.
 
Stuðningur við landbúnað hefur lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu
 
Allir vænta þess að hér verði hagvöxtur næsta áratuginn. Það þýðir líka að þá verður stuðningur við landbúnað lægra hlutfall af landsframleiðslu eftir 10 ár en hann er nú. Það er í samræmi við þróun undanfarinna áratuga. Ef hið opinbera væri að verja sama hlutfalli af landsframleiðslu núna og það gerði árið 1986, þá væri fjárhæðin nærri 100 milljörðum, að meðtalinni markaðsvernd. Miðað við stöðuna í dag er þetta nærri 80% samdráttur á 30 árum. Það eru miklar breytingar enda hefur landbúnaðurinn þróast mikið og breyst á þessum þremur áratugum. Hann mun vitanlega halda því áfram. Það á ekki að vera markmið í sjálfu sér að auka hlut ríkisstuðnings í tekjum bænda. Það liggur hins vegar jafnskýrt fyrir að nær öll lönd styðja sinn landbúnað að meira eða minna leyti og til þess að íslenskir bændur geti starfað á einhvers konar jafnréttisgrundvelli þá þarf einfaldlega að styðja við bakið á þeim.  
 
Stuðningur meiri á landsbyggðinni en í þéttbýli
 
Bændur vita að mikill velvilji er meðal almennings til íslensks landbúnaðar, þrátt fyrir að nýleg skoðanakönnun hafi leitt í ljós fremur lítinn stuðning við búvörusamningana. Aðeins 13% svarenda segjast þekkja efni samninganna sem er verulegt áhyggjuefni enda eru þeir grundvöllur starfsskilyrða íslensks landbúnaðar sem er mikilvægur hluti af íslensku atvinnulífi. Afstaða svarenda virðist því ekki byggjast á þekkingu á efni samninganna. Eftir sem áður hefði ég viljað sjá meiri stuðning á höfuðborgarsvæðinu, en hann minnkar verulega þegar komið er í þéttbýli. Stuðningurinn er meiri á landsbyggðinni enda er þar fleira fólk sem er beintengt landbúnaði og þeirri framleiðslu sem þar fer fram. Það breytir ekki því að fjöldi starfa er í matvælaframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu sem skapa mikil verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú. Í nýjum tölum Hagstofunnar kemur fram að framleiðsluvirði landbúnaðarins var nærri 68 milljarðar króna á síðasta ári.
 
Afstaða SA og ASÍ kemur á óvart
 
Ýmsir aðrir hagsmunaaðilar hafa sett fram skoðanir á búvörusamningnum. Sumir þeirra eru gamalkunnir eins og samtök fyrirtækja í innflutningi og verslun. Það kemur meira á óvart að bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa gagnrýnt samningana og hvatt Alþingi til að hafna þeim. Það er í meira lagi sérkennilegt að bæði þessi stóru hagsmunasamtök hafi virt að vettugi allt það fólk og öll þau fyrirtæki sem starfa við og fyrir landbúnað. Vissulega hafa þau eins og aðrir rétt til að hafa skoðun á ráðstöfun opinberra fjármuna. En þá má líka nefna að sjaldnast tekst að ganga frá kjarasamningum á vinnumarkaði án þess að ríkið komi þar með fjármuni að borðinu með óbeinum hætti. Ég hefði vænst þess að þessi stóru hagsmunasamtök hefðu meiri skilning og þekkingu á starfsskilyrðum landbúnaðarins en þessi afstaða ber með sér.
 
Umræða um framtíð landbúnaðar á Íslandi mun halda áfram án tillits til hvernig afgreiðsla búvörusamninganna veltist. Það er eðlilegt og sjálfsagt en ég vona að við berum gæfu til þess að ræða þau mál á grundvelli staðreynda og horfa til þess hvert við ætlum í framtíðinni, fremur en að standa alltaf föst í hjólförum dagsins í dag. Gleðilega páskahátíð.

Skylt efni: búvörusamningar

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...