Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Tær snilld
Mynd / Bbl
Skoðun 27. september 2019

Tær snilld

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fyrirhuguð hlutdeildarlán ríkisins til íbúðarkaupa er trúlega það gáfulegasta sem gerst hefur á íslenskum lána­markaði vegna húsnæðiskaupa frá stofnun íslenska lýðveldisins. 
 
Ef rétt er skilið þá eiga þessi lán að gagnast þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og eins þeim sem lentu í erfiðleikum í hruninu. Fólk sem missti sínar íbúðir og hefur síðan ekki haft bolmagn vegna okurkjara á leigumarkaði að safna sér fyrir útborgun í íbúð. Snilldin felst í því að ríkið kaupir ákveðinn hlut í íbúð með væntanlegum kaupanda og á þennan hlut um ákveðinn tíma eða þar til íbúðin verður seld aftur. Ekki er þörf á að greiða inn á þann hlut nema íbúðarkaupandi hafi bolmagn til þess. Sé hluturinn t.d. 20% af upphaflegu kaupverði þá á ríkið það hlutfall þar til íbúðin er seld eða kaupandi kaupir hlutinn af ríkinu. Ríkið tapar engu, en nýtur væntanlega hagnaðar af hækkun íbúðaverðs til jafns við íbúðarkaupandann. 
 
Eflaust verður sett skynsamlegt þak á upphæð þessara hlutdeildarlána. Eigi að síður er mikilvægt við innleiðingu þessa kerfis að settar séu geirnegldar skorður við því að þetta verði ekki að féþúfu fyrir braskara á fasteignamarkaði. 
 
Það er tími til kominn að stjórnvöld líti til þess sem vel er gert á þessu sviði í öðrum löndum. Það þarf nefnilega ekki alltaf að finna upp nýtt hjól í hvert sinn sem leysa þarf brýn verkefni og því sjálfsagt að nýta sér reynslu annarra.
 
Nú horfa stjórnvöld í samstarfi við  verkalýðs­hreyfinguna m.a. til reynslu Breta af hlutdeildarlánum. Það er vel að menn horfi þá líka til þess sem miður hefur farið við framkvæmd innleiðingar hlutdeildarlána. 
Í Bretlandi hafa stjórnvöld litið á þetta kerfi sem hreyfiafl til að hvetja til nýbygginga vegna skorts á íbúðamarkaði. Það svínvirkaði þar um slóðir, en hér á landi er afar mikilvægt að kerfið komist sem fyrst til framkvæmda. Vandi fólks á leigumarkaði er gríðarlegur og margir hafa neyðst til að flýja land vegna okurs á þeim markaði. Margir fleiri eru að þrotum komnir. Því dugar ekki að einblína í upphafi á nýbyggingar. Þá eru menn ekki að horfa á neina lausn fyrir það fólk sem nú er í vanda fyrr en eftir tvö ár eða svo. Fyrir marga verður það of seint. Kerfið verður því í upphafi að gefa möguleika til kaupa á eldra húsnæði, en auðvitað er nauðsynlegt að setja þar ákveðnar skorður til að koma í veg fyrir misnotkun kerfisins. 
 
Það er líka afar mikilvægt að samið sé við sveitarfélög að lóðir undir nýbyggingar sem fara inn í þetta kerfi séu afhentar á raunhæfu lágmarks kostnaðarverði. Reykjavíkur­borg reið á vaðið á sínum tíma og innleiddi uppboðsleið við lóðaúthlutun sem sprengdi upp markaðinn. Það leiddi síðan til stórhækkaðs íbúðaverðs sem er stór hluti af þeim vanda sem nú er verið að berjast við. Sveitarstjórnarmenn verða líka að sjá ljósið í því að lóðir á raunhæfu kostnaðarverði eru að búa til skjól fyrir útsvarsgreiðendur til framtíðar. Ætli ekki sé til einhvers vinnandi að fá slíka tekjustofna til sín frekar en að fá þá ekki vegna okurs á lóðaverði?
 
Einn hlutur er líka afar mikilvægur við innleiðingu hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Það er að tryggja að slík lán verði ekki forréttindi íbúa höfuðborgarsvæðisins. Víða á landsbyggðinni hefur verið að myndast skortur á íbúðarhúsnæði vegna þess að lánastofnanir hafa verið tregar til að lána þangað fé. Að þessu verða þeir að huga sem nú vinna að samsetningu á því lánakerfi sem ætti að geta orðið til mikillar blessunar ef rétt er á málum haldið. 
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...