Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Samtal um lausnir
Mynd / smh
Skoðun 24. ágúst 2017

Samtal um lausnir

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Þann 20. júlí sl. birtist hér í blaðinu leiðari með fyrirsögninni „Samtal um ekki neitt“ þar sem lýst var óánægju með viðræður við ráðherra landbúnaðarmála um vanda sauðfjárræktarinnar, eftir bréf sem barst frá ráðherranum þann 11. júlí sl.
 
Það hreyfði greinilega við ýmsum því að margir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um efnið síðan með ýmsum hætti. 
 
Óskað eftir meiri Costco-áhrifum
 
Fyrstur til þess varð félagsmálaráðherra sem óskaði eftir meiri Costco-áhrifum í landbúnað. Hann nefndi þó ekki að ástæða þess að Costco sá tækifæri á íslenskum markaði var hin ótrúlega arðsemi í verslun á Íslandi sem var keyrð áfram af hárri álagningu. Sérstaklega hefur þetta átt við um innfluttar vörur eins og fram hefur komið í skýrslu sem Bændasamtökin gáfu út fyrir nokkru. Hagar stýrðu markaðnum í krafti einokunarstöðu sem Costco virðist nú vera að brjóta niður að einhverju leyti.
 
Að því sögðu þá kemur það á óvart að ráðherra ríkisstjórnar sem vinnur að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum skuli boða óheftan innflutning á matvælum með tilheyrandi kostnað fyrir umhverfið. Við gerð aðgerðaráætlunarinnar hlýtur að þurfa að horfa til þess hvernig hægt er að stuðla að því að matvörur sé framleiddar sem næst neytendum til þess að lágmarka útblástur vegna flutninga og annan umhverfiskostnað. Gott dæmi um Costco-áhrifin er að Costco selur ekkert íslenskt grænmeti. Það er allt flutt inn. Ef innflutningur á kjöti myndi lúta sömu lögmálum og innflutningur á grænmeti má leiða að því líkum að allt kjöt í Costco væri innflutt.
 
Einnig verður að ítreka að kröfur um dýravelferð, takmarkanir á lyfjanotkun og umhverfisáhrif má ekki setja til hliðar bara til að hægt sé að tryggja lægsta verðið. Það er afar ólíklegt að þær ódýrustu innfluttu landbúnaðarafurðirnar í boði  uppfylli þessar kröfur því að matvara sem það gerir kostar meira. Ég á reyndar bágt með að trúa því að þetta sé skoðun félagsmálaráðherrans, miklu frekar yfirsjón af hans hálfu, því að ef þetta er hans skoðun þá er hann væntanlega líka tilbúinn til að gefa eftir eitthvað af réttindum venjulegs verkafólks og öðru sem auðvitað hefur líka áhrif á vöruverð. Því mun ég seint trúa upp á hann.
 
Ekki búvörusamningum að kenna
 
Fjármálaráðherra Viðreisnar var næstur í röðinni. Það var alveg rétt hjá honum að útflutningur á kindakjöti er ekki í samræmi við væntingar. Fyrir því eru einkum fjórar ástæður. Enga þeirra gátu bændur ráðið við og ekki þýðir að kenna búvörusamningum um neina þeirra heldur. Þar er ekkert fjallað um þær og það er reyndar ekki fyrr en 10. ágúst sem fyrsta kindakjötið kom á markað á gildistíma hans. Ríkið og bændur voru sammála á fyrri stigum um að byggja upp sterkari stoðir á erlendum mörkuðum.
 
Deilur ESB og Rússa hafa sett markaði fyrir landbúnaðarafurðir í Evrópu í uppnám. Verðfall er á mörgum afurðum með tilheyrandi tekjutapi fyrir bændur. ESB hefur gripið til ýmissa aðgerða til að bæta bændum að einhverju leyti það tjón sem hlotist hefur af þessum völdum. Þótt viðskiptabann Rússa nái ekki til innflutnings á lambakjöti frá Íslandi setur verðfall á mörkuðum sitt strik í reikninginn.
 
Fríverslunarsamningur við Kína var undirritaður fyrir rúmum þremur árum. Það var ekki ljóst af kynningunni þá að það þyrfti tímafrekt vottunarferli fyrir hverja einustu afurð. Það er fyrst núna í haust að það er að fara í gang fyrir lambakjöt. Hvenær því lýkur vitum við ekki. Ekki liggur neitt fyrir um hvenær samningurinn tekur að fullu gildi, en það var svo sannarlega talið að það tæki styttri tíma en fjögur ár.
 
Noregur lokaðist fyrir okkur vegna sjónarmiða sem við hljótum að sýna skilning. Þeir vernda sína framleiðslu eins og við og þegar ljóst var að þeir væru sjálfir farnir að framleiða nóg fyrir innanlandsmarkað sinn var dyrunum einfaldlega lokað. Það var vissulega ekki hentugt ofan á annað, en við skiljum hvers vegna. Sterkt gengi krónunnar og gengisfall breska pundsins þarf ekki að fjalla frekar um. Það veldur öllum útflutningi vanda, þar með talið þessum, og leggst þungt ofan á það sem þegar er talið.
 
Fyrirheit um aðkomu ríkisins
 
Fjármálaráðherrann hefur reyndar síðar lýst skilningi á vandanum og gefið fyrirheit um aðkomu ríkisins sem eru jákvæðar fréttir.  Samhliða hafa formaður atvinnuveganefndar Alþingis og forsætisráðherra jafnframt stigið fram og lýst yfir að leysa þurfi vandann og að staðið verði við samninga við bændur. Það eru einnig ánægjulegar fréttir sem sýna að stjórnmálamenn hafa verið að kynna sér málið og gera sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er. 
 
Samtalið við ráðherra landbúnaðarmála hefur líka gengið betur. Viðræður hafa staðið yfir og nú í þessari viku hafa okkur verið kynntar tillögur ráðherrans í málinu.  Tillögurnar eru spor í rétta átt og sýna vilja til að leysa málið. Útfærsla þeirra er ekki fyllilega ljós enn og því miður ekki hægt að kynna þær í smáatriðum í þessu blaði, sem er miður, því að tíminn er vissulega hlaupinn frá okkur þegar sláturtíð er að byrja og fóðuröflunum fyrir komandi vetur er lokið að mestu eða öllu leyti. En ég get að minnsta kosti sagt að eins og er, sé þetta samtal um lausnir.
 
En tillögurnar hafa einn stóran galla því þær taka ekki á birgðavandanum og leysa því ekki málið í heild. Það er skaði því miklu skiptir að klára málið núna svo að það komi ekki í bakið á okkur aftur að ári. En hingað til hefur ráðherrann og ríkisstjórnin ekki verið tilbúin í slíkt. Það er misráðið og á eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar. 
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...