Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Óvissa veldur tjóni
Mynd / smh
Skoðun 9. júní 2016

Óvissa veldur tjóni

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Það voru veruleg vonbrigði og í raun óásættanlegt að lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar vegna breytinga sem tengjast nýjum búvörusamningum skyldi ekki vera afgreitt áður en Alþingi fór í sumarleyfi þann 2. júní síðastliðinn.  Það er því fullkomin óvissa um framgang samninga sem eiga að taka gildi um næstu áramót.
 
Samningarnir voru undirritaðir 19. febrúar eftir viðræður frá því í september 2015. Bændur luku afgreiðslu þeirra í lok mars.  Nautgriparæktarsamningur fékk 75% stuðning í atkvæðagreiðslu, sauðfjársamningur 60% en hinir tveir voru samþykktir samhljóða á fundum. Lagafrumvarpið var birt þann 4. apríl svo það gáfust nær tveir mánuðir til afgreiðslu málsins, sem er mun lengra en mörg önnur mál sem Alþingi fjallaði um og afgreiddi nú í  vetur. Það er áhyggjuefni að ríkisstjórnarflokkar sem skreyta sig með áformum um eflingu matvælaframleiðslu skuli í raun ekki vera samstiga um að klára málið núna. 
 
Óvissan er skaðleg 
 
Það er skaðlegt fyrir landbúnaðinn að vera haldið áfram í óvissu um hvert starfsumhverfi hans á að vera frá næstu áramótum. Ákvarðanir í greininni þarf að taka með lengri fyrirvara en í mörgum öðrum atvinnugreinum.  Þeir bændur sem starfa í nautgripa-, sauðfjár- og hrossarækt eru til dæmis að hefja fóðuröflun sumarsins um þessar mundir. Það verkefni hófst í raun með áburðarkaupum fyrr á árinu. Núna þarf að afla heyja miðað við þann fjölda búfjár sem ætlunin er að hafa á fóðrun næsta vetur. Sá fjöldi er aftur í beinu samhengi við það afurðamagn sem framleitt verður á næsta ári. 
 
Sambærilegar ákvarðanir þarf að taka í fleiri búgreinum bæði hvað varðar dýraafurðir og aðra framleiðslu. Þetta er ræktun, hvort sem um er að ræða dýr eða matjurtir. Hana þarf að skipuleggja fram í tímann og henni er ekki stjórnað eins og iðnaðarframleiðslu þar sem einfalt er að stilla framleiðsluna af með því að vinna lengur – eða styttra, eftir því sem hentar. 
 
Varða starfsskilyrði landbúaðarins
 
Búvörusamningar eru ráðandi þáttur í starfsskilyrðum landbúnaðarins og það að ekki liggi fyrir hvernig þeim verður háttað strax um næstu áramót grefur undan uppbyggingu greinarinnar og er í hróplegu ósamræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu matvælaframleiðslu.  Þetta er vond staða og verður til þess að bændur munu fresta  ákvörðunum í lengstu lög og halda að sér höndum.  Nauðsynlegt er að Alþingi taki málið til afgreiðslu strax og það kemur saman þann 15. ágúst.  
 
Opnari samningar
 
Hér skal engin fjöður dregin yfir að samningarnir hafa setið undir ýmiss konar gagnrýni.  Það er ekkert óeðlilegt við það enda er hér um breytingasamninga að ræða. Hugmyndafræði þeirra breytinga er einkum að opna samningana meira og gera þá almennari. Stærsta einstaka stefnumálið er þó að stíga út úr kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og greiðslumarkskerfi í sauðfjárrækt. Meginrökin fyrir því eru að losa bændur undan kostnað við að kaupa sér réttindi til framleiðslu mjólkur eða stuðningsréttindi í sauðfjárrækt. 
 
Bændur ekki á klafa kerfisins
− öll kjöt- og grænmetisframleiðsla er frjáls
 
Því er oft haldið fram að bændur séu bundnir á klafa einhvers ægilegs miðstýringarkerfis. Allt sé bundið í kvóta og því sé stjórnað í smáatriðum hvað hver og einn framleiðir. Staðreyndin er hins vegar sú að öll kjöt- og grænmetisframleiðsla er frjáls og því er ekki stýrt hvað mikið er framleitt, hvorki hjá einstökum bændum eða í heild. Stuðningur ríkisins er hins vegar föst fjárhæð og dreifist á framleiðsluna eftir því hvað hún er mikil hverju sinni. Það er aðeins mjólkurframleiðslan sem starfar innan kvótakerfis. Þar er ákvarðað hvað hver og einn má framleiða mikla mjólk á innanlandsmarkað og fá fullan stuðning fyrir. Framleiðsla umfram það er frjáls en fyrir hana fæst minna.
 
Reyndar hefur þessi takmörkun ekki verið virk undanfarin ár vegna þess að kúabændur hafa átt fullt í fangi með að anna eftirspurn innanlands og fullt verð hefur fengist fyrir alla mjólk. Ljóst er þó að um næstu áramót verður ekki lengur greitt fullt verð fyrir mjólk sem framleidd verður umfram kvóta.
Í nýju samningunum er stefnt að því að hverfa frá þessu kvótakerfi. Mjólkurframleiðsla yrði þá jafnfrjáls og kjöt- og grænmetisframleiðsla er í dag.
 
Ósamrýmanleg sjónarmið
 
Gagnrýni á samningana hefur komið úr ýmsum áttum og sjónarmiðin að baki eru ósamrýmanleg. Allir eru þó sammála um að landbúnaðinn þurfi að styðja með einhverjum hætti en nálgunin að því er afar ólík. 
 
Enginn þjóð leggur örlög landbúnaðar alfarið í hendur markaðarins 
 
Sumir vilja minnka verulega öll opinber afskipti. Það felst þá einkum í því að lækka beinan stuðning verulega og fella um leið niður tollvernd einhliða. 
 
Það er ekkert markmið í sjálfu sér að styrkja landbúnað sem mest, en raunveruleikinn er bara sá að engin þjóð er tilbúin að láta markaðnum einum eftir að ákveða hvað verður um sinn landbúnað.
Einhliða ákvarðanir um niðurskurð á stuðningi hérlendis myndu draga verulega úr umfangi greinarinnar. Í flestum greinum eru aðstæður okkar einfaldlega með þeim hætti að okkar búvörur eru og verða dýrari. Við höfum verið sammála um að standa vörð um búfjárkynin okkar, fjölskyldubúin og nota lyf og önnur hjálparefni sem minnst. Það kemur óhjákvæmilega fram í verðinu. Önnur ríki eru hvorki að fara að fella niður stuðning eða tollvernd.  
 
Aðrir vilja á hinn bóginn meiri miðstýringu. Binda þurfi í reglur hvar megi stunda ákveðnar búgreinar og hvar ekki. Stýra þurfi allri framleiðslu miðað við innanlandsmarkað – sem þýðir þá að taka þarf aftur upp kvótakerfi í sauðfjárrækt og væntanlega ekki hverfa frá því í mjólkurframleiðslu eins og stefnt er að. Þróunin hefur verið í þá átt að auka frelsi bænda inn á okkar markaði en vernda hann um leið fyrir erlendri samkeppni. Innlendi markaðurinn hefur auðvitað verið í forgangi, en útflutningstækifæri verið nýtt þar sem þau hafa boðist. Þeir markaðir eru líka víða verndaðir eins og hér.
 
Bændur alltaf tilbúnir til viðræðna
 
Bændur eru og hafa alltaf verið tilbúnir að ræða hvernig starfsskilyrðum landbúnaðarins verði sem best fyrirkomið. Í viðræðum um samningana voru bændur með sínar áherslur og ríkið sínar. Hvorugur fékk allt sem hann vildi eins og jafnan í samningum. En báðir skrifuðu undir í trausti þess að niðurstaðan væri ásættanleg málamiðlun. Það hafa bændur staðfest og nú þarf ríkið að gera slíkt hið sama.  Síðan geta báðir aðilar komið með áherslur að borðinu við endurskoðunina 2019.  En nú þarf óvissunni að linna.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...