Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Nýtum þau verkfæri sem við höfum til að gera hlutina betur
Mynd / HKr.
Skoðun 24. október 2019

Nýtum þau verkfæri sem við höfum til að gera hlutina betur

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands, gst@bondi.is

Samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók er TOLLVERND kvenkyns nafnorð og þýðing þess „verndun innlendrar framleiðslu með tollum á innflutta vöru“.

Tollvernd er eitt af þeim verkfærum sem þjóðir hafa til að jafna samkeppnisstöðu inn­lendrar framleiðslu gagn­vart erlendri og er beitt í flestum löndum. Hún er þó misjöfn á milli landa, allt frá því að vera tiltölulega lág og á flestum innfluttum vörum, yfir í að vera tiltölulega há á fáa vöruflokka.  Meginreglan er sú að innflutningur er almennt heimill en tollum stundum beitt til að jafna samkeppnisstöðu.

Tollar eru lagðir á fjöldann allan af vörum en hér á eftir verður fjallað um þá tolla sem lagðir eru á landbúnaðarvörur hérlendis. Hingað til Íslands eru þó ekki lagðir tollar á margt, eða aðeins á tíunda hvert tollnúmer. Sem dæmi þá leggur ESB tolla að tæp 75%. Sum lönd gera ítarlegar kostnaðargreiningar á framleiðslukostnaði landbúnaða­rafurða sem nýttar eru m.a við að reikna upphæðir tollverndar til að tryggja að þær séu að skila markmiðinu. Væri ekki eðlilegt að greina betur framleiðslukostnað hérlendis sem verkfæri til viðmiðunar við álagningu tolla?

Tollar hafa lækkað umtalsvert

Árið 2007 var gerður samningur við Evrópu­sambandið þar sem tollar á innfluttar landbúnaðar­vörur voru lækkaðir um 40%. Við hann bættist síðan tollasamningurinn 2015 sem fjallar þó fyrst og fremst um stækkun á tollfrjálsum kvótum. Á sama tíma hafa magntollar verið óbreyttir í krónum og rýrnað í samræmi við verðlagsþróun. Því er eðlilegt að spurt sé hvort tollaálögur séu að vernda innlenda framleiðslu. Hvaða verkfæri er verið að nota til þess að tollverndin þjóni hlutverki sínu? Meginkrafan er að tollvernd sé raunveruleg þar sem hún á að gilda. Það er eðlilegt og sanngjarnt. Ef sífellt er grafið undan henni er um leið grafið undan framleiðsluvilja innlendra framleiðenda og það endar ekki vel. Það hefði þurft að uppreikna magntolla í krónum frá því að samningur var gerður til að umsamin tollvernd héldi og hefði haldið samhengi við almennt verðlag.

Samkeppni á jafnréttisgrundvelli

Taka þarf upp samninginn við Evrópu­sambandið hvað varðar tolla frá ESB-ríkjunum. Fyrir því eru fullgild rök því forsendur eru brostnar með útgöngu Bretlands úr ESB. Þessi aðgerð mun ekki hækka verð á innlendri framleiðslu enda er hún í harðri innbyrðis samkeppni en hún byggir upp framleiðsluvilja innlendra framleiðenda í stað þess að grafa undan honum.

Gera verður sömu kröfur til innfluttrar framleiðslu og innlendrar, bæði hvað varðar framleiðsluhætti og aðbúnað. Það er einfalt sanngirnismál að innlend framleiðsla og innflutt keppi á sömu forsendum hvað þetta varðar.

Þjóðin þarf öflugan landbúnað

Ísland þarf öflugan, sjálf­bæran og samkeppnis­hæfan landbúnað til að tryggja fram­leiðslu á hágæða mat fyrir landsmenn alla. Tollvernd er eitt af þeim verkfærum sem þarf að vera í lagi til að hann geti þróast og með því skapast sterkt félags- og efnahagslegt samfélag á landsbyggðinni. Fæðuöryggi þjóðar er ekki eitthvað sem við getum haft í flimtingum eða dregið bara fram í dags­ljósið um jól og páska eða á öðrum tyllidögum.

Fæðuöryggi er háalvarlegt mál. Því hefur verið haldið fram að við Íslendingar þurfum ekki að huga að eða hafa áhyggjur af fæðuöryggi því við eigum nóga peninga. Við erum vel stæð þjóð og því muni okkur aldrei skorta fæðu. En er þetta svona einfalt þegar upp er staðið? Munu aðrar þjóðir láta sitt eigið fólk víkja bara svo þeir geti brauðfætt okkur? Nærtækt dæmi er þegar Indverjar bönnuðu fyrir skömmu útflutning á lauk.

Sterk landsbyggð er mikilvæg ekki síður en öflug borg. Allt hangir þetta saman í samfélagi sem við höfum búið okkur hér á norðurslóðum. Við verðum ekki sterkari þjóð en veikasti hlekkurinn í keðjunni og því er svo nauðsynlegt að við stöndum betur saman, reynum að átta okkur á þeim grunngildum sem við eigum sameiginleg og stefnum saman í átt til betri og bjartari framtíðar. 

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...