Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Mál sem má ekki endurtaka sig
Skoðun 1. desember 2016

Mál sem má ekki endurtaka sig

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Fyrr í þessari viku fjallaði Kastljós um málefni eggjaframleiðandans Brúneggja ehf. Þar kom meðal annars fram að fyrirtækið hefur ekki sinnt aðfinnslum Matvælastofnunar með fullnægjandi hætti vegna athugasemda um aðbúnað dýra. Auk þess var gert að umtalsefni notkun á merki vistvæns landbúnaðar þrátt fyrir að reglugerð um merkið hafi verið numin úr gildi fyrir rúmu ári síðan.
 
Það voru mikil vonbrigði að sjá þær sláandi myndir sem báru vott um slæman aðbúnað dýranna og sinnuleysi eigendanna við að bregðast við athugasemdum sem gerðar voru. Afstaða Bændasamtaka Íslands hefur alltaf verið skýr í svona málum. Samtökin fordæma illa meðferð á dýrum og hafa ávallt lagt áherslu á að íslenskur landbúnaður sé til fyrirmyndar hvað varðar dýravelferð og góðan aðbúnað. Ljóst er að í þessu tilfelli var farið á svig við lög og allmennt siðferði í dýrahaldi. Þetta er óafsakanlegt og mjög fjarri þeirri fyrirmynd sem íslenskur landbúnaður getur svo sannarlega verið.
 
Ný lög um velferð dýra tóku gildi í ársbyrjun 2014, en reglugerðir um einstakar dýrategundir sumar hverjar ekki fyrr en undir lok þess árs. Í þeim eru mjög framsæknar reglur um velferð dýra og fylgja innleiðingu þeirra miklar áskoranir fyrir landbúnaðinn. Lögin og reglugerðir sem á þeim byggja gera ríkari kröfur til aðbúnaðar búfjár en áður hefur tíðkast. Markmiðið er að tryggja velferð og heilbrigði dýra með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Þó svo að ljóst sé að innleiðing nýrra aðbúnaðarreglugerða verði kostnaðarsöm fyrir íslenska bændur er mikill vilji til að velferð dýra hér á landi verði eins og best gerist í heiminum.
 
Með nýjum lögum um velferð dýra fær Matvælastofnun auknar heimildir til að bregðast við málum sem þessum frá því sem var í eldri lögum. MAST og BÍ hafa samráðsnefnd sem hittist reglulega til að fara yfir sameiginleg mál og ræða hvað betur megi fara í eftirliti og matvælaframleiðslu. Ljóst er að sú nefnd verður að setjast niður án tafar til að ræða hvað betur hefði mátt fara í þessu máli og tryggja að slíkt geti ekki endurtekið sig.
 
Bændasamtökin hafa áður lýst yfir mikilvægi þess að eftirlit sé gott með þeim sem stunda landbúnað og matvælaframleiðslu og farið sé eftir lögum og reglum í hvívetna. Matvælastofnun hefur á síðustu árum þróað eftirlitskerfi og hefur fleiri úrræði en áður til þess að bregðast við slæmri meðhöndlun dýra. Hlutverk stofnunarinnar er að gæta þess að mál líkt og fjallað var um í Kastljósinu komi ekki upp. Það vekur spurningar af hverju mál geta velkst um í kerfinu jafnvel um árabil og lítið sé aðhafst. 
 
Markaðssetning undir merkjum vistvænnar framleiðslu
 
Kastljósþátturinn fjallaði einnig um markaðssetningu eggja undir merkjum vistvænnar framleiðslu. Ljóst er að framleiðsluhættirnir uppfylltu ekki kröfur til að standa undir slíkri nafnbót, meðal annars vegna fjölda hæna á hvern fermetra. Hægt er að taka undir það að með slíku háttarlagi sé verið að blekkja neytendur.
 
Bændasamtökin áttu ásamt fleirum aðild að starfshóp um endurskoðun reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu sem skipaður var í september 2014. Hópnum var ætlað að fara yfir reglugerðina, skilgreiningar á henni og reglur um eftirlit. Jafnframt var hópnum falið að leggja mat á nauðsyn reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Í niðurstöðum hópsins sagði m.a.:
„Hópurinn fór yfir reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu og ræddi ítarlega hvaða hlutverki vistvæn vottun ætti að gegna og hvaða aðilar ættu að vera ábyrgir fyrir henni. Hópurinn var sammála um að núverandi fyrirkomulag, þar sem ekki er reglubundið eftirlit með þeim aðilum sem hafa fengið vistvæna vottun, sé óviðunandi. Jafnframt hefur hópurinn verulegar efasemdir um að það sé heppilegt að stjórnvöld setji reglur um vistvæna framleiðslu og standi fyrir vottuninni með þeim hætti sem reglugerð nr. 504/1998 mælir fyrir um.“
 
Í þessu ferli var leitað samráðs við aðildarfélög Bændasamtaka Íslands og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Niðurstaðan var sú að Bændasamtökin töldu rétt að fara þá leið sem að ofan er lýst þar sem ekkert eftirlit var með framkvæmd reglugerðarinnar. Starfshópurinn lagði því til að reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu yrði felld úr gildi og var það tilkynnt af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í september 2015. Bændasamtökin komu þessum niðurstöðum á framfæri við aðildarfélög sín.
 
Merkingar matvæla verða að vera í lagi
 
Samtök bænda hafa ávallt lagt áherslu á mikilvægi þess að merkingar matvæla séu skýrar og upplýsandi. Árið 2013 höfðum við forgöngu um samstarf um upprunamerkingar við Neytendasamtökin og Samtök atvinnulífsins. Það samstarf var með miklum ágætum og afurð þess var upplýsingaritið „Frá hvaða landi kemur maturinn?“ sem er aðgengilegt á vefslóðinni www.upprunamerkingar.is. Bæklingurinn inniheldur leiðbeiningar til matvælaframleiðenda um hvernig verði sem best staðið að upplýsingagjöf um uppruna til neytenda á umbúðum matvæla. 
 
Eftir fund með formanni Neytenda­samtakanna nú fyrr í vikunni eru forsvarsmenn bænda og neytenda sammála um að hagsmunir neytenda og bænda fari saman þegar kemur að merkingum matvæla og upplýsingum til neytenda. Því er áhugi af beggja hálfu til að halda áfram á sömu braut og vinna í sameiningu betri merkingum og útrýma öllum blekkingum í sölu matvæla hér á landi, hvort sem um er að ræða innlend eða innflutt matvæli.
 
Þær myndir sem birtust landsmönnum í Kastljósþættinum fyrr í vikunni voru sláandi og bera búskapnum á viðkomandi eggjabúum slæmt vitni. Ástæða er til að þakka aðstandendum þáttarins fyrir faglega umfjöllun. Öll umfjöllun var byggð á staðreyndum og forsvarsmönnum fyrirtækisins og Matvælastofnunar gafst kostur á að svara fyrir sig.
 
Það var mikilvægt að fá það staðfest að almennt sé aðbúnaður og velferð varphænsna í góðu lagi á landinu. Þetta einstaka tilvik er fordæmalaust eins og fram kom í viðtali við forstjóra Matvælastofnunar í þættinum. Við þurfum hins vegar öll að leggjast á eitt um að slíkt endurtaki sig aldrei aftur.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...