Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Magnús Óskarsson og Einar Eylert Gíslason temja vagnhest á öndverðum sjötta áratugnum; tveir Hvanneyringar fylgjast með. Mynd / Úr safni MÓ og EEG
Magnús Óskarsson og Einar Eylert Gíslason temja vagnhest á öndverðum sjötta áratugnum; tveir Hvanneyringar fylgjast með. Mynd / Úr safni MÓ og EEG
Mynd / Úr safni MÓ og EEG
Skoðun 15. janúar 2020

Magnús Óskarsson látinn

Höfundur: Bjarni Guðmundsson, Hvanneyri
„…að starfa en heimta ekki, að mega sín mikils án þess að láta til sín taka – það er æðsta dyggðin“ segir Lao-tse í Bókinni um veginn. Orðin koma mér í hug þegar ég að beiðni blaðsins minnist Magnúsar Óskarssonar frá Hvanneyri er lést 28. desember sl., kominn á hálft 93. ár. 
 
Magnús Óskarsson.
 
Hann var kennari minn, samstarfsmaður og félagi um áratuga skeið, eftirminnilegur fyrir margt. Þó ekki væri fyrir annað en samviskusemi, skipuleg og markviss vinnubrögð og læsi á menn og málefni. 
 
Ungur markaði hann sér starfs­braut sem hann fylgdi æ síðan. Orðinn búfræðikandídat frá Framhaldsdeildinni á Hvanneyri hélt hann til Danmerkur, þar sem hann starfaði við Tilraunastöðina í Askov um eins árs skeið; bætti síðan við dvölina öðru námsári við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Þar nam hann áburðarfræði hjá einum virtasta fræðimanni þeirrar tíðar, próf. F. Steenbjerg, en einnig fleiri greinar sem óreglulegur nemandi. Hugur Magnúsar mun hafa staðið til frekara náms og þá í Englandi. Guðmundur skólastjóri Jónsson kallaði hann hins vegar heim, og á Hvanneyri hóf Magnús störf í júníbyrjun 1955. Hlutverk hans skyldi vera að koma þar upp grasafræðigarði og nákvæmnisrannsóknum á efna­jafnvægi jarðvegs. 
 
Grasagarðurinn lenti að mestu í útideyfu því áður en varði hafði Magnús fengið fullar hendur verka við jarðræktartilraunir og að betrum­bæta aðstöðu Bændaskólans til efnarannsókna, hvort tveggja í anda þess sem hann hafði kynnst og lært í Danmörku. Að ráði próf. Steenbjergs hóf Magnús m.a. þegar fyrsta starfssumar sitt að rannsaka fosfórþörf jarðvegs og staðfesti brátt mikilvægi fosfóráburðar við nýræktun mýra. Þegar fyrsta haustið var Magnús einnig kallaður til kennslu við skólann og var það upphaf meira en fjögurra áratuga ferils. Á fáa ef nokkurn kennara við Hvanneyrarskóla fyrr og síðar hef ég heyrt nemendur bera meira lof heldur en Magnús Óskarsson, svo því sé nú haldið til haga. 
 
Gæfa Guðmundar skólastjóra var einnig sú að gefa Magnúsi frjálsræði við uppbyggingu jarðræktartilraunanna á Hvanneyri. Þar nutu samviskusemi, elja og nákvæmni Magnúsar sín til fullnustu. Starfið varð brátt mjög umfangsmikið og fjölbreytt og verkefnin mótuð af kunnáttu Magnúsar og heildarsýn hans á áhrifaþætti íslenskrar jarðræktar. Samstarf þeirra samkennaranna, Magnúsar og Þorsteins frá Húsafelli, á þessu sviði um árabil varð einnig sérlega árangursríkt, og athyglisvert sakir áherslu sem þeir lögðu á samstarf við áhugasama og glögga bændur. Það verðskuldar sögu síðar. 
Á enga mun hallað þótt sagt sé að Tilraunastöðin á Hvanneyri og Magnús hafi brátt orðið leiðandi á landsvísu hvað snerti hagnýtar jarðræktarrannsóknir – án þess þó að mjög hátt færi. Og á sama máta gerðist það í starfi Bændaskólans, að Magnús varð þar fljótlega burðarás og bindiverk, þó jafnan sem „maðurinn á bak við tjöldin“, því eftir vegtyllum sóttist hann aldrei. Kollegi Magnúsar og vinur, Matthías Eggertsson, orðaði það m.a. svo í afmælisgrein um hann fimmtugan: 
 
Nú mætti spyrja, hverju það sæti að Magnús gegni því lykilhlutverki á Hvanneyri, sem hann gerir. Fleira en eitt ber þar til og er þar fyrst að nefna að staðurinn og starfið á og hefur átt hann óskiptan, og hafa persónulegir hagsmunir hans ekki átt í neinni samkeppni við þarfir starfsins. Í sautján ár var hann m.a. lausráðinn við skólann, meðan fastar stöður gengu sem boðhlaupskefli á milli manna. Annað er það, að Magnús er öðrum mönnum fremur gefinn „praktískur sans“. Þetta skal útskýrt nánar með litlu dæmi. Hér á landi sem víðar er haldið uppi andróðri gegn fjölþjóða auðfélögum. Sumir gera það með því að halda ræður og gefa út blöð. Það gerir Magnús ekki. Hann sýnir hins vegar hug sinn í verki, með því að sneiða hjá kunnri fjölþjóða-auðfélags-sáputegund …
 
Já, þessi praktíski sans; nátengdur var hann því innsæi á menn og málefni í straumi tímans sem Magnús bjó yfir svo í ríkum mæli. Því átti hann auðvelt með að lesa og skilja nemendur sína, getu þeirra og þarfir, og þá nálgaðist hann sem jafningja. Í því tvennu lá snilli hans sem kennara.
 
Þá er það fagurkerinn Magnús. Sá lýsti sér ekki aðeins í hvers­dags­klæðnaði hans að hætti enskra hefðarmanna á meðan við hinir yngri kennararnir lufsuðust um í lopapeysum og gallabuxum. Á fjölmörgum náms- og kynnisferðum, svo og í sumarleyfum, gerði Magnús sér far um að kynnast menningu þjóða, og sótti menningarstaði, söfn og sýningar eftir megni. Mörgum okkar nemenda hans eru í fersku minni menningarkvöldin svonefndu er Magnús bauð til í stofu sinni, framan af með Þorsteini kollega sínum frá Húsafelli, þar sem leikin var sígild tónlist af hljómplötum, fjallað um bókmenntir og fleira sem andann auðgaði utan hins daglega amsturs. 
 
Áður en Magnús hélt til Danmerkur­dvalarinnar haustið 1953 kvaddi hann m.a. ömmusystur sína, Jóhönnu Magnúsdóttur, sem varð „85 ára um daginn“, skrifaði Magnús í dagbók sína; bætti síðan við: „Hún ráðlagði mér meðal annars að koma ekki heim með danska stelpu aftur til baka.“ Magnús hélt það loforð of lengi að margra mati, var einhleypur maður alla tíð; ef til vill buðust honum of margir kostir. Hann varð því síðasta kynslóðin á sinni grein. Hins vegar mun minning Magnúsar lifa og mannbætandi áhrifa hans gæta meðal þeirra mörgu sem nutu kennslu hans, leiðsagnar og annarra dyggra starfa – í anda orða Lao-tse…  
 
Bjarni Guðmundsson
Hvanneyri
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...