Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Límið í byggðunum
Skoðun 14. febrúar 2018

Límið í byggðunum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Íslenskir bændur þurfa sannarlega ekki að skammast sín fyrir árangur í gæðaframleiðslu landbúnaðarvara. Það sýnir sig best að ár eftir ár er verið að slá ný met á þeim vettvangi.

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að kýr númer 851 á Innri-Kleif í Breiðdal á Austfjörðum hafi sett nýtt Íslandsmet er hún mjólkaði hvorki meira né minna en 14,2 tonnum. Þar var einnig greint frá því að Brúsastaðir í Vatnsdal hafi verið afurðahæsta kúabúið annað árið í röð. Höfðu bændur á sama bæ áður hampað slíku afreki í tvígang, auk þess að hafa átt kú sem setti Íslandsmet. Íslenskir kúabændur hafa líka tekið risaskref í þróunarmálum með uppbyggingu lausagöngufjósa og innleiðingu mjaltaþjóna.

Í blaðinu í dag er svo greint frá því að Eiríkur Jónsson í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum hafi sett nýtt Íslandsmet í meðalafurðum eftir hverja kind, eða 48,1 kg. Fjöldi sauðfjárbænda hafa líka verið að standa sig afburðavel í ræktun og framleiðslu þó ekki séu þeir öfundsverðir þegar kemur að því að telja saman þá fjárhagslegu umbun sem þeir fá fyrir sinn snúð. Þar brjóta menn nú heila í bakherbergjum stjórnsýslunnar varðandi það hvaða stefnu skuli taka til að bæta úr þeirri ófremdarstöðu sem uppi hefur verið í þessari grein.

Víst er að þar dugar ekki að sveifla pennum og strika yfir starfsemi sauðfjárbænda í hagræðingarskyni. Það hangir nefnilega ýmislegt fleira á þeirri spýtu. Hvort sem mönnum líkar vel við bændur eða ekki, þá er það staðreynd að þeir eru víða límið sem heldur saman heilu samlögunum. Ef þeim er kippt út úr jöfnunni til að láta exelskjal arðseminnar líta betur út, þá er hætt við að önnur exelskjöl muni ekki ganga upp. Þegar bændur neyðast til að gefast upp, þá rýrnar byggð á viðkomandi svæði og félagsleg staða heilu byggðarlaganna getur umturnast á einu augabragði. Þegar heilu samfélögin hrynja hverfa líka möguleikarnir til sóknar á viðkomandi svæði. Þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um vanda sauðfjárbænda. Þeirra vandi er nefnilega vandi heilu byggðarlaganna og stundum heilu landshlutanna. Það þarf að finna lausnir en þær verða að vera á skynsemi byggðar.

Ferðaþjónusta hefur verið sá vaxtarsproti sem mest hefur verið áberandi í íslensku þjóðfélagi á síðustu árum. Erlendir ferðamenn eru langflestir hingað komnir til að njóta einstakrar náttúrufegurðar og til að upplifa íslenska menningu. Íslenska náttúrufegurð er vart að finna í stórum stíl í miðbæ Reykjavíkur og íslensk miðborgarmenning sýnir harla falska mynd af menningu þjóðarinnar. Það er bara einföld staðreynd að púslin í þá mynd sem ferðamenn sækjast helst eftir er langflest að finna á landsbyggðinni.

Ef við höfum ekki ráð á að byggja landið sem víðast, þá missir landið stóran hluta af sínu aðdráttarafli. Ferðamönnum mun þá fækka og efnahagur þjóðarinnar þrengjast. Ef menn vilja aftur á móti gera eitthvað til að styrkja stöðuna, þá þarf að halda áfram af krafti við þá merkilegu vinnu sem í gangi hefur verið við uppbyggingu fjarskiptakerfisins. Alvöru raforkuvæðing með þriggja fasa lögnum í sveitum er líka nauðsynleg forsenda framfara, m.a. í rafbílavæðingu.

Eitt mikilvægasta verkefnið er þó að halda uppi nútíma vegum og samgöngukerfi. Þar verða menn bara að fara að hysja upp um sig buxurnar ef ekki á enn verr að fara. Illa farið vegakerfi er þegar orðið allt of dýrt fyrir þjóðina og mannslífin sem glatast á vegum landsins á hverju ári eru algerlega óverjandi fórnarkostnaður. 

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...