Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þorskafjörður og Teigsskógur.
Þorskafjörður og Teigsskógur.
Mynd / RTG
Lesendarýni 16. október 2017

Teigsskógarruglið

Höfundur: Reynir Tómas Geirsson
Í Bændablaðinu frá 24. ágúst skrifa þeir Hallgrímur Sveinsson, Guðmundur Ingvarsson og Bjarni G. Einarsson um eldri vegagerð á Vestfjörðum þar sem varfærnir menn á litlum ýtum ruddu vegi sem falla víðast hvar vel inn í landslagið og eru þar lítið áberandi. 
 
Þá var um að ræða nauðsynlegar samgöngubætur sem nú á tímum nýtast sums staðar helst til skemmtiferða á sumrin. Þeir jafna þessu saman við áætlanir um að leggja tvíbreiðan, upphækkaðan, malbikaðan heilsársveg sem þarf að þola þungaflutninga gegnum einn af fáum ósnertum skógum landsins, Teigsskóg í Þorskafirði.
 
Reynir Tómas Geirsson.
Veg sem fer ekki aðeins gegnum skóglendi í bratta, heldur á líka að liggja yfir fallega gróið Hallsteinsnesið og mundi þvera minni Djúpafjarðar og Gufufjarðar  yfir smáeyjar og leirur með miklu fuglalífi. Vegur sem þessi er allt önnur framkvæmd en afrek fyrri vegagerðarmanna sem þeir vitna til. Skógarhlíðin í norðanverðum Þorskafirði er þannig að þar mun víða þurfa yfir 50 m breitt vegarstæði. Það yrði skemmd sem gæti sums staðar tekið verulega úr breidd skógarins. Mannvirki sem þetta yrði áberandi í landslaginu og er ekki eins og vegslóðinn fyrir skagann milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Spyrja má hvort þarfir mannsins í átt að meintum efnahagslegum framförum eigi alltaf að hafa forgang eða gæti maðurinn haft aðrar þarfir, svo sem fyrir fegurð og kyrrð og ósnortna náttúru? Hvað um aðrar lífverur sem deila Vestfjörðum með mönnunum? Bent hefur verið á augljósan annan valkost sem þar að auki yrði öruggari og gæti komið íbúum sveitarinnar betur, nefnilega jarðgöng gegnum einn eða jafnvel tvo hálsa. 
 
Það yrði dýrari kostur í byrjun, en til langs tíma gæti það reynst betra mál með tilliti til vegalengda, umferðaröryggis og landsins. Um leið mætti gera Teigsskóg aðgengilegri fyrir göngufólk með aðferðum sem eiga meira skylt við gamla vegagerð en þá sem menn telja að nú þurfi.
 
Þeir félagar minnast á „stráka sem aldrei hafa komið austur fyrir Elliðaár“ og virðast telja þá vilja stjórna því hvernig Vestfirðingar „haga sínum málum“. Með þannig orðalagi er verið að kasta rýrð á aðra með skoðun á málefninu. Náttúruvernd og vegagerð á Íslandi eru ekki einkamál einstakra landshluta, heldur varða alla landsmenn. Jafnvel fleiri jarðarbúa sem vilja reyna að halda í náttúru án áberandi mannvirkja. Ég er sjálfsagt að mati sumra ekki til þess bær að fjalla um þessa tilteknu vegalagningu þar sem örlögin hafa hagað því svo til að ég fæddist og hef lengst búið í Reykjavík. Ég hef þó einnig búið og starfað á Vestfjörðum og alltaf haft þangað tengsl og taugar. Ég hef þar að auki komið endurtekið í Teigsskóg, á Hallsteinsnes og að mynni fjarðanna, sem er meira en sennilega verður sagt um flesta Vestfirðinga. Þarna er fallegur trjágróður, íslenskt blóma- og jurtaskrúð og sérstæð fjörunáttúra ásamt fuglalífi (þ.m.t. arnarvarpi), sem ég leyfi mér að upplýsa þá um sem ekki hafa farið á svæðið.
 
Hér togast á markmið. Annars vegar þörfin fyrir betri vegasamgöngur svo koma megi fólki og vörum til og frá byggðum Vestfjarða. „Ódýrari“ kostinn. Hins vegar það að eyðileggja ekki gamalt gróið land sem kannski er líkt því sem það var þegar land byggðist. Frekar ætti að stefna á aðrar lausnir sem myndu tryggja bæði markmiðin. Það væri þess virði í framtíðinni, jafnvel þótt kostnaðurinn væri til skamms tíma meiri. Einhvern veginn grunar mig að þeir félagar gætu vel samsinnt þessu. Að skemma þetta landsvæði með nútíma vegagerð væri að mínu áliti hið raunverulega Teigsskógarrugl.
 
Reynir Tómas Geirsson
Höfundur er fyrrverandi prófessor og yfirlæknir.

Skylt efni: Teigsskógur

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...