Mynd/HKr. Arnar Árnason.
Lesendabásinn 22. nóvember 2019

Samkomulag sem réttir kúrsinn

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda
Kæru kúabændur
Samkomulag okkar bænda og stjórnvalda um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar var undirritað þann 25. október sl. Til stóð að greiða atkvæði um samkomulagið dagana 20. - 27. nóvember en nú hefur verið ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni um viku. Við munum því greiða atkvæði dagana 27. nóvember til 4. desember nk. Frestunin er komin til eftir að undirskriftarlista frá bændum var skilað til BÍ í líðandi viku, en þar hvetja undirritaðir samninganefnd bænda að freista þess að ná fram skýrari línum í ákveðnum atriðum samkomulagsins. Hafa og verða dagarnir fram að atkvæðagreiðslu nýttir til viðræðna við stjórnvöld þar um.
 
Árangursríkar viðræður
 
Kröfur samninganefndar bænda voru annars vegar byggðar á niðurstöðu atkvæðagreiðslu bænda um framleiðslustýringu í formi kvótakerfis sem átti sér stað í febrúar sl. og 90% kusu þar að halda í kvótakerfið, og hins vegar ályktunum aðalfundar LK í vor. LK og BÍ unnu svo kröfugerðina áfram saman eins og venja er og birtum við stjórnvöldum þær strax á fyrsta fundi í vor. Samningaferlið gekk heilt yfir ágætlega þó svo samningsaðilum greini á um einstaka atriði. Þá er samið sig niður á niðurstöðu sem allir aðilar geta sætt sig við. 
 
Það er ánægjulegt að segja frá því að í flestum atriðum tóku stjórnvöld undir með bændum og fóru þau inn í samkomulagið með þeim hætti sem lagt var upp með á aðalfundi okkar í vor. Þar má nefna stærstu breytinguna; að festa kvótakerfið í sessi. Vert er að rifja upp að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar meðal bænda var nefnilega ekki bindandi fyrir stjórnvöld. Þannig komumst við aftur á rétta braut eftir þá vegferð sem lagt var upp með árið 2016 um að afnema kvótann með öllu því raski á greininni sem því hefði fylgt. 
 
Einnig náðist samkomulag um að viðskipti með greiðslumark yrðu í gegnum markað sem opinber aðili hefði umsjón með, niðurtröppun á greiðslum út á greiðslumark yrði stöðvuð o.s.frv. Í samkomulaginu koma loftslagsmál svo ný inn í samninginn þar sem við kúabændur setjum okkur metnaðarfull markmið um kolefnisjöfnun fyrir árið 2040. Er það í takt við áherslur okkar í stefnumótun greinarinnar til næstu 10 ára sem unnin var á síðasta ári, sem og áherslur ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. 
 
Aðkoma bænda aldrei meiri
 
Líkt og fleiri þá myndi ég vilja að við værum komin með kerfi í kringum verðlagningu sem myndi virka sem skildi. Þau mál hafa verið í lausum skorðum í of langan tíma, en þó ekki í óvissu. Við erum með verðlagsnefnd í dag og það fyrirkomulag verður við lýði þar til annað betra finnst og tekur við. Sú niðurstaða náðist að stofna starfshóp um þessi mál sem skila á tillögum í maí nk. Þar er lykilatriði að þær tillögur koma ekki til framkvæmda nema bændur samþykki það í atkvæðagreiðslu. Því erum við hér að tryggja bændum aðkomu að einstökum liðum samningsins, eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Ég minni á að tillögur samráðshópsins sem lauk störfum í febrúar voru að þessi mál færu til verðlagsnefndar og yrðu þar í vinnslu næstu fjögur ár, samhliða öðrum verkefnum þeirrar nefndar, og þar var ekki minnst á atkvæðagreiðslu meðal bænda. Tel ég okkur hér því hafa náð góðum árangri. 
 
Auk þeirra atriða sem lagt var upp með að taka fyrir í endurskoðuninni voru fleiri ályktanir af aðalfundi okkar tekin til umræðu. Þar má nefna möguleikann á samrekstri búa, skattalegt umhverfi viðskipta með búrekstur og bújarðir, rannsóknir, fræðslu og menntun bænda. Var þeim áfanga náð í samkomulaginu að skipaður verður sameiginlegur starfshópur bænda og ríkis til að vinna að þessum málum og mun sá hópur einnig skila tillögum í maí nk. sem bændur kjósa svo um. 
 
Viðskipti með greiðslumark
 
Með samkomulaginu er tryggt að viðskipti með greiðslumark fari í gegnum miðlægan markað í umsjón opinbers aðila, líkt og ályktað var um á aðalfundi LK í vor. Markaðurinn byggist upp á jafnvægisverði en ekki náðist samkomulag um að hámarksverð yrði sett á markaðinn. Þess í stað var framkvæmdanefnd búvörusamninga gefin heimild til að gera tillögu að hámarksverði ef verðþróun á markaðinum verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti. Í þeirri nefnd eiga bændur þrjá af sex fulltrúum. Í samkomulaginu náðust einnig í gegn þær áherslur bænda að 50.000 lítra hámark væri á hverju boði á hverjum markaði og að hámark sé á hlutdeild framleiðenda af heildargreiðslumarki hvers árs. Það er alveg nýtt ákvæði og gert til að styðja við frekari dreifingu greiðslumarksins milli búa. 
 
Atkvæðagreiðsla hefst í næstu viku
 
Kæru félagar. Við munum ganga til kosninga um samkomulag þetta í næstu viku. Næstu skref þar á eftir eru að farið verður með málið fyrir Alþingi og vonandi gengur það ferli hratt og örugglega. Það er lykilatriði að endurskoðaður samningur taki gildi um áramótin, annars myndi að óbreyttu núgildandi samningur standa áfram í þeirri mynd sem hann er. Samkvæmt honum hefst niðurtröppun á greiðslur út á greiðslumark með miklum þunga á næsta ári og viðskipti með kvóta stöðvast, þar sem ríkið hefur einungis innlausnarskyldu út árið 2019. 
 
Ég hvet bændur til að kynna sér efni samkomulagsins náið og eins að hafa samband ef einhverjar frekari spurningar eru. Við erum boðin og búin að svara öllum þeim vangaveltum sem vakna og skýra það sem skýra þarf hverju sinni. Auk þess hvet ég bændur til að nýta atkvæðarétt sinn, þetta er samkomulag sem snertir okkur öll.