Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Landbúnaður í nútíð og framtíð
Mynd / Odd Stefán
Lesendarýni 12. janúar 2017

Landbúnaður í nútíð og framtíð

Höfundur: Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur
Þann 15. desember birtist í Bændablaðinu heilsíðugrein sem bar heitið „Landbúnaður á nútíma vísu“ en í undirtitli voru bornar fram þrjár spurningar: „Hvað er fjölskyldubú? Hvað er verksmiðjubúskapur „factory farming“? Hvar standa íslensk býli í slíkum samanburði við erlend?“ Allt eru þetta áhugaverðar spurningar sem fengur er í að fá svör við. 
 
Í inngangi er m.a. bent á að landbúnaður þurfi að framleiða fæðu handa ört fjölgandi íbúum jarðar. Þetta er mikilvægt hlutverk og sannarlega ekki sama hvernig að því er staðið þar sem landbúnaður mun vera annar stærsti mengunarvaldur heimsins á eftir orkuframleiðslu. Þetta er einkum vegna úrgangs frá búfjárframleiðslu. Því þarf að stunda landbúnað „með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi sem og að tryggja góða meðferð á búfé og bændum sanngjarnt hlutskipti fyrir vinnu sína“ eins og segir í greininni.
 
Það er stórt verkefni að brauðfæða heiminn, en núverandi framleiðsla mun duga til að næra um 9 milljarða manna. Hins vegar er hluti af framleiðslunni nýttur til að fóðra skepnur fyrir kjötframleiðslu og einnig til að framleiða eldsneyti, en um þriðjungur af framleiðslunni endar á ruslahaugum. Á meðan svelta um 11% mannkyns. Það er því ekki vegna þess að matur sé ekki til í heiminum, heldur vegna fátæktar, ófriðar og misskiptingar auðs. 
 
Fátækir eiga t.d. erfiðara en aðrir með að bregðast við vaxandi breytingum á veðurfari. Hungur er því eins og annað tengt matvælum, að stórum hluta afleiðing pólitískra ákvarðana, bæði staðbundinna og alþjóðlegra. 
 
Hið raunverulega viðfangsefni þeirra sem vilja útrýma hungri er því að stuðla að friði og jöfnuði um leið og dregið er úr mengun og sóun.
 
Eru stórar einingar eða verksmiðjubúskapur lausnin?
 
Hugtakið verksmiðjubúskapur hefur verið notað á Íslandi um áratuga skeið (sjá t.a.m. Halldór Pálsson í Búnaðarritinu 1971) en skýr skilgreining á því liggur þó ekki fyrir. Hins vegar kom fram á Alþingi árið 2000 að umhverfisráðuneytið liti svo á að með verksmiðjubúum væri átt við bú sem falla undir I. og II. viðauka laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og tölulið 6.6 í I. viðauka reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. 
 
Samkvæmt þessum skilningi er ótvíætt að verksmiðjubúskapur er stundaður hér. Hugsanlega er það þó í skjóli skorts á sérstakri skilgreiningu verksmiðjubúskapar í lögum, sem því hefur verið haldið fram opinberlega að hann sé ekki til í landinu. 
 
Til er skilgreining alþjóðastofnana á verksmiðjubúskap sem er ekki skýr og er fyrst og fremst sett fram sem andstæða lífræns landbúnaðar. Evrópuráðið hefur sett sérstakar tilskipanir varðandi mengandi iðnaðarstarfsemi og þar er þauleldi á meðal.
 
Í Bandaríkjunum (BNA) eru ákvæði umhverfisverndarlaga misströng eftir ríkjum, en hins vegar eru þauleldisbú og mengunarhættan sem af þeim stafar svo alvarleg ógn við umhverfið að settar eru alríkisreglur um þau. 
 
Þauleldisbúin eru flokkuð í lítil, meðal- eða stór bú. Samkvæmt þeirri flokkun er t.d. bú með stæði fyrir 2.500 eða fleiri aligrísi stórt þauleldisbú. Í daglegu tali er hugtakið verksmiðjubú þó notað um öll þauleldisbú.
 
Afneitun einstakra stjórnmála­manna og forsvarsfólks landbúnaðarins á því að á Íslandi sé stundaður verksmiðjubúskapur er athyglisverð. 
 
Í greininni sem birtist í Bænda­blaðinu þann 15. desember er ýjað að því að með „málflutningi“ um að á Íslandi tíðkist verksmiðjubúskapur sé verið að grafa undan þauleldi á Íslandi og færa slíka framleiðslu úr landi. Með öðrum orðum með því að nefna hlutina réttu nafni (skv. máltilfinningu Halldórs Pálssonar o.fl.) muni það draga úr eftirspurn eftir íslensku kjöti af skepnum sem aldrei fá að líta dagsins ljós eða anda að sér fersku lofti og að fólk muni í staðinn ásælast erlent verksmiðjukjöt. 
 
Nú er það svo að þeir sem aðhyllast umhverfisvernd, og eru þar með lítt hallir undir verksmiðjubúskap, gera sér ljóst að ekki þýðir að flytja óæskilega starfsemi milli landa, heldur er farsælla að nota aðrar aðferðir, í þessu tilfelli til að framleiða fæðu á boðlegan hátt, á boðlegu verði til neytenda. Enginn á að þurfa að gera sér að góðu að þurfa að borða kjöt sem búið er til í verksmiðju, með tilheyrandi mengun og sýkingarhættu. 
 
Hluti af lausninni er að hvetja til aukinnar neyslu á grænmeti, og ræktun á því, í stað þess að þurrka upp votlendi og ryðja skóga til að rækta korn til að fóðra skepnur sem þurfa að eyða ævinni í fitun bak við luktar dyr til að svala meintri kjötþörf fólks.
 
Umhverfisáhrif
 
Umhverfisáhrif verksmiðju­búskapar eru vel þekkt og umtalsverð. Þetta á sérstaklega við um þauleldi á skepnum þar sem mikið af úrgangi verður til á takmörkuðu svæði með tilheyrandi hættu á mengun lofts, jarðvegs og grunnvatns. 
 
Íslendingar geta fagnað því að notkun á dýralyfjum í landbúnaði er sú næstlægsta í Evrópu enda er stór hluti kjötframleiðslunnar af lömbum sem ganga úti. Þar sem mikill fjöldi dýra er alinn á litlu svæði, eins og í þauleldi, er hætta á sýkingum meiri en ella. 
 
Sýkingar svo sem af völdum Salmonellu, virðast vera óhjákvæmilegur fylgifiskur þauleldisbúa og dæmin næg bæði hérlendis og erlendis. Sökum þéttleikans eru verksmiðjubú ákjósanlegir staðir fyrir útbreiðslu lyfjaónæmra baktería. Þetta hefur valdið áhyggjum heilbrigðisvísindamanna vegna hugsanlegra langtímaáhrifa á heilsufar fólks. 
 
Sýklalyfjum er víða blandað í fóður þauleldisdýra en slíkt er bannað í Evrópu. Hins vegar er því miður ekki ljóst hvernig þeim reglum er fylgt eftir. Samkvæmt Lyfjastofnun mun notkun sýklalyfja í fóðri eða drykkjarvatni vera fátíð hér á landi. Þrátt fyrir það hafa lyfjaónæmir sýklar greinst í þauleldiskjöti sem framleitt er á Íslandi og mykju einnig. 
 
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst því yfir að sýklalyfaónæmi sé ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum um þessar mundir. Svokallaðir mósar sem eru lyfjaþolnir sýklar, geta valdið alvarlegum sýkingum og eru mjög útbreiddir í Danmörku, Hollandi og víðar. Enn sem komið er hafa þeir ekki greinst í búum á Íslandi en hættan er engu að síður yfirvofandi.
 
Hljótist mengun af iðnaði eins og verksmiðjubúum, fellur kostnaður sjaldnast á þann sem menguninni   veldur heldur á þolendur og sameiginlega sjóði.
 
Algengustu rökin fyrir réttlætingu verksmiðjubúa er að með þeirri tækni sem þar er notuð sé hægt að framleiða mikið af matvöru á viðráðanlegu verði. Rannsóknir í BNA hafa hins vegar sýnt að ef tekið væri tillit til umhverfiskostnaðar af verksmiðjubúum og eigendum þeirra gert að byggja hreinsivirki fyrir úrgang væri framleiðsla þeirra dýrari en í hefðbundnum búrekstri. Þá hafa komið upp hugmyndir um að leggja sérstakan umhverfisskatt á verksmiðjubú sem myndi hækka verð vörunnar til neytenda en jafnframt auðvelda yfirvöldum að mæta kostnaði af mengun. 
 
Framtíðarlandbúnaður í anda sjálfbærrar þróunar
 
Fjölskyldubú er ekki endilega heppileg skilgreining á andstæðu verksmiðjubúskapar þar sem ein fjölskylda getur auðveldlega átt og rekið stærstu verksmiðjubú landsins. Nær að tala um sjálfbæran landbúnað (þann sem lýtur sjálfbærri þróun) annars vegar og búskap sem ógnar umhverfinu hins vegar. Í þeim síðarnefnda  eru verksmiðjubú fremst í flokki.
 
Enginn amast við framþróun og tækninýjungum í landbúnaði svo fremi að þær hafi ekki neikvæðar aukaverkanir í för með sér. Jafnvægi þarf að ríkja á milli tæknivæðingar og umhverfisverndar. Þetta á ekki hvað síst við í landbúnaði sem byggir tilveru sína á heilnæmu umhverfi enda hefur landbúnaðarvistfræði vaxið mjög sem fræðigrein á undanförnum áratugum. Það er alþjóðlega viðurkennd niðurstaða að landbúnaður sem kenndur er við sjálfbæra þróun er talin vænlegastur til sjá mannkyninu fyrir landbúnaðarvörum í framtíðinni. Verksmiðjubúskapur stangast á við allar þrjár meginstoðir sjálfbærar þróunar og því ekki ábyrgt að hampa honum sem hluta af framtíðarlandbúnaði.  
 
Salvör Jónsdóttir
skipulagsfræðingur
Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...