Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Starfsskilyrði landbúnaðar í nútíð og framtíð
Leiðari 7. desember 2015

Starfsskilyrði landbúnaðar í nútíð og framtíð

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Samningaviðræður um nýja búvörusamninga milli ríkis og bænda hafa nú staðið frá því í septemberbyrjun. 

Undanfarnar vikur hefur verið fundað stíft til þess að ná saman um meginlínur búgreinasamninganna, en rammasamningur hefur setið á hakanum á meðan. Í þeim tillögum felast miklar breytingar á samningunum frá því sem nú er. Fulltrúar bænda lögðu á það áherslu að kynna þær meginlínur meðal bænda til að fá viðbrögð þeirra áður en samningar yrðu kláraðir. Kynningarfundirnir nú kynntu meginlínur sem aðilar hafa náð saman um en umræður um fjárhæðir eru ekki hafnar.

Fundað með bændum

Í síðustu viku stóðu Bændasamtökin fyrir fjórum almennum bændafundum auk þess sem Landssamband kúabænda, Samband garðyrkjubænda og Landssamtök sauðfjárbænda funduðu með fulltrúum sinna búgreina um málið. Miklar umræður voru á öllum þessum fundum og þótt ekki séu allir á eitt sáttir um þær tillögur sem kynntar voru, voru umræður mjög málefnalegar og því gagnlegar fyrir fulltrúa bænda í samninganefnd upp á framhaldið.

Fulltrúar bænda komu til viðræðna nestaðir ályktunum frá Búnaðarþingi og aðalfundum búgreinafélaga. Óhætt er að segja að þær hugmyndir hafi ekki í öllum tilfellum samrýmst áherslum ríkisins, sem lagði til ýmsar hugmyndir að breytingum. Hvað sem því líður þá voru á fundunum kynntar meginlínur samninga sem fulltrúar beggja aðila voru sammála um.

Rætt um samning til tíu ára

Þær tillögur snúast í hnotskurn um að gera langan breytingasamning sem í lok samningstímans verður laus við marga ágalla núverandi samninga. Áherslan er því að hlúa að starfsskilyrðum þeirra sem ætla sér að stunda búskap eða að koma nýir inn í greinina í framtíðinni án þess að kollvarpa áformum þeirra sem huga að búskaparlokum á allra næstu árum. Vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til verður samningurinn til 10 ára með tveimur föstum endurskoðunum, annars vegar árið 2019 og hins vegar árið 2023.

Lagt er til að greiðslumark sem gengur kaupum og sölum hverfi á samningstímanum.  Kvótakerfi í mjólk verði aflagt um miðbik samningsins og eitt verð verði greitt fyrir alla mjólk, hvort sem hún fer á innanlandsmarkað eða til útflutnings. Fram að aflagningu kvótans verði heildargreiðslumark í mjólk fryst og framsal á kvóta milli aðila bannað.  Þess í stað hafi ríkið innlausnarskyldu á kvóta hjá þeim sem hyggjast hætta mjólkurframleiðslu. Hlutfall þeirra stuðningsgreiðslna sem greiddar hafa verið á hvern lítra mjólkur sem framleiddur hefur verið innan kvóta verður lækkað og aukin hlutdeild greidd út á alla mjólk sem kemur í afurðastöð. Lagðar eru til breytingar á því verðlagningarkerfi  sem hefur verið við lýði og að tekinn verði upp stuðningur við framleiðslu á nautakjöti í bestu gæðaflokkum.

Beingreiðslur á hvert ærgildi í sauðfjárrækt minnka ár hvert fram á miðjan samningstímann uns frjálst framsal þeirra verður bannað, ásetningsskylda aflögð og greiðslumark í framhaldinu aflagt í þrepum.  Nýtt átaksverkefni, „Aukið virði sauðfjárafurða“, verði tekið upp í sauðfjársamningi. Markmið þess er að auka virði sauðfjárafurða með því að standa sameiginlega að markaðssetningu þeirra afurða undir einu merki á erlendum hágæða mörkuðum og til erlendra gesta hér á landi.

Í samningunum er einnig lagt til að hluta fjármuna sé varið til fjárfestinga. Þar er áhersla á stuðning við nýframkvæmdir, breytingar á eldri húsum og bættan aðbúnað gripa. Enn fremur eru tillögur um að auka fjármuni í jarðræktarsjóð til að styðja við endurræktun túna, kornrækt og grænfóður. Gripagreiðslur verða teknar upp í sauðfjárrækt og hlutfall þeirra aukið í nautgriparækt umfram það sem verið hefur.

Ekki miklar breytingar varðandi garðyrkjuna

Nokkur sátt hefur verið um garðyrkjusamninginn og því eru ekki lagðar til miklar breytingar á honum. Þó er lagt til að niðurgreiðslur á flutningi og dreifingu raforku verði færðar inn í samninginn til að auka gegnsæi þeirra og fyrirsjáanleika.  Aðilar eru sammála um að láta skoða umfang tollverndar í útiræktuðu grænmeti og meta möguleika á afnámi þeirrar tollverndar gegn annars konar stuðningi. Tillögur í þessa veru muni verða tilbúnar við endurskoðun samnings 2019.

Miklar umræður sköpuðust um þessar meginlínur á fundum með bændum í seinustu viku.  420 manns mættu á almennu bændafundina fjóra. Að hinum fundunum meðtöldum komu um 600 bændur til samráðs um þessi mál.

Nautgripabændur óttast verðfall

Áhyggjur í nautgriparæktinni voru fyrst og fremst af því að breytingar myndu leiða til aukinnar framleiðslu og verðfalls í framhaldinu. Ástandið á mörkuðum í Evrópu um þessar mundir hafði óneitanlega áhrif á umræðuna þó að þar komi fleiri áhrifaþættir til en afnám kvótakerfis innan ESB. En margir lögðu áherslu á að það þyrftu að vera fyrir hendi virk stjórntæki til að bregðast við ef aðstæður þróast með neikvæðum hætti hér heima. Margir þeirra sem lýstu áhyggjum af áhrifum nýs fyrirkomulags voru þó ekki ánægðir með núverandi kerfi, en vildu frekar leita leiða til að lagfæra það eða skoða aðrar útfærslur.

Sauðfjárbændur lýsa áhyggjum

Í sauðfjárræktinni var sömuleiðis lýst áhyggjum af framleiðsluhvata tillagnanna, en einnig komu fram jákvæð viðbrögð með að til stæði að leggja af stuðning sem gengur kaupum og sölum og þá aðgangshindrun sem í því felst. Talsverð umræða varð um útfærslu á landnýtingarþætti gæðastýringar í ljósi þess að ætlunin er að auka vægi hennar.  Miklu skipti að forsendur að baki væru skýrar og gagnsæjar og traust ríkti á milli aðila. Margir vildu efla byggðalega þætti samningsins og sækja aukið fjármagn til þeirra verkefna og til að auðvelda aðlögun að breytingunum.

Það var mikilvægt fyrir fulltrúa bænda í samninganefnd að heyra viðhorf þeirra fjölmörgu sem sóttu fundina og áhyggjur þeirra eru skiljanlegar enda verið að leggja upp með miklar breytingar. Næsta skref er að fara yfir þær ábendingar sem fram komu og leita lausna. Það er ætlunin að setja ýmsa varnagla, en meining er að gera breytingasamning til að bregðast við göllum núverandi kerfis og nýta tækifæri framtíðarinnar. Markmiðið er að bændur nútíðarinnar geri samning sem skapi aðstæður fyrir bændur framtíðarinnar til að sækja fram og efla íslenskan landbúnað enn frekar.

Skylt efni: Leiðari | búvörusamningar

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...

Landbúnaðarland
Leiðari 30. nóvember 2023

Landbúnaðarland

Jude L. Capper prófessor sagði í erindi sínu á afmælisráðstefnu RML að misvísand...

Mínus
Leiðari 1. nóvember 2023

Mínus

Fæðuöryggi er einn af hornsteinum þjóðaröryggis, segir Johan Åberg hér í tölubla...