Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hvernig verður framtíð landbúnaðar á Íslandi?
Lesendarýni 15. janúar 2016

Hvernig verður framtíð landbúnaðar á Íslandi?

Höfundur: Ragnar Þorsteinsson Sýrnesi Aðaldal
Hvernig var Hlíðarbæjar­fundurinn? Forystumenn okkar sögðu: Ríkisnefndin, er búin að ákveða, punktur, að: Fjárhæð í samningnum lækki, hækki alls ekki og að greiðslumarkið verði aflagt. Þetta eru tvö mikilvægustu atriðin í þeim „samningum“ sem standa nú yfir milli ríkis og bænda.
 
Forystumenn okkar gáfu á fundinum út þá yfirlýsingu að þeir væru búnir að gefast upp á að fá þessu breytt og þá væri einungis um tvennt að velja; fækka bændum, eða reyna að flytja út kjöt. Á fundinum kom fram að bæði sauðfjár- og mjólkurframleiðendum þótti einsýnt að með þeim hugmyndum að nýjum samningum sem kynntar voru, væri verið að hvetja til aukinnar framleiðslu sem síðar orsakaði offramleiðslu með tilheyrandi verðfalli og vandamálum sem af því hlytist.  
 
Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 2015 samþykkti 10% skerðingu hámark ef farið yrði í að skerða greiðslumarkið og við stöndum föst á þeirri samþykkt. Já, kannski, við skulum fallast á það að kakan stækki ekki. Heldur standi hún í stað og greiðslumarkið verði skert um 10%. Síðan verði í samninginn bundið að stefnt skuli að því að greiðslumarkið verði aflagt á fyrstu 7 árum næsta samnings (ef um álíka samninga verður að ræða þá). Þar með erum við komin með framtíðarsýn á það mál. Þegar sá tími rennur upp, þá verður hægt að fara í að smala greiðslumarksfénu til réttar og draga í dilka.
 
Íslenskur landbúnaður þarf stöðugleika og langtímamarkmið ekki kúvendingar einsog ríkisnefndin vill með greiðslumarkið. Alþingi Íslendinga sem tók ákvörðun um að setja greiðslumarkið á, verður að koma með lausn til að leysa það mál svo sæmd sé að. Ef á annað borð eitthvað þarf að hreyfa við því. Því þetta er í raun besta leiðin til að útjafna stuðningi. Menn rífast ekki og þvarga í þessari útjöfnun stuðnings. Borga og semja um það í frjálsum viðskiptum sem auka hagvöxt og greiða það verð sem seljandi og kaupandi koma sér saman um, báðir ánægðir! Svo má ekki gleyma því að með þessu móti geta bændur sótt sér fjármagn þegar á bjátar, því ekki sitja þeir á neinum sjóðum. Þeir sem andvígastir eru greiðslumarkinu og röklausastir, tala um að í greiðslumarksviðskiptum séu peningar að fara út úr greininni. Munum að sauðfjárrækt er ekki með eigið lokað hagkerfi. Við kaupum jú vörur og þjónustu hver af öðrum, kaupum einnig áburð, dráttarvélar og allskonar dót og drasl, af óskyldum og ótengdum aðilum, sem stunda alls ekki, landbúnað.
 
Ég hafna  því algerlega að sú eign sem greiðslumarkið er og skráð er í fyrningaskýrslu, ég sannanlega á, hef unnið fyrir og greitt, verði af mér tekið, þegjandi og hljóðalaust til þess eins að færa það öðrum, eða fella niður, án endurgjalds. Sú hraða niðurfærsla (8 ár) sem ríkisnefndin vill er algerlega óviðunandi og setur fjármál fjölmargra bænda í uppnám.
 
Landbúnaðarráðherra sagði á fundi hér í sveit í haust að hann vildi ekki sjá neinar kúvendingar varðandi þessa samninga.  Landbúnaður yrði ekki rekinn með skammtíma hugsunum. Við bændur erum, trúi ég, sammála því.
 
Ég minni á að við fengum enga, alls enga hækkun á afurðaverði í haust og verðum bara áfram með launaviðmið ríkisskattsstjóra sem eru langt undir lágmarkslaunum í þjóðfélaginu. Bilið breikkaði svo enn við þær miklu launahækkanir sem allflestir íslendingar hafa fengið á árinu. Þær launahækkanir fara svo út í verðlagið og hækka öll aðföng til okkar. Hvað gera bændur þá?
 
Hagkvæmni stærðarinnar, lítið er tekið tillit til þess þegar deila á út ríkisstuðningi meira horft til þess að minni  bú fái bara enn minna." Ja hann er nú ekki bóndi, bara með 300 rollur " sagði einn ágætur, einu sinni. Hver er bóndi? Hvað er bóndi? Eru til nauðsynlegir bændur og  minna nauðsynlegir bændur? Snýst þetta ekki um að við erum að framleiða kindakjöt með stuðningi ríkisvaldsins. Munum að helmingur sauðfjárframleiðenda, er með undir 200 fjár á fóðrum, fjölskyldubú dreift um allt land. Að gefa á garðann í  hefðbundnum húsum sem meginþorri bænda býr við, er langtum tímafrekara og kallar á miklu mun meiri viðveru en á sambærilegu búi, með nýjustu gjafatækni. Skoða þarf með hvaða hætti er hægt að styðja við breytingar á hefðbundnum fjárhúsum til nútíma hátta. Með því er hægt að minnka vinnu og viðveru  við fóðurgjöf,  yfir marga tugi % á hverja kind á einu ári og bæta um leið arðsemi búanna. 
64 ára reglan má bara alveg halda áfram, hún skiptir okkur hin litlu máli. Það eru 39 bændur í 64 ára reglunni með að meðaltali rétt um 190 ærgildi hver þannig að það er lítilræði á hvern okkar hinna en hjálpar mikið til ef  á þarf að halda. Ég veit ekki til þess að bændur geti fengið nokkurn stuðning frá sínum hagsmunasamtökum ef veikindi eða óáran, ber að garði. Hvað á að gera við þessa sem eru í 64 reglunni núna, pína þá í rekstur til að framleiða kjöt sem ekki fæst ásættanlegt verð fyrir á erlendum mörkuðum. Eins er það með 0,7 regluna, hún vinnur gegn framleiðslu sem enginn þörf er á. Of mikið magn útflutts kjöts, er selt á alltof lágum verðum, bara til að losna við það úr landi. Svo á að fara að binda það í samningum, að hvetja til aukinnar framleiðslu til útflutnings.
 
Ef teknar verða upp gripagreiðslur þá verði greidd út sama krónutala á hvern einasta grip. Ef á að framleiðslutengja stuðninginn, þá eiga allir framleiðendur að fá sama stuðning á kg óháð bústærð. Öll erum við að starfa við það sama, framleiða kindakjöt og því ólíðandi að verið sé að mismuna okkur og sundra, eftir stærð búanna. 
 
Svo er talað um byggðatengdan stuðning, þó varla hafi verið minnst á það í  Hlíðarbæ. Í því sambandi tel ég að horfa þurfi til upphafs búskapar og búskaparloka. Nýir bændur gætu sótt um, auk líffjárstuðnings, að fá greiddar beingreiðslur, að fullu eða hluta, út á  framleiðslu sína án þess að þurfa kaupa greiðslumark, fyrstu 6 árin eða svo. Háð einhverjum skilyrðum og kröfum sem settar yrðu til að tryggja að viðkomandi væri á leið í búskap. Stuðningurinn gæti varað að fullu fyrstu tvö árin og síðan þrepaður niður. 
 
Í hinn endann að bændur geti farið eftirlaun og með svipaða upphæð í eftirlaun og aðrir landsmenn fá. 
Eftirlaun sauðfjárbónda sem hefur verið í fullu starfi til sjötugs og samanlagður aldur og starfsaldur er kominn í 110 ár er eitthvað um 80 þúsund krónur á mánuði. Þessu verður að breyta. Ef þú ert tryggur með eftirlaun til framfærslu með sama hætti og aðrir íslendingar, þá þarftu kannski ekki eins hátt verð fyrir jörðina. Það er að segja ef hún er þá seljanleg þegar að þeim vendipunkti kemur.  Þetta gæti létt kynslóðaskiptin. 
 
Hluti byggðastuðnings gæti líka verið árleg greiðsla á hvert lögbýli og stuðningurinn miðaðist við það starfshlutfall sem þar væri. Hámarksstyrkur yrði miðaður við að tvö ársstörf væru á lögbýlinu. Ekki yrði horft á framleiðslumagn, né hver launakostnaður er. Heldur að þarna sé um að ræða fjölskyldurekstur og fasta búsetu. Í framhaldi af því yrði svokölluðu endurgjaldi breytt og það hækkað til samræmis við sambærilega hópa í þjóðfélaginu. Það myndi vonandi leiða til þess að með tímanum gætu bændur líka farið á eftirlaun með sambærilegum hætti og aðrir íslendingar. Fleira þyrfti að koma þar inn t.a.m. þyrfti að lækka tryggingagjald verulega  svo fenginn stuðningur fari ekki beina leið í ríkissjóð aftur. 
Í þessa byggðatengdu þætti væri ekki óeðlilegt að ríkisvaldið kæmi inn í samninginn með aukið fjármagn. 
 
Ragnar Þorsteinsson
Sýrnesi Aðaldal 
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...