Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hræðslan við pöddur
Skoðun 6. júlí 2017

Hræðslan við pöddur

Höfundur: Vilmundur Hansen
Það er með ólíkindum hvað mörgum er illa við pöddur, hvaða nafni sem þær nefnast. Köngulær, geitungar, blaðlýs, ranabjöllur, humlur og svo ég tali nú ekki um snigla. 
 
Öll þessi dýr virðast í huga marga vera hræðileg óargakvikindi sem ekki mega sjást í görðum og hvað þá inni í húsum. Pöddunum skal útrýmt hvað sem það kostar.
 
Á hverju einasta sumri leggst annars nokkuð rétthugsandi og heilbrigt fólk í hernað sem hefur að markmiði að drepa sem allra mest af pöddum hvar sem til þeirra næst, hvort sem það er innan eða utandyra. 
 
Öllum brögðum er beitt og ekkert eitur er svo eitrað að ekki megi nota það í baráttunni við þessa óværu. Þetta gerist þrátt fyrir að flestir viti að öll þessi dýr þjóni tilgangi í náttúrunni, hvort sem það er að frjóvga blóm eða vera fæða fyrir önnur dýr. 
 
Smádýrin sem spretta upp á sumrin laðast flest að plöntum og eru fylgidýr aukins áhuga á garðrækt og hækkandi lofthita. Blóm og pöddur eru óaðskiljanleg og annað fæst ekki þrifist án hins. Pöddurnar frjóvga blómin og blómin eru fæða fyrir plönturnar. 
 
Einsleitt plöntuval í ræktun veldur því að ákveðnar tegundir padda fjölga sér mikið á skömmum tíma enda framboð á fæðu mikið. Yfirleitt ganga þessi blómaskeið paddanna yfir á nokkrum vikum og plönturnar jafna sig í flestum tilfellum aftur. 
 
Humlur og ánamaðkar eru líklega allra gagnlegustu smádýrin sem finnast í garðinum. Ánamaðkar flýta rotnun og grafa göng í jarðveginum sem vatn og næringarefni streyma um.
 
Fæstum er illa við ánamaðka enda fer lítið fyrir þeim og þeir sjást sjaldan nema í rigningu þegar þeir koma upp á yfirborðið til að drukkna ekki. 
 
Annað mál gildir um humlur og margir hreinlega hræddir við þær þótt sárasaklausar séu. Á Íslandi finnast fjórar eða fimm tegundir af humlum og ættum við að fagna hverri tegund. 
 
Víða um heim hefur býflugum fækkað gríðarlega og það mikið að til vandræða horfir í ávaxtaræktun. Býflugur finnast ekki villtar á Íslandi og margir rugla þeim saman við humlur enda skyldar tegundir og sinna báðar frjóvgun blóma. Haldi býflugum áfram að fækka vegna notkunar á skordýraeitri er raunveruleg hætta á að margar ávaxtategundir hverfi af markaði. 
 
Af öllum smádýrum sem heimsækja garðinn eru stórir sniglar að öllu jöfnu óvinsælastir. Sniglar eru hægfara, draumleit og værukær dýr sem halda sig í skugganum og líður best í röku loftslagi. 
 
Þeim líkt og börnunum finnst jarðarber og ferskt salat gott og kunna sér ekki magamál komist þeir í slíkt sælgæti. Þeir eru einnig sólgnir í bjór og hefur það orðið mörgum sniglum og mönnum að falli.
 
Séu sniglar skoðaðir nánar sést að þeir eru ótrúlegir og fallegir þegar þeir líða áfram á kviðlægum fætinum og teygja augnfálmarana rannsakandi út í loftið. Ólíkar tegundir lifa á landi, í sjó og ferskvatni og þeir eru til með og án kuðungs. Sumar tegundir eru tvíkynja sem þýðir að hittist tveir sniglar undir salatinu geta þeir frjóvgað hvor annan eða sjálfan sig séu þeir einir á ferð.  
Pöddur eru æði.

 

Skylt efni: Pöddur | skordýraeitur

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...