Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Gengið til samninga við ríkið
Mynd / BBL
Skoðun 23. ágúst 2018

Gengið til samninga við ríkið

Höfundur: Oddný Steina Valsdóttir
Nú eru viðræður ríkis og bænda um endurskoðun sauðfjársamningsins nýlega hafnar. Þar er öllum ljós forsaga málsins.  Hrun í afurðaverði hefur sett bændur í þá stöðu að kalla eftir breytingum á ákveðnum þáttum samnings fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Málið hefur átt sér langa forsögu og mörgum í fersku minni þær aðgerðir sem voru til umræðu síðastliðið haust. Þá féll ríkisstjórnin og engum aðgerðum var komið í verk.
 
Niðurstaðan varð sú að 30–40% hrun í afurðaverði var veruleiki okkar bænda.  Heildartap greinarinnar haustið 2017 var um 2.000 milljónir ef borið er saman við það afurðaverð sem var árið 2015. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir með Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra tók til starfa 29. nóvember. Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar var að bregðast við stöðu bænda með því að koma með fjármagn á aukafjárlögum.  Það kom sér vel fyrir marga bændur og ber að þakka velvilja ráðamanna.  Hins vegar var nokkuð umdeilt hvernig útfærslu var beitt við að útdeila fjármunum – þar var bændum skipt í hópa sem auðvitað veldur óánægju og sundrungu.  
 
Afurðaverðið er forgangsmál
 
Forgangsmál Landssamtaka sauðfjárbænda frá því að þessi staða varð ljós, eða allt frá því síðla vetrar 2017, hafa snúist um þá tekjustoð sem sauðfjárræktin byggir á, þ.e. afurðaverðið. Allar aðgerðir sem við höfum lagt til og talað fyrir þennan tíma hafa snúist um að byggja undir þessa stoð. 
 
Við höfum sagt mikilvægt að skoða umhverfi og þann ramma sem afurðastöðvarnar búa við sem leitt geti til hagræði og aukinnar skilvirkni í ferlinu. Þá höfum við lagt áherslu á aðgerðir sem aflétta framleiðsluspennu og þrýstingi á markað. Í því samhengi er þó mikilvægt að taka fram að samtökin hafa metið æskilega fækkun vera í kringum 8%. Við byggjum það mat á þeim gögnum sem fyrir liggja um ásetning, birgðastöðu og sölutölur. Við u.þ.b. 12% samdrátt í framleiðslu metum við vera jafnvægispunkt á milli framleiðslu og sölu á betri markaði. Í umræðunni vill brenna við að fækkunarþörf í greininni sé stórlega ofmetin. 
 
Væntingar Landssamtaka sauðfjárbænda voru þær að ríkisstjórnin kæmi á ákveðnum kerfisbreytingum, í samvinnu við bændur, sem myndu stuðla að bættum hag greinarinnar. Þá yrði fundin lausn á því ójafnvægi sem ríkti á milli innlendrar sölu og þess hluta framleiðslunnar sem er fluttur út.
 
Mikill meirihluti fyrir samþykktum tillögum um aðgerðir
 
Það má segja að við leggjum af stað um miðjan janúar með okkar tillögur. Þær mótast fram eftir vetri bæði með samtali við ráðherra og ekki síður með samtali milli bænda. Á aðalfundi LS í byrjun apríl eru samþykktar þær aðgerðir sem bændur vilja að farið verði í fyrir haustið.  Auðvitað hafa aðilar ólíka skoðun á þessum tillögum sem fram komu – en bændur komu frá fundinum með mikinn meirihlutastuðning fulltrúa við þessar tillögur.
 
Áhersla á að ákvörðun um útfærðar aðgerðir lægju fyrir í vor
 
Áhersla samtakanna var að ákvörðun um útfærðar aðgerðir ættu að liggja fyrir strax í vor. Ráðherra fól Samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga að fjalla um þessar bráðaaðgerðir.  Sú nefnd tók til starfa í lok apríl og skilaði af sér sínum niðurstöðum 3. júlí.  Í framhaldi af því var farið að skipa í samninganefnd ríkis og bænda. Þeirri vinnu lauk ekki fyrr en 10. ágúst og þá loksins var hægt að boða formlegan fund þar sem til umræðu eiga að vera bráðaaðgerðir vegna stöðu sauðfjárbænda.
 
Forsendubrestur ástæða beiðni um að taka upp samning
 
Allar forsendur í þessu máli voru ljósar þegar LS sendi ráðherra minnisblað um aðgerðir og fyrstu tillögur til þessarar ríkisstjórnar þann 20. janúar sl. Ráðherra hefur bent á að það taki tíma að vinna hlutunum farveg í stjórnsýslunni. Sérstaklega þegar um er að ræða beiðni um að taka upp samning sem nýlega var farið að vinna eftir. Auðvitað er það engin óskastaða – en því skal haldið til haga að það varð forsendubrestur sem gerði það að verkum að ekki var hjá því komist að grípa inn í samninginn. 
Í þessu samhengi er einnig rétt að líta til þess sem nágrannalöndin hafa gert til að bregðast við áföllum þar í landi. Stjórnvöld bæði í Svíþjóð og Noregi hafa þegar tekið ákvörðun um að koma til móts við landbúnaðinn til að bregðast við forsendubrestum.
 
Tillögur bænda fá hljómgrunn 
 
Það er kannski ekki til mikils að rýna í baksýnisspegilinn í þessum efnum. Fram undan er að eiga samtal við stjórnvöld um leiðir til að höndla stöðuna fyrir haustið.  Góðu fréttirnar eru að þær aðgerðir sem við bændur höfum lagt til fá hljómgrunn í tillögum Samráðhópsins. Það er því hægt að vinna hratt og vel út frá þeim forsendum – en ljóst er að þær aðgerðir sem þarf að fara í kalla á breytingar á lögum og reglugerðum, það hefur legið fyrir allan tímann. Með því hugarfari förum við í samningarviðræður, lausnamiðuð og einbeitt í að ná fram umbótum sem létta stöðuna. Við skynjum vilja hjá nýskipaðri samninganefnd til að ná árangri. Á því byggjum við en verðum að vinna hratt, það er ekki í boði að draga niðurstöðu varðandi bráðaaðgerðir fram eftir hausti. Það er ljóst að staðan er þröng og tíminn er að renna út. Því er mikilvægt að bændur hafi hugfast að greinin hefur í öllu falli samning sem gildir til 2026. 
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...