Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ekkert vatnsrennsli í Grenlæk. Myndin var tekin við Stórafoss í júní síðastliðnum.
Ekkert vatnsrennsli í Grenlæk. Myndin var tekin við Stórafoss í júní síðastliðnum.
Mynd / SOE, LBE
Lesendarýni 7. september 2016

Gegndræpar röksemdafærslur Sveins

Höfundur: Steinn Orri Erlendsson verkfræðinemi. Leifur Bjarki Erlendsson verkfræðingur.
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins, ferð þú, hinn virðulegi fyrrverandi bjúrókrati Sveinn Runólfsson, hæstvirtur fyrrverandi sandgræðslustjóri - eða var það fyrrverandi landgræðslustjóri? - mikinn og vænir m.a. annan undirritaðan um að fara rangt með staðreyndir varðandi vatnasvæði Skaftár. Óhætt er að segja að þeir varnargarðar sem þú, meðal annarra, hefur hlutast til við að reisa í skjóli embættis, hafi fram til þessa haldið vatni betur en gegndræpar röksemdafærslur þínar.
 
Hér ætlum við þó ekki að fara út í það hversu erfitt þú virðist eiga með að færa rök fyrir máli þínu og hvernig þú vitnar helst ekki í neitt nema greinargerðir eftir sjálfan þig, því það kemur þessu máli ekki við. 
Við ætlum heldur ekki að ræða það hvernig þú erfðir þitt þaulsetna embætti í beinan karllegg, því það kemur þessu máli ekki við.  
 
Við ætlum ekki að minnast neitt á þá hræsni, að undir þinni stjórn veitti Landgræðslan fólki landgræðsluverðlaun fyrir að dreifa lúpínu í gamburmosann í Eldhrauninu, því það kemur þessu máli ekki við.
 
Þar að auki ætlum við ekki að fara út í framgöngu Landgræðslunnar, í þínu forsvari hvað varðar ríkisjarðir t.a.m. í Meðallandi, því það kemur þessu máli ekki við.
 
Við ætlum alls ekki að velta fyrir okkur mögulegum ástæðum þess að þú, Sveinn, nýtir hvert tækifæri til þess að hagræða sannleikanum eftir þinni hentisemi og duttlungum – þegar kemur að vatnamálum Skaftár, því það kemur þessu máli ekki við. 
 
Eða hvað? Er það kannski einmitt það sem þetta mál snýst um? Hvað liggur raunverulega að baki því að þú, fyrrverandi embættismaður, finnur þig knúinn til að skrifa grein eftir grein stútfulla af staðreyndavillum? Liggur eitthvað meira að baki en yfirlýstur áhugi þinn á gamburmosa? Er eitthvað sem þú ert ekki að segja okkur, Sveinn? 
 
Skelkaður fyrrverandi embættismaður?
 
Þökk sé Herði Davíðssyni og öðrum baráttumönnum fyrir náttúrulegu rennsli Skaftár út á Eldhraunið fengum við bræðurnir loksins tækifæri til að leggja höfuðið í bleyti, í þeim tilgangi að reyna að átta okkur á því hvað veldur?
 
Þú ert hugrakkur maður, Sveinn, og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur (og þó, kannski ekki yfir höfuð). Sjálfskipaður riddari almúgans og „komandi kynslóða“, beislandi jökulvötn þar sem tilganginum virðist vera meira en velkomið að helga meðalið. Það eru ekki margir sem geta fetað í þín spor. 
Ómerkileg skrif þín um ólöglegar vatnaveitingar bænda í kapp við tvær fjársterkar ríkisstofnanir og pólitíska yfirburði „örfárra hagsmunaaðila“ gagnvart þér og öðrum fyrrverandi embættismönnum, er í besta falli vandræðaleg.
 
Eftir að hafa hlustað á veðurfræðinga, rætt við gamla bændur og aflað okkur heimilda, höfum við áttað okkur á einu. Við virðumst hafa aðeins mismunandi hugmyndir um staðreyndir. Staðreyndir geta verið svo flóknar. Eða hvað?
 
Getur verið að það sé hræðsla sem er kveikjan að skrifum þínum? Þú ert án efa greindur maður, Sveinn, og eflaust hinn ágætasti. En í ljósi þeirra gríðarlega alvarlegu og óafturkræfu afleiðinga sem staðhæfingar þínar, skrif og vinnubrögð sem opinber embættismaður og ráðgjafi síðastliðna áratugi hafa valdið, þarf ekki að koma á óvart að þú sjáir hag þínum best borgið með þessum veikburða tilraunum til að endurskrifa söguna.
 
Hjákátleg tilraun til sögufölsunar
 
Við ætlum svo sem ekki að elta ólar við þig eða reka sérstaklega ofan í þig allar þær staðreyndavillur og augljóst skeytingarleysi á staðháttum, rennslisgögnum og -líkönum því það „yrði of langt að telja upp“. Hins vegar viljum við, þar sem þér finnst sniðugt að fara 60 ár aftur í tímann máli þínu til stuðnings, benda þér á eftirfarandi. 
 
Brandur Stefánsson vegavinnuverkstjóri greinir frá því í héraðsritinu Dynskógum að Árkvíslar hefðu verið stíflaðar árið 1949. Varð það valdur að minnkandi rennsli í Grenlæk og Tungulæk. Fór það ekki framhjá bændum og leituðu þeir til Alþingis til lausna á þeim vanda. Sigurjón Rist og Jón Jónsson voru síðar fengnir til að ráða fram úr vandanum. Hluti af þeirra faglegu ráðgjöf var að veita skyldi hluta Skaftár út á Eldhraunið gegnt Skál árið 1956. Þetta veistu.
 
Bróðurpartur af pistli þínum fer í að fjalla um ástand lindalækjanna frá 1949–1956 og hvað lítið vatn var í Tungulæk á þessum árum. Það var s.s. vegna stíflugerðar vegagerðarinnar árið 1949.  Að þú talir einungis um vatnsleysi í lindalækjunum á þessum árum og sleppir forsögunni er einstaklega hjákátleg tilraun til sögufölsunar.
 
Skoðanir þínar 
 
Í grein þinni segir þú orðrétt að það sé „... verið að leysa einn umhverfisvanda fyrir örfáa einstaklinga með því að skapa annan vanda og náttúruspjöll er varða íbúa héraðsins og komandi kynslóðir“. Það er svo ótal margt rangt við þessa fullyrðingu. Hvar eigum við að byrja? Það sem þú talar um sem náttúruspjöll er ekkert annað en eðlilegt flæði jökulár út á hraun sem rann fyrir um 230 árum. Stíflugerð ykkar félaganna spornar við þessu náttúrulega flæði. Í ljósi skrifa þinna undanfarið virðist þú loks hafa áttað þig á því að þessi stíflugerð opinberra aðila eru hin raunverulegu náttúruspjöll.
 
Framganga þín virkar sem einhvers konar sorgleg blanda af Hróa hetti og Don Kíkóta. Reisandi stíflur til að beisla ótemjandi jökulvötn í skjóli embætta ríkisvaldsins, undir þeim formerkjum að þú, háttvirtur fyrrverandi landgræðslustjóri, sért einhvers konar útvalinn talsmaður náttúrunnar og almennings? Svo ekki sé talað um „komandi kynslóðir“, en hag þeirra þykist þú bera fyrir brjósti. Við erum komandi kynslóðir, Sveinn. Þú ert holdgervingur gamalla tíma og ættir að láta af sleggjudómum. Tíma þínum er eflaust betur varið í að hripa niður „aðdraganda og ótrúlega atbuðarás áveituframkvæmda í Eldhrauni í sumar“. En hvað sem þú gerir, gerðu sjálfum þér þann greiða að láta af þessum aumkunarverðu tilraunum til sögufalsana og rógburðar. Í þessu máli liggja fyrir staðreyndir og gögn máli okkar til stuðnings, og því koma skoðanir þínar þessu máli ekki við.
 
Auk þess leggjum við til, að „embætti“ fyrrverandi landgræðslustjóra verði lagt í eyði.
 
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...