Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fardagar
Mynd / BBL
Skoðun 28. febrúar 2019

Fardagar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Í byrjun desember 1999 héldu Landssamtök sauðfjárbænda aðalfund sinn í Bændahöllinni. Á þessum fundi steig ungur borgfirskur sauðfjárbóndi sín fyrstu skref í félagsmálum bænda. Þessi fundur var eftirminnilegur enda mikið tekist á um væntanlegan sauðfjársamning, m.a. um nýja gæðastýringu í sauðfjárrækt. 

Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, ávarpaði fundinn og sagði meðal annars: „… að afkoma sauðfjárbænda væri óásættanleg. Gæðastýring væri grundvöllur framfara og afkomubaráttu í framtíðinni. Jafn tekjulaus grein og sauðfjárræktin er, hefur ekki burði til að kaupa framleiðslurétt.“ Kempurnar Ari Teitsson, þá formaður BÍ og Aðalsteinn í Klausturseli, þá formaður LS, voru húðskammaðir fyrir of litla fjármuni, of miklar breytingar og ósanngjarna skiptingu á ríkisstuðningi.

Það er vafalítið að þessi fundur hreyfði verulega við félagsmálaáhuganum hjá mér þótt ég væri langyngstur fundarmanna. Nokkrum mánuðum síðar hringdi ég svo í mann sem ég hafði aldrei áður talað við og sagði: „Þú ert Haraldur Benediksson, er það ekki?  Við erum víst að fara sem fulltrúar Borgfirðinga á Búnaðarþing.“ Í mars 2001 sitjum við „drengirnir“ okkar fyrsta Búnaðarþing og síðan þá erum við báðir búnir að vera formenn Bændasamtaka Íslands.

Í mörg horn að líta

Miklar breytingar hafa orðið í íslenskum landbúnaði frá þessum tíma. Tæknibreytingar hafa orðið í öllum daglegum verkefnum bænda, bú hafa stækkað og þeim hefur einnig fækkað. Enn fremur hefur verið hörð umræða um matvælaverð, Evrópusambandsumsókn auk þess sem eldgos höfðu veruleg áhrif á landbúnað á sumum svæðum.

Frá því að ég tók við sem formaður Bændasamtakanna í mars 2013 hefur svo sem ekki verið nein lognmolla. Það hefur verið harkalega tekist á um tollamál, matvælaverð,  innflutning á hráu ófrosnu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum. Við höfum farið í gegnum umræðu um dýravelferð og erfitt verkfall dýralækna. Menntun í landbúnaði og málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hafa einnig verið eitt af hagsmunamálum BÍ.

Innri málefni samtakanna hafa einnig verið í deiglunni. Afnám búnaðargjaldsins og upptaka félagsgjalda hefur kallað á endurskipulagningu í rekstri hagsmunafélaga bænda. Það er eðlilegt að skoða reglulega hvernig hagræða megi í félagskerfi bænda og auka skilvirkni.

Gerð búvörusamninganna, sem tóku gildi 2017, var stórt verkefni sem reyndi mikið á samtök bænda og kallaði á mikil skoðanaskipti. Þeir voru umdeildir, bæði meðal almennings og bændanna sjálfra.  Aldrei áður hafa einstaka samningar milli ríkis og bænda verið afgreiddir samtímis og aldrei áður til tíu ára. Slíkt bauð upp á tækifæri til að horfa á heildarmyndina yfir starfsskilyrði landbúnaðarins. Því miður varð markaðsbrestur í sölu á lambakjöti sem hefur valdið miklum erfiðleikum í greininni síðustu tvö ár. Margt bendir þó til að þar sjáum við fram á betri tíma.

Til viðbótar við þetta hefur náttúran minnt reglulega á sig, fé hefur fennt í hríðarbyljum í sumarlok, tún hafa kalið í stórum stíl í heilu héruðunum og íslenskir bændur hafa stundað fóðuröflun fyrir kollega sína á Norðurlöndum.

Nýr formaður tekur við keflinu

Eftir viðburðarík ár er komið að leiðarlokum hjá mér í forystu fyrir bændur. Fardagar voru á síðustu öld þekkt hugtak um þann tíma að vori eða snemmsumars þegar menn skyldu flytjast búferlum af einni jörð yfir á aðra. Það mætti líkja því við að nú sé komið að snemmbúnum fardögum hjá mér.

Um næstu mánaðamót mun ég stíga til hliðar sem formaður Bændasamtakanna. Ástæðan er að ég hef verið ráðinn svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi og mun ég hefja þar störf í byrjun apríl, með aðsetur í Borgarnesi. Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, bóndi í Svartárkoti í Bárðardal, varaformaður Bændasamtakanna, mun taka við sem formaður. Fyrsti varamaður, Guðrún Lárusdóttir í Keldudal, mun koma inn í stjórnina. Guðrún í Svartárkoti hefur um árabil verið formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga og sýnt þar forustu og frumkvæði sem sýnir sig ágætlega í félagsþátttöku á svæðinu.

Ég hafði sjálfur forgöngu um það 2017, á 180 ára afmæli samtaka bænda á Íslandi, að setja á fót starfshóp um aukna félagsþátttöku kvenna innan samtakanna. Það er því einkar ánægjulegt að í fyrsta sinn í rúmlega 180 ár skuli kona gegna formennsku og kynjahlutfallið í stjórninni lagast einnig við innkomu varamanns.

Það eru í dag miklir umbrotatímar í íslenskum landbúnaði eins og verið hefur undanfarin ár. Margt er fram undan. Endurskoðun búvörusamninga, efling félagsþátttöku í Bændasamtökunum og stanslaus barátta við að vernda sérstöðu og starfsskilyrði íslensks landbúnaðar eru dæmi um verkefni sem liggja fyrir. Það er því síður en svo auðvelt fyrir mig að taka ákvörðun um að hverfa frá við þessar aðstæður og mér þykir leitt ef einhverjir verða fyrir vonbrigðum. Ný tækifæri koma ekki alltaf á heppilegum tíma.

Eins og við öll vitum er enginn ómissandi og Bændasamtökin búa yfir miklum mannauð hvort sem um er að ræða starfsfólk, stjórnarmenn eða trúnaðarmenn í röðum bænda alls staðar í félagskerfinu. Þeim öllum treysti ég vel til að vinna áfram ötullega að þeim verkefnum sem eru í gangi.

Munum eftir bændum framtíðarinnar

Þessi ár mín í forystu fyrir bændur hafa verið lærdómsrík og skemmtileg. Oft hefur blásið hressilega á móti í umræðu um landbúnaðarmál en alltaf er jafn ánægjulegt að sjá hvað velvild almennings er mikil gagnvart íslenskum bændum. Bændur sjálfir þurfa hins vegar að huga að eigin orðræðu og hvetja til samstöðu og virðingar sín á milli. Innanbúðarátök um uppbyggingu stuðningskerfisins eru of veigamikil á kostnað baráttu fyrir hærra verði á sjálfum afurðunum. Bændur dagsins í dag þurfa að hafa þroska til að setja sína eigin hagsmuni til hliðar og undirbúa jarðveginn fyrir bændur framtíðarinnar.  

Þó svo að sauðfjársamningurinn frá árinu 2000 hafi verið umdeildur og formenn BÍ og LS hafi fengið það óþvegið á sínum tíma hefur hann elst ágætlega. Oft er það nefnt á fundum að þetta hafi verið tímamótasamningur og sumir segja einfaldlega að þetta sé besti samningur sem gerður hafi verið.

Allan þann tíma sem ég hef starfað að félagsmálum bænda hef ég kynnst mörgu fólki úr öllum greinum samfélagsins, með mismunandi skoðanir á öllu því sem tengist landbúnaði. Öllu þessu fólki vil ég þakka gott samstarf og hressileg skoðanaskipti. Öllu samstarfsfólki mínu, íslenskum bændum og framvarðasveit landbúnaðarins þakka ég kærlega fyrir frábært samstarf.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...