Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Samdráttur í magni og veltu hjá fiskmörkuðum
Fréttir 13. febrúar 2018

Samdráttur í magni og veltu hjá fiskmörkuðum

Höfundur: Kjartan Stefánssson

Verð á fiskmörkuðum lækkaði umtalsvert á síðasta ári. Heildarsalan var samt þokkaleg í tonnum talið þótt hún hafi ekki náð metárinu 2016. 

Verðmyndun á fiski til útgerða og sjómanna er flókin hér á landi en segja má að fjögur kerfi séu í gangi sem ráða aflaverðmæti skipa. 

Í fyrsta lagi er fiskur sem landað er beint til vinnslu. Fiskverð er þá ákveðið í samningum fiskvinnslu/útgerðar og áhafnar en taka þarf mið af lágmarksverði. Hér er í flestum tilvikum um skip að ræða þar sem útgerð og fiskvinnsla er í eigu sama aðila. 

Í öðru lagi er fiskur sem seldur er á fiskmörkuðum innanlands en þar ræður framboð og eftirspurn verði.
Í þriðja lagi er sjófrystur afli sem er í raun fullunnin afurð sem seld er beint á markaði erlendis. Verð á afurðunum erlendis ræður því hvað kemur til skipta milla útgerðar og áhafnar.

Í fjórða lagi er fiskur sem landað er í gáma og seldur óunninn á fiskmörkuðum erlendis. 
Hér á eftir verður fjallað um þróunina á fiskmörkuðum landsins á síðasta ári.

Mest í beinni sölu

Stærstum hluta botnfiskaflans og flatfiskaflans er landað beint til vinnslu innanlands en fiskmarkaðir og sjófrysting koma þar á eftir. Lítill hluti fer óunninn í gáma erlendis. Ætla má að um 16–17% af þorski sem íslensk skipa veiða rati inn á fiskmarkaðina ár hvert en mun hærra hlutfall af ýsu, eða 35–36%. Þá er hátt hlufall af hlýra, steinbít, skötusel og keilu selt á fiskmörkuðum svo dæmi sé tekið.

Framfaraspor

Fiskmarkaðir á Íslandi eiga ekki langa sögu. Fyrsta uppboðið á fiski fór fram í Hafnarfirði í júní 1987. Fiskmarkaðir þróuðust hratt og tilkoma þeirra var mikil framför. Verð þar endurspeglar markaðsverð, þeir stuðla að sérhæfingu í vinnslu og hafa leitt til aukinnar verðmætasköpunar.

Í fyrstu var fiskur boðinn upp á gólfinu en nú eru uppboðin rafræn og fara fram alla virka daga. Um 200 til 300 kaupendur bjóða í fiskinn í fjarskiptum. Reiknistofa fiskmarkaða hf. annast uppboðin og tengir 13 fiskmarkaði á 26 stöðum í eitt uppboðsnet. 

Stærstu fiskmarkaðirnir eru Fiskmarkaður Íslands hf. (FMSÍ) og Fiskmarkaður Suðurnesja hf. (FMS). FMSÍ rekur markaði á Arnarstapa, Grundarfirði, Ólafsvík, Reykjavík, Rifi, Skagaströnd og Þorlákshöfn.

FMS samanstendur af rekstrarstöðum í Sandgerði, Grindavík, Hafnarfirði, Ísafirði og Höfn í Hornafirði. Einnig er FMS 65% eigandi í Fiskmarkaði Siglufjarðar. 

Samdráttur í magni og veltu

Í heild nam salan á fiskmörkuðum landsins tæpum 106 þúsund tonnum á síðasta ári og söluverðmætin voru um 21,5 milljarðar króna, samkvæmt tölum sem Bændablaðið fékk frá Reiknistofu fiskmarkaða. Þetta er heldur minna magn en selt var á árinu 2016, sem var metár, en þá voru seld 113 þúsund tonn og söluverðmætin 26,3 milljarðar. 

Salan á síðast ári dróst saman um 7,7 tonn, eða um 7%. Þess má geta að árið 2015 voru seld rúm 104 þúsund tonn á mörkuðum þannig að salan 2017 er heldur meiri en þá. 

Salan í verðmætum á síðasta ári dróst saman um 4,8 milljarða frá árinu 2016, eða um 18%, mun meira hlutfallslega en magnið, enda hefur meðalverð á fiski lækkað umtalsvert.

Þorskurinn um helmingur verðmæta

Þorskur var langmikilvægasta tegundin á fiskmörkuðum árið 2017 sem jafnan áður. Seld voru 49.116 tonn af þorski fyrir 11,8 milljarða króna sem er 404 tonna aukning frá fyrra ári. Þorskur er 46% af sölu markaðanna í tonnum talið en 55% í verðmætum. Að auki voru seld 1.857 tonn af undirmálsþorski fyrir 271 milljón króna.

Ýsan kemur næst á eftir þorskinum að mikilvægi en seld voru um 15 þúsund tonn af henni fyrir um 4,3 milljarða í fyrra. Ýsan er 14% af sölu fiskmarkaðanna í magni en 18% í verðmætum.

Þótt salan hafi aukist í magni í þorski og ýsu dróst hún mun meira saman í öðrum tegundum, svo sem makríl, gullkarfa og steinbít.

Meðalverð lækkar

Meðalverð á öllum tegundum á fiskmörkuðum hefur sveiflast nokkuð síðustu árin en það fór hæst í 285 krónur á kíló árið 2011. Það var 231,44 krónur árið 2016 og 2017 fór meðalverðið niður í 202,88 krónur og hafði því lækkað um 28,56 krónur milli ára, eða um 7,5%. 

Meðalverð á þorski á fisk­mörkuðum var 278,75 krónur á kíló árið 2016 en 241 króna árið 2017. Lækkunin nemur um 13,5% milli ára. 

Ýsan lækkaði einnig í verði, fór úr 285,7 krónum á kíló árið 2016 í 258,7 krónu á síðasta ári. Meðalverð ýsunnar lækkaði þannig um rúm 9% milli ára. 

Fleiri mikilvægar fisktegundir lækkuðu í verði. Almennt séð má rekja þessa lækkun til breytinga á gengi íslensku krónunnar og markaðsverðs á fiskafurðum erlendis.

Kennir ýmissa grasa

Í sölulista Reiknistofu fiskmarkaða kennir ýmissa grasa ef svo má að orði komast. Alls er þar um 87 tegundir og afurðir að ræða, sumar tegundir seldust aðeins í örfáum kílóum eins og hákarl, búri og trjónukrabbi. Inn á fiskmarkaðina rataði einnig svo dæmi sé tekið harðfiskur, flök af þorski og bleikju og fleiri tegundum, og að sjálfsögðu gellur, hrogn og lifur.

Frekar erfitt ár

„Síðasta ár var fiskmörkuðum frekar erfitt vegna verkfalls sjómanna. Einnig hafði hátt og stöðugt gengi mikil áhrif og jafnframt sá tími sem það tók verkendur að vinna aftur markaði erlendis,“ sagði Ragnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Suðurnesja hf. (FMS), í samtali við Bændablaðið er hann var spurður um rekstur fiskmarkaða á síðasta ári.

Ragnar sagði að þegar rúmlega tveggja mánaða verkfalli hefði lokið seint í febrúar hefðu komið sterkir mánuðir. „Samt vantaði FMS ein fjögur þúsund tonn í sölu miðað við árið 2016. Munaði þar um rúmlega 2 þúsund tonna minnkun í makríl. Einnig var stór kvóti í Sandgerði seldur og fór sá fiskur út af markaðnum fyrir vikið,“ sagði Ragnar.

Fiskmarkaðir í vörn

„Fiskmarkaðir eru í mikilli vörn þessi misserin. Er það út af samþjöppun í greininni og þeim áhrifum sem ofsett veiðigjöld virðast vera að hafa. Töluvert fleiri virðast vera tilbúnir að selja sig út núna vegna erfiðari aðstæðna. Fiskmarkaðir verða þó alltaf til og eru flest stærri kvótafyrirtæki að selja hjá þeim allan fisk sem ekki fer í vinnslu hjá þeim.

Ekki er þó víst að hægt verði að reka alla fiskmarkaði í framtíðinni eins og gert hefur verið. Hugsanlega verður að loka einhverjum stöðum og það ferli er þegar hafið,“ sagði Ragnar.

Borga hæsta verðið

Atvinnuvegaráðuneytið hefur látið gera úttekt á starfsemi fiskmarkaða með tilliti til úthlutunar leyfa til þeirra og hvort þeir séu að uppfylla þær reglugerðir sem eru í gildi. Einnig hefur ráðherra boðað nýtt frumvarp um fiskmarkaði á vorþingi.

„Spurningin er hvernig fiskmarkaðir eru hugsaðir af stjórnvöldum inn í verðlagskerfi á sjávarafurðum og hvernig hægt er að tryggja hráefni til sölu á þeim í framtíðinni fyrir þá verkendur sem ekki hafa kvóta.

Þeir aðilar eru afar mikilvægir í keðjunni til að þróa og selja íslenska fiskinn. Oft hafa þeir verkendur sem versla eingöngu á fiskmörkuðum verið frumkvöðlar í nýjungum. Þeir hafa jú oftast borgað hæsta verðið fyrir fiskinn og því leitað leiða til að gera sem mest verðmæti úr honum,“ sagði Ragnar Kristjánsson.

Skylt efni: Fiskveiðar | fiskmarkaðaur

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...