Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Stefnumótun hrossaræktarinnar
Fréttir 20. desember 2016

Stefnumótun hrossaræktarinnar

Laugardaginn 3. desember sl. var haldin ráðstefna í hrossarækt sem bar yfirskriftina Íslensk hrossarækt í 100 ár og fór hún fram í reiðhöll hestamannafélagsins Spretts í Kópavogi. 
 
Markmið ráðstefnunnar var í raun tvíþætt; annars vegar að fara yfir sögu og þróun hrossaræktarinnar og stöðuna í dag og hins vegar að líta fram á veginn; ræða þróun ræktunarmarkmiðsins og dómstarfa á kynbótasýningum. Ráðstefnan samanstóð af fyrirlestrum sem tengdust markmiðum dagsins og hópavinnu þar sem fundarfólk var virkjað til þátttöku. Það voru Félag hrossabænda, Háskólinn á Hólum, Matvælastofnun, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Sögusetur íslenska hestsins sem stóðu að ráðstefnunni.
 
Í ár eru tímamót í íslenskri hrossarækt í ýmsum skilningi. Það eru 110 ár frá því að fyrsta kynbótasýningin var haldin, 100 ár frá fæðingu Sörla 71 frá Svaðastöðum sem er einn helsti ættfaðir íslenska hestsins í dag, 30 ár frá upptöku BLUP-kerfisins, 25 ára afmæli nútíma skýrsluhalds og í ár er 100 ára afmælisár Gunnars Bjarnasonar, fyrrv. hrossaræktarráðunautar, brautryðjanda sýningarhalds og markaðssetningar á íslenska hestinum. Það var því vel við hæfi að halda upp á þessi tímamót. Dagurinn byrjaði með fyrirlestrum sem þóttust takast afar vel.
 
Kristinn Hugason, forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins, var fyrstur á mælendaskrá og fór yfir sögu íslenskrar hrossaræktar og notkunar hestsins í 100 ár í yfirgripsmiklum fyrirlestri. Þá steig Sveinn Ragnarsson, deildarstjóri hestafræðideildar Hólaskóla, á svið en yfirskriftin á hans fyrirlestri var Þekking í þágu hestsins. Hann fór yfir verðmæti rannsókna fyrir allt kynbótastarf og í raun hestamennskuna í heild sinni. Kynnti hann nýjustu rannsóknir í hrossarækt og vakti fundarfólk til umhugsunar um þá vegferð sem við viljum halda hvað velferð og ímynd íslenska hestsins varðar. Það er afar mikilvægt að við höfum velferð íslenska hestsins að leiðarljósi í öllu starfi í kringum hann og að fegurðarmat okkar sé byggt á því sem er hestvænt og uppbyggilegt fyrir líkamlega og andlega heilsu hans og endingu.
 
Miklar framfarir
 
Þá hélt Þorvaldur Árnason kynbótafræðingur fyrirlestur og fór yfir þróun stofnsins hvað erfðaframfarir og næstu skref í þekkingaröflun varðar. Ljóst er að miklar erfðaframfarir hafa átt sér stað á síðastliðnum árum. Mestar erfðaframfarir hafa verið í þeim eiginleikum sem hafa hæst vægi í kynbótadómi eins og við er að búast, s.s. hálsi, herðum og bógum og tölti en einnig í aðaleinkunn. Spennandi tímar eru í vændum hvað varðar nýtingu á erfðamengisúrvali í hrossarækt en það getur hraðað mjög erfðaframförum. Sú hröðun mun byggjast á meira öryggi í úrvali á undaneldisgripum, auknum úrvalsstyrkleika og styttra ættliðabili. Hvað það síðastnefnda varðar þá verður hægt með þessari aðferð að meta kynbótagildi gripa strax við fæðingu. Síðasta fyrirlestur fyrir hádegishlé flutti Anton Páll Níelsson, reiðkennari og hrossaræktandi, en hann velti fyrir sér þróun í notkun hestsins og keppnisgreinum. Einnig ræddi hann um þá eiginleika hestsins sem verðmætastir eru og hvernig mat á hrossum í kynbótadómi getur þróast til framtíðar.
 
Eftir hádegi voru fluttir þrír fyrirlestrar. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, fjallaði um velferð hestsins, heilsu, endingu og frjósemi. Mikilvægt er að ná vel utan um þessa verðmætu eiginleika sem eru innifaldir í hinu almenna ræktunarmarkmiði og þá helst í gegnum aukna upplýsingaöflun eins og í tilviki frjóseminnar. Lykilatriði er fyrir framtíð hrossakynsins að ræktunin varðveiti og stuðli að heilsu þess. Þá kom Sigríður inn á áhugvert atriði en það er líkamsbeiting hestsins í reið og nauðsyn þess að rannsaka hana í íslenska hestinum, t.d. á tölti. Það er eitt mikilvægasta atriðið í þróun dóma á hrossum að horfa meira til og verðlauna rétta líkamsbeitingu og hestvæna framsetningu.
Rétt líkamsbeiting hestsins undir manni hefur mikil áhrif á velferð hans og endingu.  Þá fjallaði Olil Amble, hrossaræktandi og reiðkennari, um hrossaræktina og markaðinn í afar fróðlegum fyrirlestri. Hún ræddi tengsl keppniseiginleika við matið eins og það er framkvæmt og stöðu klárhestsins í kynbótakerfinu í dag. Hún vill auka veg bestu klárhrossanna; þetta séu afar verðmætar hestgerðir í sölu og ræktun. Einnig ræddi hún ýmis verkefni sem hægt væri að setja inn í kynbótadóminn til að gefa ræktendum auknar upplýsingar og stuðla að uppbyggilegum og hestvænum sýningum. 
 
Þróun ræktunarmarkmiðsins
 
Að lokum fjallaði Þorvaldur Kristjánsson um þróun ræktunarmarkmiðsins. Fyrir dyrum stendur vinna hjá fagráði í hrossarækt að fara yfir ræktunarmarkmiðið í hrossarækt, uppfæra dómskalann sem unnið er með í kynbótadómum og aðferðir við matið. Mikil þekking á hestinum hefur bæst við á síðastliðnum árum og kröfur markaðarins hafa breyst frá því dómsskalinn var síðast uppfærður og því nauðsynlegt að leggja í þessa vinnu.
 
Að fyrirlestrunum loknum fór fram hópavinna þar sem fundarfólk var virkjað til þátttöku til að ræða ræktunarmarkmiðið og þróun þess, dómskalann og matsaðferðir á hrossum í kynbótadómi. Tókst þessi vinna vel, margt áhugavert tekið til skoðunar og verðmæt sjónarmið reifuð. Hópstjórar voru í hverjum vinnuhópi sem héldu utan um vinnuna og kynntu umræðu hvers hóps í lok ráðstefnunnar. Ljóst var að fagráð fékk mikið og gott fóður frá fundarfólki inn í sína vinnu við þróun dómskalans og markmiðum dagsins því náð. 
 
Miklar framfarir hafa átt sér stað í ræktun íslenska hestsins á undanförnum árum. Samhljómur er á milli hins opinbera ræktunarmarkmiðs fyrir hestakynið og markmiðs ræktenda í aðalatriðum og endurspeglast það í þeirri erfðaframför sem náðst hefur. Íslenski hesturinn sinnir fjölmörgum verðmætum hlutverkum eins og staðan er og þau þurfa að finna sér stað í hinu opinbera ræktunarmarkmiði. Ræktunarstarf síðastliðinna áratuga hefur stuðlað að miklum breytingum á hestinum, t.d. stærð, útliti og ganglagi.
Markvisst ræktunarstarf getur lagað það búfé sem unnið er með mjög hratt að því markmiði sem stefnt er að. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að ígrunda ræktunarmarkmiðið reglulega, tryggja að ræktunin skili unnendum hestsins verðmætum hestgerðum og stilla miðið vel. 
 
Vel var mætt á ráðstefnuna en um 120 manns voru á staðnum þegar mest var enda margir sem hafa áhuga á málefninu. Það var mál manna að dagurinn hefði verið skemmtilegur og gagnlegur og nauðsynlegt að halda málþing sem þetta oftar, fræðast, skiptast á skoðunum og fá fram sjónarmið fólks á hverjum tíma.

4 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...