Mynd/Þórir Tryggvason Bær á Höfðaströnd. Sigmar Bragason og Mætta frá Bæ.
Hross og hestamennska 11. júní 2019

Léttir á Akureyri hélt vel heppnaða Hestaveislu

Magrét Þóra Þórsdóttir
Vel heppnuð og árleg Hestaveisla Hestamannafélagsins Léttis var haldin í Léttishöllinni fyrir skömmu, en einnig var í tengslum við veisluhöldin farið í heimsókn í Torfunes og til Hestamannafélagsins Grana á Húsavík.
 
Fyrsti viðburðurinn nefndist Fákar og fjör en 10 ár eru frá því sá viðburður varð árlegur í starfsemi Léttis og því meira lagt í hann en oft áður. Hann hófst með eftirminnilegu opnunaratriði þar sem fjölskyldan á Myrkárbakka, foreldrar og 7 börn, 4 til 17 ára, komu ríðandi inn í höllina klædd í Léttisbúning undir íslenskum fánum og Léttisfánum. Fjöldi atriða var í boði að því loknu, en m.a. hlaut Atli Freyr Maríönnuson nafnbótina „Bjartasta vonin 2019“ og viðeigandi bikar að launum. Gunnar og Kristbjörg í Auðholtshjáleigu gáfu bikarinn árið 2013 og hefur hann verið afhentur á skemmtuninni Fákar og fjör síðan þá. Gunnar og Kristbjörg voru ásamt Þórdísi dóttur sinni með atriði og sýndu hross sín.
 
Léttismenn brugðu undir sig betri fætinum og héldu austur yfir, komu við hjá Baldvin Kr. Baldvinssyni á ræktunarbúinu Torfunesi og héldu svo áfram til Húsavíkur og heimsóttu Granamenn þar í bæ.  Hnakkakynning var í Léttishöllinni og þá var boðið upp á stórsýningu sem bar heitið Ræktunarveislan. Helgin er eins konar uppskeruhátíð hrossaræktunarstarfs á Norðurlandi, en það sem m.a. var í boði var bjartasta vonin, skrautreiða- ­­hliðahryssur og alhliðahestar, klárhryssur og klárhestar, heiðrun, flugskeið, stóðhestar, ræktunarbú, afkvæmasýningar, grín, heimsmeistari og margt, margt fleira skemmtilegt.