Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kærustuparið í Koltursey í Landeyjum í nýja hesthúsinu sínu. Átján eins hesta stíur eru í hesthúsnu, auk reiðskemmu. Hestamennska er atvinna þeirra beggja, Sara temur hross fyrir aðra og Þórhallur hefur járningar að aðalatvinnu.
Kærustuparið í Koltursey í Landeyjum í nýja hesthúsinu sínu. Átján eins hesta stíur eru í hesthúsnu, auk reiðskemmu. Hestamennska er atvinna þeirra beggja, Sara temur hross fyrir aðra og Þórhallur hefur járningar að aðalatvinnu.
Mynd / Einkasafn
Fréttir 8. ágúst 2019

Draumahesturinn er fangreistur, viljugur, taumléttur og geðgóður töltari

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Það er alltaf gaman þegar ungt fólk ákveður að byggja upp starfsemi í kringum landbúnað og hefja þannig búskap með sína drauma og væntingar að leiðarljósi. Gott dæmi um þetta er þau Sara Sigurbjörnsdóttir og Þórhallur Dagur Pétursson, sem eru að byggja upp  hrossaræktarbú á jörðinni Koltursey út úr Miðey í Landeyjum.
 
Þau eru hress, kát og jákvæð og því var gaman að heyra í þeim hljóðið um leið og garnirnar voru raktar úr þeim um þau sjálf, starfsemina og framtíðina. Bæði eru þau heilluð af íslenska hestinum, enda ólust þau upp á hestbaki eða í kringum hesta. En hvaða fólk er þetta?
 
Heppin að fæðast inn í hestafjölskyldu
 
Sara Sigurbjörnsdóttir er dóttir Fríðu Hildar Steinarsdóttur og Sigurbjörns Bárðarsonar, fædd 26. október 1991. Hún er fædd og uppalin í höfuðborginni, nánar tiltekið Vatnsendanum í Kópavogi. Foreldrar hennar eiga jörðina Oddhól í Rangárvallasýslu og þar varði fjölskyldan öllum sumarfríum þar til skólinn byrjaði aftur. Sara er svo lánsöm að vera úr stórum systkinahópi en hann samanstendur af eintómum snillingum, eða þeim; Steinari, Styrmi, Sylvíu og Sigurbirni. Sara lauk grunnskólanámi frá Salaskóla í Kópavogi og fór því næst í Kvennaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 2011. Hún fór síðan í eitt ár í Háskólann á Hólum.
 
„Ég var svo heppin að fæðast inn í fjölskyldu þar sem ekkert nema hestar komst að svo vissulega smitaðist maður auðveldlega og lítið annað hefur komist að frá unga aldri. Ég hef unnið langmest heima hjá mömmu og pabba en ákvað samt sem áður að prufa að fara annað til að ná mér í meiri reynslu og víkka sjóndeildarhringinn. Ég vann meðal annars á Stóra-Hofi, hjá Elíasi Þórhallssyni og Berglindi Ingu Árnadóttur, í Ármóti hjá Hafliða Halldórssyni og um stutt skeið hjá Daníel Jónssyni yfir landsmót,“ segir Sara. 
 
Sara að sýna Garúnu frá Koltursey á Landsmóti 2016.  Mynd / Óðinn Örn
 
Í lok sumarsins 2014 breytti hún til og ákvað að vinna sjálfstætt og leigði í frábærri aðstöðu í Ármóti hjá Hafliða þangað til sumarið 2016. Sumarið 2016 fór hún að Strandarhöfða í Vestur-Landeyjum og leigði þar aðstöðu þar til sumarið 2017 en þá fór hún ögn lengra  í Landeyjarnar og leigði aðstöðu í Káragerði til haustsins 2018. „Eftir töluvert flakk á leigumarkaðnum tókum við loksins hesthús í notkun í Koltursey í Austur-Landeyjum á Þorláksmessu 2018. Á öllum þessum tíma hef ég kynnst frábæru fólki og ótal hrossum. Allt hefur þetta hjálpað mér við að móta mig hvernig ég er í dag,“ segir Sara.
 
Þórhallur er Kópavogsbúi og Mosfellingur
 
Þórhallur Dagur Pétursson er fæddur og uppalinn í Kópavogi og seinna Mosfellsbæ, sonur Péturs Jónssonar og Þórhildar Þórhallsdóttur. Hann á systurina Aþenu Mjöll Pétursdóttur. Þórhallur lauk grunnskólaprófi og hefur meira og minna verið á vinnumarkaðnum síðan og lengst af í hestatengdum störfum, í tamningum og seinna við járningar sem er hans aðalatvinna í dag.
 
Átta ára reynsla af sambandinu
 
Sara og Þórhallur kynntust veturinn 2011 þegar Sara vann hjá pabba sínum en þá hittust þau daglega í hesthúsinu því Þórhallur (Tóti) var líka að vinna þar.  „Við urðum strax mjög góðir vinir en byrjuðum ekki saman fyrr en seinna um sumarið, svo það er komin átta ára reynsla á sambandið. Við eigum engin börn enn þá en nóg af hrossum, hundum og köttum,“ segir Sara og hlær.
 
Byrjaði á hestbaki í móðurkviði
 
Sara og Þórhallur eru næst spurð út í þennan mikla áhuga þeirra á hestum og öllu sem tengist hestamennsku. Þá stendur ekki á svörum, Sara byrjar.
 
„Það má nú eiginlega segja að ég hafi verið á hestbaki alla ævina, byrjað í móðurkviði og svo hefur bara allt snúist um hesta síðan maður leit dagsins ljós. En ég hef alltaf verið mikið fyrir dýr og finnst alltaf nálægðin við þau einstök, þau láta manni líða vel og koma manni í gott jafnvægi. Svo ætli það sé ekki mikið til út af því og auðvitað hvað allt umstangið er skemmtilegt, sama hvert er litið.“ 
 
Ræktunin númer 1, 2 og 3
 
„Ætli ræktun  hestsins sé ekki það sem að fangar mig mest við hann og mætti segja að ræktunin sé búin að eiga hug minn allan frá 10–12 ára aldri en þá var ég farinn að safna öllum bókum og blöðum um hrossarækt sem ég gat fundið. Að rækta góðan hest er toppurinn á öllu,“ segir Þórhallur.
 
10 hektarar úr landi Miðeyjar
 
Foreldrar Þórhalls keyptu 10 hektara úr landi Miðeyjar árið 2008 sem smá aðsetur í sveitinni. Síðan 2008 hefur starfsemin þar farið vaxandi og sumarið 2013 langaði þau Söru og Þórhall að flytja í sveitina og ákváðu því að flytja í Koltursey. Þau segjast líða mjög vel á bænum og vilja hvergi annars staðar vera.
 
Vilja rækta athyglisverð hross
 
Þegar tal okkar berst að ræktuninni og hvert unga parið stefnir í þeim málum fær Sara orðið: „Nú þegar erum við með um átta hryssur í ræktun og við höfum hugsað okkur að halda svipuðum fjölda ræktunarhryssa næstu árin. Hvað varðar ræktunarstefnu þá höfum við helst hallast að því að reyna að rækta athyglisverð hross af öllum gerðum frekar en einhverja eina hestgerð. Við reynum að hafa hrossin í fyrirrúmi og nýtum allar þær tækninýjungar sem við teljum að geti hjálpað okkur við það,“ segir Sara og bætir við að ræktunin byggi aðallega á tveimur hryssum, þeim Kjarnorku og Flugu frá Sauðárkróki og þeirra dætrum. „Bæði Kjarnorka og Fluga hafa reynst okkur farsælar ræktunarhryssur og gefið okkur afkvæmi á borð við Jörð frá Koltursey (sigurvegari 6 v. hryssa á LM 2016, aðaleinkunn 8,67) og Garún frá Koltursey (2. sæti 5 v. hryssa á LM 2016, aðaleinkunn 8,45) og fleiri mætti nefna. Við höfum verið afar lánsöm að fá mikið af hryssum en bindum miklar vonir við tvo stóðhesta úr okkar ræktun, þá Atgeir frá Koltursey, 4 vetra (m: Fluga frá Sauðárkróki, F: Krákur frá Blesastöðum 1a) og Skálk frá Koltursey, 3 vetra (M: Hnoss frá Koltursey, F: Lexus frá Vatnsleysu),“ segir Sara.
 
Margar frábærar fyrirmyndir
 
Sara og Þórhallur eru bæði sammála um að hestamennskan á Íslandi sé að stefna í rétta átt og að ímynd greinarinnar sé góð enda margar frábærar fyrirmyndir sem horft er til. 
 
„En hvað varðar markaðsmálin þá er það málefni sem við megum aldrei vera of örugg með og þurfum stöðugt að gera meira. Sem betur fer er flott verkefni í gangi eins og „Horses of Iceland“. Það verður gaman að sjá hvað það verkefni mun gera fyrir Íslandshestamennskuna,“ segir Þórhallur.
 
Draumahesturinn
 
Þegar Sara og Þórhallur voru spurð út í draumahestinn þá urðu þau alveg sammála. „Já, að okkar mati á slíkur hestur að vera fangreistur, viljugur, taumléttur og geðgóður töltari,“ sögðu þau í sömu andrá.

7 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...