Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði.
Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði.
Fréttir 21. júní 2018

Við verðum að koma böndum á þetta, við erum að missa landið úr höndum okkar

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Á aðalfundi Landssambands veiðifélaga sem haldinn var á Sauðár­króki 13. júní sl. lýsti Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, miklum áhyggjum sínum af uppkaupum auðmanna á bújörðum og yfirtöku veiðifélaga. Þetta mál er að margra mati mikið áhyggjuefni og tengist ekki bara veiðirétti og nýtingu á landi heldur ekki síður yfirráðum yfir vatnsréttindum.

„Það að selja hlunnindajörð út úr sveitarfélagi er rétt eins og að selja kvóta út úr sjávarplássi. Til framtíðar litið er þetta mjög slæm þróun,“ sagði Jóhannes í samtali við Bændablaðið.

„Útlendingum er bannað að fjárfesta í sjávarútvegi á Íslandi og þjóðin ætlaði af hjörunum þegar það fréttist að Kínverjar ætluðu að reyna að koma þar inn bakdyramegin, svo virðist allt í lagi að menn kaupi hér hverja jörðina af annarri. Þar eru engar skorður við uppkaupum.

Það sem ég er aðallega að gagnrýna er að sömu aðilar skuli vera að kaupa hér upp heilu landsvæðin, án þess að nokkuð sé gert til að hemja slíkt.“

Þarna vísar Jóhannes til þess að breski auðjöfurinn og efnaverkfræðingurinn James Ratcliffe hefur keypt upp fjölda jarða í Vopnafirði auk meirihluta í Grímsstöðum á Fjöllum með Jökulsá á Fjöllum innanborðs.

Stærsta ferskvatnsforðabúr Evrópu í hendur útlendinga

„Grímsstaðir á Fjöllum er stærsta einstaka ferksvatnsforðabúr í Evrópu. Hafi einhvern tíma verið ástæða fyrir ríkið að koma að málum þá var það við sölu á þeirri jörð. Ríkið átti síðan einfaldlega að lýsa þetta land sem þjóðlendu,“ segir Jóhannes.

Hann segist hafa fullan skilning á að einhverjir bændur verði að selja. Hann segir að þótt viðkomandi bændum finnist það miklir peningar í augnablikinu sem fást fyrir hlunnindajarðir, þá séu veiðiréttindin yfirleitt mun meira virði til lengri tíma litið. Þokkaleg laxveiðiá, sem leigð er til 50 ára, geti verið að gefa af sér á þeim tíma 1,5 milljarða króna fyrir laxveiðina eingöngu. Í sömu á er vatn sem er mikils virði sem slíkt, og vatnsfall sem hægt er að nýta til virkjunar á umhverfisvænan hátt er gullnáma til framtíðar litið.

Það virðist enginn þora að rísa upp

„Það er alveg svakalegt hvað hér er að gerast. Það virðist enginn þora að rísa upp. Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að landbúnaðurinn á Íslandi keppir ekkert um jarðirnar við þessa stórefnamenn. Við verðum að beita fyrir okkur skipulagslögum og öðru um að það liggi fyrir að þegar bújarðir eru seldar þá fylgi þeim sú kvöð að þær séu bújarðir og beri að nýta sem slíkar eins og kostur er. Í dag er þetta allt saman galopið. Við verðum að fara að meta landið okkar og skilgreina hvað séu bújarðir, hvað ræktunarland og annað, og festa þá nýtingu inn í skipulag.

Við verðum að koma einhverjum böndum á þetta. Við erum að missa landið úr höndunum okkar og mér finnst ömurlegt að við séum að selja ómetanlegar náttúruperlur út úr landinu,“ segir Jóhannes.

Breti kemst upp með það sem Kínverja tókst ekki

Ekki er lengra síðan en 2011 að Kínverjinn Huang Nubo hugðist kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Þá tókst Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra, að stöðva þau kaup á þeim forsendum að Nupo væri ekki ríkisborgari innan EES-svæðisins. Það er Ratcliffe aftur á móti og því er ekki talinn grundvöllur vegna samninga um EES-svæðið til að hindra kaup hans á íslenskum jörðum.

Alvarleg þróun

„Þetta er þróun sem er mjög alvarleg. Vatnsréttindin eru til framtíðar séð gríðarlega verðmæt, ekki síður en laxveiðirétturinn. Svo ekki sé talað um náttúruna. Þótt þessi maður sé okkur kannski hliðhollur hvað þetta varðar, þá spyr maður sig hvað önnur og þriðja kynslóð í hans fjölskyldu gerir.“

Jóhannes bendir á að í fram­tíðinni viti menn ekkert hvað verði um þessar jarðir. Erlendir eigendur geti mögulega lokað þeim algjörlega fyrir Íslendingum eða gert við þær nánast hvað sem þeim dettur í hug.

Erlendir auðmenn hafa á allra síðustu árum verið að kaupa upp jarðir víða um land vegna laxveiðihlunninda eða hestamennsku.Víða auðveldar bág staða bænda mönnum þann leik.

Sjá nánar á blaðsíðu 4 í nýju tölublaði Bændablaðsins.
   

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...