Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Verndum íslensku mjólkurkúna og framleiðslu mjólkur á fjölskyldubúum
Fréttir 30. desember 2014

Verndum íslensku mjólkurkúna og framleiðslu mjólkur á fjölskyldubúum

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson

Á því ári sem brátt er á enda hefur Bændablaðið birt margvíslegt efni um aukna eftirspurn eftir nautgripaafurðum, bæði mjólk og kjöti. Kúabændur hafa hvatt til aukinnar framleiðslu og hafa landssamtök þeirra bent sérstaklega á innflutning erlends erfðaefnis sem vænlegan kost.

Hvort sem um yrði að ræða innflutning vegna mjólkur eða kjötframleiðslu myndu miklar kröfur til sóttvarna reynast nauðsynlegar. En allt sem kann að ógna varðveislu hins verðmæta íslenska mjólkurkúakyns hlýtur einnig að þurfa að skoða mjög vandlega, bæði vegna alþjóðlegra skuldbindinga og í samhengi við samningsstöðu Íslendinga í öllum þeim málum þar sem Evrópska efnahagssvæðið og Evrópusambandið eiga í hlut.

Íslenska mjólkurkýrin telst til þjóðargersema

Því verður ekki á móti mælt að íslenska mjólkurkýrin og önnur landnámskyn búfjár hafa mikið verndargildi. Íslenskir bændur og samtök þeirra hafa stuðlað að verndun þeirra og framræktun með lofsverðum árangri þannig að viðhaldið hefur verið ýmsum sérstæðum eiginleikum.

Fjölbreytnin er mikil og hér hefur ekki orðið sú eyðing erfðaefnis (genetic erosion) sem þekkt er víðast hvar erlendis. Einangrun landsins og mikil varfærni gagnvart innflutningi á búfé og dýraafurðum hafa einnig skipt miklu máli.

Íslenskir búvísindamenn taka virkan þátt í alþjóðlegu verndunarstarfi, einkum með aðild að Norræna genbankanum (Nordgen), Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Evrópskum samstarfsvettvangi um verndun erfðaefnis búfjár (ERFP). Sem aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni er Ísland m.a. skuldbundið til að vernda hreinræktað hið verðmæta íslenska mjólkurkúakyn. Því er úti í hött að ræða um íblöndun eða „innskot“ erlends erfðaefnis í stofninn. Þar af leiðir að tillaga til þingsályktunar á 144. löggjafarþingi 2014–2015 (þingskjal 491 – 270. mál) sem þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytja þess efnis að íslenskar mjólkurkýr verði sæddar með erlendu nautasæði, er byggð á sandi. Hún samrýmist ekki verndunarsjónarmiðum.

Nýting tryggir best verndun

Sem fulltrúi Íslands í ERFP-samstarfinu, allt frá upphafi 1995, hef ég oft orðið var við þá athygli sem góður árangur við kynbætur mjólkurkúa, sauðfjár og hrossa hér á landi hefur vakið. Þetta var m.a. staðfest á málþingi sem ERFP hélt hér á landi vorið 2009. Þar gátum við sýnt hópi búvísindamanna frá mörgum Evrópulöndum hve markviss skráning eiginleika og kynbótaúrval innan hvers kyns, án íblöndunar með erlendu erfðaefni, er að skila góðum árangri. Með því að nýta landnámskynin við framleiðslu gæðaafurða með góða neytendaímynd hefur því jafnframt verið komið í veg fyrir eyðingu erfðaefnis. Er þetta allt önnur staða en í flestum nágrannalöndunum þar sem eyðing erfðaefnis er litin mjög alvarlegum augum og ýmislegt er gert til að sporna gegn henni.

En við ramman reip er að draga og ljóst er að þessi mál þarf að taka mun fastari tökum m.a. vegna fæðuöryggis og viðleitni til að efla sjálfbæra þróun. Mikil sérhæfing, sérstaklega í verksmiðjubúskap (intensive factory farming) ógnar mjög þessu verndunarstarfi. Dr. David Steane, þekktur breskur búfjárfræðingur sem nú starfar fyrir verndunarsamtökin  Rare Breeds International, hefur m.a. vakið nýlega upp umræðu um þátt margbreytilegra búfjárkynja í viðbrögðum við loftlagsbreytingum vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Það er því að mörgu að hyggja komi til þess að tilvist íslenska mjólkurkúakynsins verði ógnað, svo sem  með samkeppni við innflutt kyn.

Verndunaráætlun er orðin mjög tímabær

Þótt mjólkurkúastofninn sé enn stór, miðað við ýmis önnur landkyn á Norðurlöndunum, eru í sjónmáli ýmsar ógnir. Vaxandi kröfur um innflutning búfjárafurða af ýmsu tagi og tilslökun á sóttvörnum, og þar með aukin hætta á að áður óþekktir dýrasjúkdómar berist til landsins, geta falið í sér ákveðna ógn við hin verðmætu landnámskyn, ekki síst mjólkurkúna. Þá gæti innflutningur erlends erfðaefnis vegna mjólkurframleiðslu haft afdrifaríkar afleiðingar. Sporin hræða víða erlendis, það tekur ekki mörg ár að kippa fótunum undan heimakynjum ef ekki er varlega farið. Um það eru þekkt dæmi úti um allan heim. Íslenska mjólkurkýrin gæti lent í útrýmingarhættu og því tel ég orðið mjög tímabært að vinna hefjist við gerð verndunaráætlunar í samræmi við 4. gr. reglugerðar um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði nr. 151/2005. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og því ætti Erfðanefnd landbúnaðarins að snúa sér að því verkefni án tafar. Setja þarf upp nokkrar sviðsmyndir (scenarios), og kanna hvort m.a. megi beita þekktum aðferðum við áhættumat.

Er stefnt að verksmiðjubúskap í mjólkurframleiðslu?

Hér í blaðinu var í haust grein frá framgangi stórbúa í mjólkurframleiðslu á Bretlandseyjum og víðar. Venjulegir kúabændur með fjölskyldubú af hóflegri stærð eiga í harðri samkeppni við risabú sem fjársterkir aðilar byggja upp. Mjólkurverð er orðið óeðlilega lágt og ekkert lát virðist á þessari þróun. Þess eru dæmi að sótt hafi verið um leyfi til að byggja allt að 10.000 kúa bú í Bretlandi en skipulagsyfirvöld hafa hafnað slíku á grundvelli umhverfisverndar og álags á vegakerfið á viðkomandi svæðum. Ekki má gleyma áhyggjum dýraverndarsinna og a.m.k. sumra neytenda vegna skertrar dýravelferðar á hinum iðnvæddu verksmiðjubúum. Þau sjónarmið þekki ég vel eftir formennsku í Dýraverndarsambandi Íslands frá 2007-2012.
Því miður sýnast mér blikur á lofti hér á landi og má í því sambandi nefna tvennt sem hefur verið fjallað um nýlega í Bændablaðinu og víðar. Uppi eru áform um uppbyggingu mjög stórra kúabúa á íslenskan mælikvarða, nokkur hundruð kýr á hverjum stað, sem gætu flokkast undir búskaparhætti dæmigerðra verksmiðjubúa. Slík þróun gæti haft stórfelld neikvæð áhrif á viðhald sveitabyggðar í landinu. Ég er hræddur um að slík bú vilji fá nýtt mjólkurkúakyn  inn í landið sem allra fyrst. Talsmenn innflutnings tíunda gjarnan ókosti íslensku kúnna og kosti hinna erlendu og þeirri fásinnu er haldið á lofti að ársnytin tvöfaldist við breytinguna.  Er þá ekki tekið tillit til þunga, fóðurnotkunar, mjólkurgæða o.fl. þátta; mjög villandi málflutningur.

Og þá er komið að hinu atriðinu sem bendir til þróunar í átt að verksmiðjubúskap í mjólkurframleiðslu hér á landi. Í viðtali við framsækinn og duglegan kúabónda á Suðurlandi í Bændablaðinu í haust kom fram það sjónarmið að menn ættu ekki endilega að tala um innflutning erfðaefnis úr NRF kúm frá Noregi en um 75% kúabænda hafa í tvígang fellt slíkar tillögur á liðnum árum. Mig grunar að þeirri skoðun vaxi fylgi á meðal innflutningssinnaðra kúabænda að fara eigi beint í Friesian Holstein kynið sem hefur breiðst út hratt í heiminum með sínum kostum og göllum. Menn virðast jafnvel farnir að reikna með slíkum gripum við endurnýjun fjósa í íslenskum sveitum.

Miðað við það sem er að gerast víða erlendis, og vikið var að hér að framan, þarf ekki mikla spádómsgáfu til að álykta að þar með væru að verða þáttaskil í íslenskri mjólkurframleiðslu; að stórbú með erlendar kýr ryðji burtu íslensku kúnum og flestum kúabændunum um leið. Á þessu er a.m.k. hætta og það þarf að horfast í augu við hana.

Aðeins fjölskyldubú með íslenskar mjólkurkýr njóti opinberra stuðningsgreiðslna

Norrænu bændasamtökin (NBC) sendu frá sér samþykkt um stuðning við fjölskyldubú á fundi í Bændahöllinni snemma í haust í samræmi við þá ákvörðun Sameinuðu þjóðanna að árið 2014 skuli vera ár fjölskyldubúsins (sjá Bbl. 11. september sl., bls. 7). Að þessari stefnumótum standa m.a. Bændasamtök Íslands. Svo sem áður var vikið að gæti verksmiðjuvæðing mjólkurframleiðslu hér á landi ógnað fjölskyldubúskapnum og verður að treysta því að ráðamenn í landbúnaði átti sig á því hvað þar gæti gerst, jafnvel í náinni framtíð.

Ég þori að fullyrða að viðhald fjölskyldubúskapar er undirstaða áframhaldandi ræktunar og nýtingar hins íslenska mjólkurkúakyns. Þar að auki er ljóst að slíkt búskaparform stuðlar að sjálfbærni. Hvað verndun erfðaefnis varðar er eitt af því jákvæða í stefnu Evrópusambandsins að styrkja búfjárkyn sem standa höllum fæti eða eru í útrýmingarhættu. Yfirlit um slíkan stuðning er að finna í nýrri skýrslu, „SUBSIBREED“ sem ég kynnti í Bbl. 11. september sl. Venjulega er verið að styrkja búfjárkyn sem hafa orðið erfðaeyðingu að bráð, og eru að hverfa, en hér á landi ætti líka að beita stuðningsgreiðslum til að koma í veg fyrir fækkun til þess að viðkomandi kyn lendi ekki í útrýmingarhættu. Ef haldið verður áfram að semja um aðild að Evrópusambandinu ætti t.d. að vera meðal samningsmarkmiða að vernda allan íslenska mjólkurkúastofninn með stuðningsgreiðslum. En slíkt er að sjálfsögðu hægt að gera án aðkomu ESB, þ.e.a.s. í gegn um nýjan samning við ríkisvaldið um stuðning við mjólkurframleiðslu á komandi árum.

Það er skoðun mín, og ég hygg að margir geti deilt henni með mér, að aðeins fjölskyldubú af hóflegri stærð, með íslenskar mjólkurkýr, ættu að njóta opinberra stuðningsgreiðslna. Engin önnur kúamjólkurframleiðslubú ættu að njóta slíks stuðnings fremur en alifugla- og svínabú í stórrekstri með innflutt kyn. Þar með yrði bæði stuðlað að viðhaldi fjölskyldubúskapar og varðveislu íslenska mjólkurkúakynsins með markvissum hætti. Þessa mjólk ætti að sjálfsögðu að vinna sér og markaðssetja undir sérstöku vörumerki líkt og sérafurðir á borð við lífrænt vottaða íslenska mjólk.

Innflutningur krefst verndunarmats á kostnað innflutningsbeiðanda

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra og 6. gr. áður­nefndrar reglugerðar nr. 151/2005 um varðveislu og nýtingu erfða­auðlinda í landbúnaði skal fyrir innflutning lögð fram skýrsla um verndunarmat „þegar um er að ræða nýjar dýrategundir eða erlenda stofna tegunda sem hér eru fyrir“. Þá ­segir að verndun­armat skuli taka mið að verndun­aráætlun um viðkom­andi búfjárkyn. Það er m.a. af þess­ari ástæðu sem ég tel orðið mjög tímabært að Erfða­nefnd landbúnaðar­ins hefji gerð verndunaráætlunar því að ummæli innflutningssinnaðra kúabænda, m.a. í fjölmiðlum, benda til þess að nú eigi að fara að sækja um leyfi til inn­flutnings erfðaefnis mjólkurkúa af erlendum uppruna. Þeir eru þá væntan­lega tilbúnir að kalla til fagaðila, bæði innlenda og erlenda, til að ­vinna verndunarmatsskýrslu og greiða kostnað við gerð hennar.
Á þessu stigi virðist ekki ljóst hvað áformað er  að flytja inn né heldur hvernig eigi að tryggja öruggar sóttvarnir. Því síður er ljóst hvaða áform eru uppi um ræktunarstarfið, hvort sem hér verða í notkun eitt eða fleiri mjólkurkúakyn. Í ljósi þessarar óvissu og á meðan ekki hefur verið unnin verndunaráætlun  fyrir íslenska kúakynið tel ég fráleitt að Bændasamtök Íslands sleppi hendinni af Nautastöð BÍ á Hesti í Borgarfirði.

Skylt efni: Búfé

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...