Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Áburður borinn á tún í Skagafirði.
Áburður borinn á tún í Skagafirði.
Mynd / Bbl
Fréttir 27. janúar 2020

Umtalsverð verðlækkun og aukið vöruúrval áburðartegunda

Höfundur: smh
Þeir áburðarsalar sem flytja inn áburð á tún bænda hafa gefið út verðskrár sínar fyrir þetta ár. Þeir eru sammála um að nokkur lækkun hafi orðið á vörunum frá síðasta ári.
 
Svipað vöruframboð er í boði og kunn vörumerki – en einhverjar nýjungar eru einnig að finna á listunum.
 
Verðlækkun hjá Búvís
 
Einar Guðmundsson hjá Búvís segir að áburðarverðskrá þeirra fyrir 2020 hafi verið gefin út í desember og þar sé um lækkun á verði að ræða milli ára. „Vöruframboð hjá Búvís er svipað og 2019 og eins og áður bjóðum við áburðinn heimsendan til bænda á því verði sem auglýst er. Salan fer vel af stað enda erum við að bjóða sérstök kjör ef pantað er núna í janúar.
 
Við hjá Búvís finnum fyrir því að það hjálpar mikið að vera með áburð sem leysist auðveldlega upp og þarf þá ekki mikinn raka eða rigningu til að virka,“ segir Einar.
 
Tvær nýjar vörutegundir hjá Fóðurblöndunni
 
Sigurður Þór Sigurðsson hjá Fóðurblöndunni segir að áburðarvertíðin horfi vel við þeim. „Verðskráin er komin á netið og í Bændablaðið. Það er sérstaklega ánægjulegt að kynna vöruskrá þar sem er lækkun á öllum áburðartegundum.
 
Græðir áburður er með allar sömu tegundir og voru í boði í fyrra, auk þess sem boðið er upp á tvær nýjar. Önnur tegundin er Fjölgræðir 9, 25-9-8, sem hefur verið í vöruskrá okkar áður. Vegna fjölmargra áskorana frá viðskiptavinum okkar ákváðum við að hafa þessa tegund með aftur. Hin nýjungin er Urea 46, sem er köfnunarefnisáburður, og þriðja er Urea Limus Pro sem er nýjung þar sem framleiðandinn hefur þróað og betrumbætt nýja húðunartækni fyrir Urea áburð, sem á að hindra uppgufun og útskolun og lengja mögulegan geymslutíma,“ segir Sigurður Þór.
 
Talsvert breytt úrval hjá Líflandi
 
„Lífland verður eins og áður með áburð frá Glasson Fertilizers í Bretlandi á boðstólum,“ segir Jóhannes Baldvin Jónsson. „Að mestu er um að ræða fjölkorna vöru sem samsett er úr 2–3 einkorna hráefnastofnum, en úrvalið breytist aðeins milli ára og 3 nýjar tegundir eru í boði. Kornað kalk hefur verið að aukast að vinsældum og greinilegt að fleiri bændur eru farnir að átta sig á gildi þess að stilla sýrustig betur af, sem aftur leiðir til bættrar nýtingar á köfnunarefni og fosfór til dæmis auk þess sem lifun túngrasa batnar. Kornaða kalkið hentar beint í áburðardreifara og kallar ekki á neinn sér útbúnað.  
 
Hvað vörugæði snertir, þá hefur seleninnihald áburðarins verið aukið um 25 prósent. Auk þess verður allur áburður nú húðaður með snefilmagni af parafínolíu, húðun sem bætir flæði, minnkar samloðun og bindur rykagnir í vörunni. Ásamt þessu hafa verið gerðar ákveðnar endurbætur á stórsekkjum sem eru til þess fallnar að tryggja að gæði vörunnar verði sem best þegar hann skilar sér heim á hlað til viðskiptavina.  
 
Verðskrá Líflands liggur fyrir á heimsíðu, en allar vörur okkar eru aðgengilegar fyrir gerð áburðaráætlana á Jörð.is og ekkert sem stendur í vegi fyrir að bændur leiti til okkar og fái tilboð í sinn áburðarpakka. 
Allur áburður lækkar nokkuð milli ára, en lækkanir eru á bilinu 5–14 prósent og breytilegar milli tegunda,“ segir Jóhannes Baldvin.
 
Verðskrá Yara lækkar umtalsvert
 
Elías Hartmann Hreinsson hjá Sláturfélagi Suðurlands (SS) segir að SS hafi komið út með verð á Yara áburði fyrir árið 2020 þann 5. desember 2019, ásamt ritinu Korninu sem er rit Yara um áburðarmál.
 
„Áburðarverðskrá Yara lækkar umtalsvert milli ára sem skýrist fyrst og fremst af lækkun á áburði á erlendum mörkuðum. Köfnunarefnisáburður lækkar um sjö prósent, NP áburður um 14–15 prósent og flestar NPK áburðartegundir lækka um 14 prósent. Í boði eru hagstæðir greiðslusamningar eða afslættir. Sé greitt fyrir 15. mars 2020 er 8 prósent afsláttur og 5 prósent ef greitt er fyrir 15. maí 2020.
Ein ný áburðartegund er í boði frá Yara,  NPK 20-5-10 + Se.
 
SS mun flytja inn Dolomit Mg kalk í lausu í mars og verður kalkinu landað á völdum stöðum á landinu. Félaginu er mikið í mun að standa fyrir breytingum með bændum á sýrustigi jarðvegs til hagsbóta fyrir bændur 
 
Við rétt sýrustig nýtast áburðarefnin best og bændur geta sparað sér umtalsvert í áburðarkaupum. Með réttu sýrustigi jarðvegs eykst einnig líftími fóðurgrasa,“ segir Elías.
 
Að sögn Elíasar geta bændur lagt sitt af mörkum til að draga úr kolefnislosun með því að nota Yara einkorna áburð.
 
Saltur áburður Skeljungs
 
Lúðvík Bergmann hjá Skeljungi segir framboð áburðartegunda mikið nú sem endranær. „Við höfum verið að kynna áburð sem inniheldur natríum (salt), sem eykur lystugleika bæði beitar og heys – og stuðlar að meira gróffóðuráti. Þarna er einni nýrri tegund bætt við. Aðrar og spennandi nýjungar er áburður með polysulphate, náttúrulegt efni sem inniheldur kalí, brennistein, magnesíum og kalk á vatnsuppleysanlegu formi, sem nýtist plöntunni um leið og á þarf að halda. Polysulphate er að finna í sjö tegundum Spretts.
 
Verðþróun á heimsmarkaði er bændum hagstæð og höfum við náð að lækka verðskrána umtalsvert frá fyrra ári. Verðskráin kom út á milli jóla og nýárs og er aðgengileg á heimasíðu Skeljungs og hefur verið birt í Bændablaðinu og víðar,“ segir Lúðvík.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...