Mynd/Guðrún Lárusdóttir
Fréttir 23. desember 2019

Um 43 þúsund lítrum minni innvigtun

Margrét Þóra Þórsdóttir
Mjólkursöfnun fór víða úr skorðum vegna óveðurs og ófærðar í liðinni viku. Rafmagnsleysi var líka víða um sveitir og hvatti Auðhumla framleiðendur til að hella niður mjólk þar sem kælirof hafði staðið í einhverja stund og ekki náðist að halda stöðugri kælingu þannig að ekki var hægt að treysta á gæði mjólkurinnar.
 
Garðar Eiríksson, framkvæmda­stjóri Auðhumlu, segir enn ekki komið að fullu í ljós hversu miklu magni mjólkur var hellt niður, en einnig verði að horfa til þess hversu mikil töpuð nyt verður þar sem ekki var hægt að mjólka í langan tíma. Garðar segir að innvigtun í liðinni viku hafi verið 43 þúsund lítrum minni en var í vikunni þar á undan. „Minnkunin kemur einungis fram í Húnaþingi og á Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslusvæðinu. Annars staðar er eðlileg innvigtun,“ segir hann. 
 
Langur vinnudagur
 
Kristín Halldórsdóttir, rekstrarstjóri hjá MS-Akureyri, segir að ekki hafi þurft að hella niður mjólk á starfssvæðinu vegna ófærðar, en mjólk var þó ekki sótt á miðvikudag í síðustu viku þegar veður var hvað verst. Upplýsingar um hvort mjólk hafi verið hellt niður af öðrum ástæðum liggja ekki fyrir.
 
 „Við náðum að hreinsa svæðið og koma okkur á rétt ról strax á fimmtudeginum. Það var mikið að gera þann dag og síðasti bíll var að koma í hús undir hálf tólf um kvöldið þann daginn, enda var færð víða þá mjög slæm. Það tefur líka mikið að vera margsinnis yfir daginn að keðja á og af,“ segir hún. 
 
Á miðvikudag í liðinni viku var mjólkurvörum ekki dreift í verslanir eða fyrirtæki. „Það var einfaldlega ekki hægt,“ segir Kristín.
 
Erlent