Sölvi Arnarsson, bóndi í Efstadal.
Fréttir 29. júlí 2019

Telja sig vita hvar uppruni smitsins er

Vilmundur Hansen

Sölvi Arnarsson, bóndi og veit­inga­maður að Efstadal II, segir erfitt að tala um sýkinguna á bænum eins og staðan er í dag. Rannsóknir hafa sýnt að STEC E. coli bakterían, sem greinst hefur í veiku einstaklingunum, hefur ekki fundist í neinum sýnum af ís eða öðrum matvælum frá Efstadal.

Sams konar baktería fannst hins vegar bæði í saursýni úr kálfastíu og í saursýni frá heimalningum á bænum. Aðgerðir og ráðstafanir sem gripið var til beinast að því að rjúfa mögulegar smitleiðir.
Ísbúðinni í Efstadal var lokað á föstudaginn í síðustu viku og er verið að innrétta hana að nýju og sótthreinsa. Veitingastaðurinn er opinn eftir að alþrifum og sótt­hreinsun á honum og aðlægum rýmum lauk 19. júlí síðastliðinn. Einnig hefur verið lokað fyrir aðgengi gesta að dýrum á bænum.

70 til 100 þúsund manns á ári koma í Efstadal

Sölvi segir að veitingastaðurinn og ísbúðin í Efstadal hafi verið opnuð í júní 2013 og að þangað komi á bilinu 70 til 100 þúsund manns á ári hverju. Hingað til hafi ekki komið upp nein vandræði sem tengjast veitingasölunni.

Ráðstafanir til að draga úr hættu á smiti

„Við höfum nú þegar lokað fyrir aðgengi að kálfum og öðrum dýrum á bænum og skerpt hefur verið á öllum verklagsreglum. Auk þess sem fljótlega verður bætt við hreinlætisaðstöðu utandyra og tilkynningaskiltum um mikilvægi handþvottar fjölgað.

Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að aðgengi að dýrum á bænum verði takmarkað en sýnileiki jafnvel aukinn. Við viljum halda áfram að bjóða gestum upp á að fylgjast með húsdýrunum okkar í sínu náttúrulega umhverfi,“ segir Sölvi.

Tilfelli sem eiga sér ekki fordæmi

Sýkingatilfellin eins og þau sem komið hafa upp í tengslum við Efstadal II hafa ekki komið upp hér á landi áður. Sölvi segir að fyrst og fremst megi draga þann lærdóm af þeim að leggja áherslu á mikilvægi handþvottar eftir snertingu við dýr. Sérstaklega ef neysla á matvælum er nálægt dýrum.

„Samskiptin við Heilbrigðis-eftirlit Suðurlands og Matvæla-stofnun hafa verið mjög góð og gott að leita til þeirra sérfræðinga um aðstoð og höfum við fylgt þeirra leiðbeiningum í einu og öllu.“

Gríðarlegt áfall

„Áfallið við að lenda í svona tilfelli er gríðarlegt og hefur reynt mjög á stórfjölskylduna í Efstadal. Við systkinin og makar erum sem betur fer samheldinn hópur og styðjum hvert annað í þessu ferli. Okkar áfall er í raun smávægilegt og bliknar í samanburði við það sem lagt er á þá einstaklinga sem veiktust og aðstandendur þeirra.

Við höfum trú á okkar vöru og þjónustu og erum þakklát þessum stóra hópi viðskiptavina sem hefur heimsótt okkur í gegnum árin og treyst á gæði okkar vöru. Nú tekur við vinna við að endurheimta það traust,“ segir Sölvi Arnarsson.

Nánar er fjallað um Efsta­dals­málið á síðum 18–19 í 14. tölublaði Bændablaðinu.