Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sýklalyfjaónæmi til staðar í íslensku búfé
Fréttir 21. mars 2019

Sýklalyfjaónæmi til staðar í íslensku búfé

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vöktun Matvælastofnunar á sýklalyfjaónæmi í kjöti og dýrum árið 2018 sýnir að sýklalyfjaónæmi er til staðar í íslensku búfé og að horfa þurfi til fleiri þátta en innflutnings til að sporna við frekari útbreiðslu.

Ónæmi fyrir sýklalyfjum í íslensku búfé er minna en í flestum Evrópulöndum, ónæmi í íslenskum lömbum og innfluttu svínakjöti vakti athygli.

Á heimasíðu Mast segir að vöktunin hafi náð til tæplega 900 bakteríustofna úr sýnatökum Matvælastofnunar, framleiðenda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Sýni voru tekin úr svínum, alifuglum og lömbum og innlendu og erlendu svína- og alifuglakjöti, bæði á markaði og í afurðastöðvum. Skipta má vöktuninni í tvennt:

1. Skimun á sýklalyfjaónæmi í búfé- og búfjárafurðum

2. Prófun á ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum í búfé- og búfjárafurðum

Skýrsla um niðurstöður vöktunarinnar hefur verið birt á vef stofnunarinnar.

Skimun á sýklalyfjaónæmi

Til að meta umfang sýklalyfjaónæmis var skimað fyrir:

A) E. coli bendibakteríur til að meta algengi ónæmis í viðkomandi dýrategund.

B) ESBL/AmpC myndandi E. coli bakteríur sem bera gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum og eru líklegri til að vera fjölónæmar.

E. coli bendibakteríur eru útbreiddar í þörmum manna og dýra og gefa vísbendingu um ástand þarmaflórunnar. Fjórðungur E. coli bendibaktería úr þörmum kjúklinga sem voru prófaðar fyrir sýklalyfjaónæmi reyndist ónæmur fyrir einum eða fleiri sýklalyfjaflokkum. Þetta er svipað hlutfall og hefur greinst í alifuglum og svínum hér á landi 2016 og 2017 og með því lægsta sem greinst hefur í Evrópu undanfarin ár. Ekki voru tekin sýni úr öðrum búfjártegundum til greiningar á E. coli bendibakteríum 2018.

ESBL/AmpC myndandi E. coli bakteríur geta yfirfært ónæmisgen og eiginleika þess í aðrar bakteríur, þ.m.t. sjúkdómsvaldandi bakteríur, og þannig náð mikilli útbreiðslu. Í þessu samhengi skiptir miklu hvort gen þessi eru litningaborin eða plasmíðborin, en þau síðarnefndu geta auðveldlega dreift ónæmi til annarra baktería.

Auk alifugla og svína voru tekin sýni úr íslenskum lömbum í fyrsta skipti. ESBL/AmpC myndandi E. coli greindist í þörmum um 4% lamba. Það er álíka og í þörmum íslenskra alifugla og svína undanfarin ár. Hvernig ónæmar bakteríur bárust í lömbin eða hvort ónæmið myndaðist í lömbunum er ekki vitað og ekki heldur hvort um aukningu sé að ræða. Líkt öðru búfé, eru íslensk lömb ekki laus við bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum eða sem geta þróað slíkt ónæmi og dreift í aðrar bakteríur. Hlutfallið á Íslandi í alifuglum og svínum er svipað og á Norðurlöndunum en er þó lægra en í öðrum Evrópulöndum.

Ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum

Til að meta umfang sýklalyfjaónæmis í sjúkdómsvaldandi örverum eru jákvæðar greiningar á salmonellu, kampýlóbakter og Staphylococcus aureus í búfé og búfjárafurðum úr opinberu eftirliti og innra eftirliti fyrirtækja sendar til prófunar á sýklalyfjaónæmi.

Salmonellustofnar sem greindust í alifuglarækt 2018 reyndust allir næmir fyrir öllum sýklalyfjum. Hins vegar reyndust tveir stofnar sem greindust í svínarækt vera ónæmir, þar af annar fjölónæmur. Í svínakjöti á markaði reyndust tveir stofnar ónæmir og báðir fjölónæmir. Kjötið var frá Spáni og því hafði fylgt salmonelluvottorð við innflutning. Kjötið var innkallað.

Einn kampýlóbakterstofn í alifuglarækt reyndist ónæmur og aðeins fyrir einum sýklalyfjaflokki.

Skimað var fyrir MÓSA (methicillin ónæmir Staphylococcus aureus) í svínarækt hér á landi 2014/2015 og aftur 2018. Í hvorugri skimuninni fannst MÓSA, en sú baktería hefur breiðst út meðal búfénaðar í Evrópu og víðar, einkum í svínarækt. Fagnaðarefni er að MÓSA hefur enn ekki greinst í íslenskri svínarækt.

Aukin vöktun

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn við heilbrigði manna og dýra í dag. Með aukinni áherslu stjórnvalda á þennan málaflokk hefur Matvælastofnun fengið fjárheimildir til vöktunar sýklalyfjaónæmis í matvælum og dýrum. Sýnatökur hafa því aukist og munu einnig gera það á þessu ári og ná m.a. til grænmetis.

Niðurstöður mælinga á sýklalyfjaónæmi í sýnum sem tekin voru úr gæludýrum 2018 verða kynntar fljótlega. Einnig er í bígerð að halda málþing í haust um sýklalyfjaónæmi á Íslandi á vegum Matvælastofnunar og samstarfsstofnana.

Ítarefni

Skýrsla Matvælastofnunar um vöktun á sýklalyfjaónæmi 2018

Stefna stjórnvalda gegn sýklalyfjaónæmi - frétt Matvælastofnunnar frá 15.02.19

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...