Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ingvi gagnrýnir pólitíska umhverfið harðlega og vísar í gerð nýlegs tollasamnings við ESB sem grafi undan íslenskum landbúnaði.
Ingvi gagnrýnir pólitíska umhverfið harðlega og vísar í gerð nýlegs tollasamnings við ESB sem grafi undan íslenskum landbúnaði.
Mynd / Úr einkasafni.
Fréttir 12. janúar 2019

Svínabændum er gert að keppa við innflutning með hendur bundnar fyrir aftan bak

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda, ritar harðorðan pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann gerir að umtalsefni stöðu svínaræktarinnar í dag. Hann ræðir meðal annars um laka samkeppnisstöðu íslenskra svínabænda í samanburði við þau lönd sem framleiða það kjöt sem hingað er flutt inn til landsins í stórum stíl. Ingvi gengur svo langt að halda því fram að íslenskir svínabændur séu að einangrast frá umheiminum vegna sjálfsagðra heilbrigðiskrafna sem þeim sé gert að uppfylla í tengslum við framleiðsluna. Tekur hann sem dæmi að kostnaður við að sæða eina gyltu sé um 75 þúsund krónur hér á landi en einungis 4.500 krónur í Danmörku vegna heilbrigðisreglna um innflutning á sæði. Ingvi tekur þó skýrt fram að svínabændur hafi fram til þessa ekki viljað kalla eftir því að slakað sé á kröfunum. „Við vitum nefnilega hvað kollegar okkar erlendis öfunda okkur af því að vera lausir við mjög alvarlega sjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu,“ segir Ingvi.

Varnir gegn sjúkdómum kosta sitt

„Íslensk svínarækt hefur frá 1994 sótt erfðaefni til Noregs til að stunda markvissar kynbætur. Kröfur um heilnæmi innflutts erfðaefnis eru það strangar að Noregur (eftir því sem ég best veit) er eina landið í heiminum sem stenst kröfur stjórnvalda hérlendis. Til að lágmarka líkur á að sjúkdómar berist við innflutning á erfðaefni þurfum við svínabændur að flytja það inn í formi djúpfrysts svínasæðis. Frjósemi af djúpfrystu sæði er talsvert lakari en af fersku en það er nú minnsti vandinn. Þegar sæðið er komið til okkar kostar skammturinn u.þ.b 75.000 kr. til að sæða eina gyltu. Já 75.000,- kr. Biðtíminn frá því að við pöntum dropann er ca. 60 dagar þar til þetta berst inn á bú til okkar. Á sama tíma er nóg fyrir kollega minn í Danmörku að panta með tölvupósti fyrir kl. 13:00 og þá er hann kominn á hlað til hans um morguninn daginn eftir. Fyrir skammtinn borgar hann svo um 4500 kr. Þannig er verðið sem við borgum er 17-falt hærra, talandi um að keppa við sömu kröfur!“ segir Ingvi í pistli sínum og heldur áfram: 

„Til að flækja þetta enn meira stoppaði Matvælastofnun síðasta innflutning vegna þess að nýr sjúkdómur greindist í svínum í Noregi. Undanþága fékkst en óvissa ríkir um framhaldið. Er ekki myndin að skýrast, okkur er gert að keppa við innflutning með hendur bundnar fyrir aftan bak, eða hvað finnst þér? Við svínabændur höfum fram til þessa dags ekki viljað kalla eftir því að slakað sé á kröfunum til að geta keppt við innflutning, við vitum nefnilega hvað kollegar okkar erlendis öfunda okkur af því að vera lausir við mjög alvarlega sjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu. Við vitum hvað við erum heppnir að hafa hreina vatnið, hreinu orkuna og nægt landrými. Við erum hins vegar að stunda búskap við vægast sagt krefjandi aðstæður m.t.t. hnattrænnar staðsetningar og munum aldrei keppa við kollega okkar í verðum. En þeir munu seint keppa við okkur þegar kemur að heilnæmi okkar afurða.“

Skammur tími til aðlögunar

Ingvi rekur að auki þann kostnað sem fylgir nýjum aðbúnaðarreglum þar sem svínabændum er gert að breyta húsakosti sínum. Hann segir: „Sjálfur hef ég nú selt gyltubúið mitt þar sem það uppfyllti ekki auknar kröfur um dýravelferð en ég fullyrði að hvergi í Evrópu hafa bændur fengið jafn skamman tíma til að úrelda sínar fjárfestingar. Hinn kosturinn var sá að henda út öllum innréttingum sem voru innan við 10 ára gamlar og kaupa nýjar. Við það hefði fjöldi gyltna farið úr 180 í 100 eða niður um 45%. Hvað ætli útgerðin myndi segja ef henni væri sagt að endurnýja stóran hluta skipaflotans á 10 árum og minnka samhliða því afkastagetuna mjög mikið? Ég er ekki viss um að til sé sá sjávarútvegsráðherra sem myndi lifa slíka pólitíska ákvörðun af.“

Fagnar aukinni áherslu á dýravelferð

Ingvi tekur fram að hann sé ekki að segja að hlutirnir eigi að vera óbreyttir og hann fagnar aukinni áherslu á dýravelferð. „Með auknum kynbótum hafa okkar gripir stækkað og það er einfaldlega full þörf á því að bæta aðbúnað í svínarækt. Til þess að það megi gerast þarf að eiga sér bæði samtal og samráð við búgreinina og það þarf að ríkja ákveðinn pólitískur stöðugleiki svo að greinin geti tekist á við gríðarlegar fjárfestingar sem eru fram undan.“

Hundraðfalt magn af sýklalyfjum - allt í nafni frelsisins?

Ingvi gagnrýnir pólitíska umhverfið harðlega og vísar þá í gerð nýs tollasamnings við ESB sem gerir svínabændum og öðrum bændum ekki auðveldara fyrir í sínum rekstri.

 „Það sem er búið að gera á undanförnum árum og stendur til að gera á meðan við tökumst á við fjárfestingarnar í áður óþekktum skala: Nýr tollasamningur við ESB þar sem samið er um að margfalda magnið sem hægt er að flytja inn (að sjálfsögðu samið um tonn á móti tonni enda erum við álíka fjölmenn og ESB), hráakjötsdómurinn sem hleypir fersku kjöti frá ESB inn í landið og eykur enn frekar samkeppni innanlands.“

Ingvi leggur áherslu á að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra afurða og þeirra íslensku og spyr hvort við séum ekki öll sammála um það. „Ekki viljum við sætta okkur við að kaupa afurðir af dýrum þar sem bændur gelda grísina, sýklalyf eru notuð í allt að 100 földu meira magni en hér þekkist (svo vitnað sé í orð Karls G. Kristinssonar), hormónagjöf er daglegt brauð o.s.frv. Eða er þetta kannski bara allt í lagi í nafni frelsisins sem Ólafi Stephensen er svo tíðrætt um?“

Stjórnmálamenn eiga að hætta fagurgalanum – þeir hafa brugðist íslenskum landbúnaði

Ingvi segir að íslensk stjórnvöld hafi brugðist íslenskum landbúnaði á síðustu árum og sérstaklega svína- og kjúklingarækt. „Nú er komið að ögurstundu en innflutningur á svína,- kjúklinga,- og nautakjöti hefur margfaldast að magni á örfáum árum. Hættið að skrifa í stjórnarsáttmála að efla skuli innlenda landbúnaðarframleiðslu ef þið meinið ekkert með því. Í guðanna bænum sýnið okkur a.m.k. þá virðingu að hætta fagurgalanum, það hlýtur að vera lágmarkskurteisi,“ segir Ingvi að lokum og boðar fljótlega nýjan pistil þar sem hann hyggur á umfjöllun um verðþróun á svínakjöti.


Svínabúið Teigur 2 í Eyjafirði.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...