Fréttir 17. ágúst 2018

Sveitasælan um helgina

Sveitasæla 2018, landbúnaðarsýning og bændahátíð, verður haldin næstkomandi laugardag, 18.ágúst, í reiðhöllinni Svaðastöðum Sauðárkróki frá kl. 10:00 – 17:00.

Dagskrá Sveitasælu að þessu sinni er mjög metnaðarfull og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Í boði verða meðal annars Leikhópurinn Lotta, Gunni og Felix, Hvolpasveitin, heitjárningar, smalahundasýning og kálfasýning, hrútadómar/hrútaþukl, véla- og fyrirtækjasýning ásamt fjölda annarra viðburða. Einnig verður Fákaflug – gæðingamót liður í Sveitasælunni og fer fram alla helgina. Kiwanisklúbburinn Freyja verður með veitingasölu á svæðinu og rennur allur ágóðinn til góðra málefna í héraðinu.

Bændamarkaðurinn Beint frá býli sem haldinn hefur verið á Hofsósi í sumar verður einnig á Sveitasælu og munu bændur og handverksfólk í héraði selja þar vöru sína.

Sýningin verður sett klukkan 11:30 og er það Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem það gerir. Einnig flytur Jóhannes H. Ríkharðsson, formaður landbúnaðarnefndar Skagafjarðar, ávarp og flutt verða tónlistaratriði.

Á sunnudag verða svo opin bú á nokkrum bæjum í Skagafirði.

Aðgangur að sýningunni er ókeypis.