Eiturefni, Paraquat, ESB
Fréttir 19. september 2017

Stórhættulegt Paraquat bannað í ESB en selt í miklu magni til annarra ríkja

Hörður Kristjánsson

Evrópusambandið er sakað um tvískinnung varðandi framleiðslu og notkun á ýmsum eiturefnum sem ætluð eru til notkunar í landbúnaði. Á sama tíma og ESB hefur bannað sum þessara efna af heilsufarsástæðum er haldið áfram að framleiða þau og flytja út til annarra ríkja í þúsunda tonna vís.

Greint var frá þessu í breska blaðinu The Guardian 22. ágúst síðastliðinn. Þar kemur fram að innan Evrópu­sambandsins hefur verið tekin ákvörðun um að banna ýmsar gerðir svokallaðra varnar­efna til notkunar í land­búnaði af heilsu­fars­ástæðum, en flest eru þau mjög eitruð. Þar er um að ræða ýmiss konar gróðureyðinga­refni og skordýra­eitur. Þó hefur ítrekað verið veittur frestur til innleiðingar á þessum ráðagerðum.

Bannað í ESB-löndum en flutt út í stórum stíl

Árið 2007 var bannað að nota gróðureyðingarefnið Paraquat innan ESB-ríkja, en þetta efni hafði þá valdið þúsundum dauðsfalla víða um heim og leitt til fjölda sjálfsmorða. Þrátt fyrir bannið hefur svissneska fyrirtækið Syngenta haldið áfram framleiðslu efnisins í verksmiðju sinni í Huddersfield í Englandi. Þaðan hafa þúsundir tonna af efninu verið seld til landa utan ESB sem yfirvöld í Evrópusambandinu hafa látið óátalið. Þar er efnið notað m.a. við ræktun matjurta.

Haft er eftir Baskut Tuncak, sem er upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málum sem varða eitraðan úrgang, að þeir sem berjist gegn notkun eiturefna fordæmi þessi vinnubrögð og saki ESB um tvöfalt siðgæði. Tunack segist furðu lostinn  að Evrópu­sambandið skuli banna notkun á Paraquat innan  sinna landamæra en flytji það svo áfram út til ríkja þar sem reglur eru ekki eins strangar.

Efnarisinn Syngenta ber ábyrgð á útflutningi á um 95% af Paraquat frá Evrópu en efnið er selt undir vörumerkinu Gramoxone. Það smýgur hæglega í gegnum húð manna og hefur verið tengt við Parkinson-sjúkdóminn. Þá getur innöndun á gufum af efninu valdið alvarlegum lungnaskaða samkvæmt heimasíðu Crouse Hospital í Bandaríkjunum og valdið því sem kallað er Paraquat lungum og eyðileggingu á nýrum. Snerting við efnið er einnig mjög hættuleg. Það hefur samt m.a. verið notað af stjórnvöldum þar í landi við að eyðileggja marijúanaakra.

Syngenta hefur framleitt Paraquat í verksmiðju sinni í Huddersfield í tvo áratugi. Á árinu 2014 var fyrirtækið sektað um 200.000 pund eftir að uppvíst var að meira en þrjú tonn af efninu höfðu lekið út í umhverfið eftir óhapp. 

Rúmlega 41 þúsund tonn seld til fátækari ríkja

Frá 2015 hefur Syngenta flutt út 122.831 tonn af Paraquat frá Bretlandi. Það er að meðaltali um 41.000 tonn á ári samkvæmt tölum sem Guardina fékk hjá Swiss NGO public Eye. Nærri tveir þriðju af þessum útflutningi, eða um 62%, fór til fátækra ríkja og þar á meðal til Brasilíu, Mexíkó, Indónesíu, Gvatemala, Venesúela og Indlands. Um 35% voru flutt út til Bandaríkjanna þar sem einungis er heimilt að nota paraquat með sérstöku leyfi.  

Í samtali við Guardian segir talsmaður Syngenta að hann harmi óhappið í Bretlandi, en enginn hafi þó slasast og umhverfið hafi ekki boðið skaða af. Þá sagði hann að í meira en hálfa öld hafi Paraquat reynst heimsins áhrifaríkasta hjálparefnið. Það hafi hjálpað milljónum bænda til að auka framleiðni og að standa sig í samkeppninni. Þá benti hann á að efnið væri enn leyft í löndum eins og Bandaríkjunum, Ástralíu og í Japan.