Mynd/smh
Fréttir 25. ágúst 2017

SS staðgreiðir fyrir sláturfé í haust

Hörður Kristjánsson

Sláturfélag Suðurlands hefur kynnt verðskrá sína fyrir sauðfjárafurðir á þessu hausti. Samkvæmt því greiðir SS bændum talsvert hærra verð fyrir afurðirnar en aðrir sláturleyfishafar sem kynnt hafa sínar verðskrár. 

Haustið 2016 greiddi SS að meðaltali 5-7% hærra afurðaverð en aðrar afurðastöðvar að sögn Steinþórs Skúlasonar forstjóra SS. Þó SS  lækki nú greiðslur fyrir lömb að meðaltali úr 581,70 krónum í 415,28 kr/kg, eða um 28,6% miðað við verðið í fyrra, þá þýði það samt að félagið sé að greiða að jafnaði um 17-18% hærra verð á þessu hausti en aðrir sláturleyfishafar ef allt sé reiknað með.

Norðlenska kynnti í vikunni um 35% lækkun grunnverðs á flokki R2, eða í 352,39 kr/kg og frestun á greiðslum um mánuð. KS/SKVH hefur einnig kynnt svipaðar ráðstafanir og greiðir 348 kr/kg.

Steinþór bendir á að SS greiði auk þess hærri yfirborganir vegna slátrunar í september en hin félögin og bjóði staðgreiðslu fyrir slátrun sem bændur meti mikils.  Þegar þetta sé allt reiknað inn í dæmið sé SS að greiða 17-18% hærra verð en aðrir sláturleyfishafar.