Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sauðfé hefur fækkað um 50% á Suðurlandi á 33 árum
Mynd / smh
Fréttir 20. júní 2016

Sauðfé hefur fækkað um 50% á Suðurlandi á 33 árum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Miklar breytingar hafa orðið á búfjáreign landsmanna á síðasta aldarþriðjungi, eða frá 1982 til 2016. Áhrifin eru langmest í sauðfjárhaldi, þar sem stofninn hefur verið skorinn niður um hartnær 40%. 
 
 
Ljóst er að áhrifin á heildarbúfjáreignina er æði misjöfn eftir landshlutum. Mest hlutfallsleg fækkun sauðfjár hefur orðið á Suðurlandi (Frá Hornafirði að Reykjanesi), þar sem sauðfé fækkaði úr 195.560 í 97.821, eða um 97.739 vetrarfóðraðar kindur, sem gerir rétt um 50%. Þetta hefur augljóslega leitt til stórminnkunar beitarálags. Athygli vekur samt að Suðurland er einmitt það landsvæði sem mest hefur orðið fyrir gagnrýni vegna ofbeitar á liðnum misserum. 
 
Sunnlenskir bændur öflugastir í nautgriparækt og alifuglaeldi
 
Bændur á Suðurlandi hafa bætt sér að nokkru upp fækkun sauðfjár með fjölgun nautgripa um 8.415 gripi, eða úr 23.949 í 32.364 gripi sem gerir um 35% aukningu. Eru Sunnlendingar því langöflugastir í nautgriparækt á landsvísu.
 
Sunnlendingar hafa einnig aukið sína hrossarækt verulega, eða um 9.882. Þar með eru Sunnlendingar farnir að narta í hæla bænda á Norðurlandi vestra hvað hrossaeign varðar, með 27.257 hross á móti 28.159 hrossum á Norðvesturlandi. 
 
Sunnlendingar hafa líka bætt heldur í hvað alifuglaeldi varðar og er nú öflugasti landshlutinn á því sviði. Hafa verður þó fyrirvara á tölum um þróun í alifuglarækt, þar sem aðferðarfræðin í talningunni hefur verið talsvert á reiki í gegnum tíðina. Einnig hefur verið veruleg stökkbreyting í loðdýraræktinni, eða úr 72 í 17.777 dýr. Eru Sunnlendingar þar skammt á eftir bændum á Norðvesturlandi. Þá hefur svínum fjölgað úr 569 í 1.044.
 
Bændur á Norðvesturlandi öflugastir í sauðfjárrækt, hrossarækt og loðdýrarækt
 
Fækkun sauðfjár á Norðvesturlandi hefur verið hlutfallslega minni en á Suðurlandi, en þar hefur fækkunin þó verið langmest í hausum talið, eða úr 352.543 í 235.019 fjár, sem þýðir fækkun upp á 117.524 kindur, eða sem nemur um 33%. Inni í þeim tölum eru líka Vestfirðir og Vesturland. Eigi að síður er þessi landshluti enn langöflugasta sauðfjárræktarsvæðið.
 
Hefur þetta stóra landsvæði lítillega náð að mæta niðurskurði sauðfjár með aukningu í nautgriparækt úr 18.353 í 23.865 gripi.
 
Athyglisverð hefur þó verið gríðarleg aukning í loðdýrarækt og þá einkum í Skagafirði. Hefur loðdýrum á þessu landsvæði fjölgað á þessum 33 árum úr 176 í 20.113 dýr og er þetta þar með öflugasti landshlutinn í loðdýraræktinni. Þá eru bændur á Norðvesturlandi líka öflugastir landsmanna í hrossarækt. Þar hefur hrossum fjölgað úr 22.817 árið 1982 í 28.159 hross árið 2015. Nokkur aukning hefur einnig orðið í svínarækt, eða úr 131 í 592 gelti og gyltur. Alifuglaræktin hefur staðið nokkurn veginn í stað og þar voru fuglar taldir 41.637 árið 2015. 
 
Fækkun sauðfjár á Vestfjörðum en fjölgun nautgripa
 
Ef Vestfirðir eru þar teknir sérstaklega sést að bændur hafa gefið þar eftir í öllum greinum nema nautgriparækt. Vetrarfóðruðu sauðfé fækkaði úr 72.424 kindum í 45.218, eða um rúmlega 37%. Þar er viðbúið að tölur eigi enn eftir að lækka á þessu ári ef fram fer sem horfir með þróun byggðar við innanvert Ísafjarðardjúp og á Ströndum. Nautgripum fjölgaði aftur á móti úr 1.912 í 2.297. Einungis voru þá eftir 835 hross, 116 alifuglar, eitt loðdýr en ekkert svín. 
 
Mikil fækkun sauðfjár og alifugla á Norðausturlandi
 
Á Norðausturlandi að Langanesi hefur líka orðið veruleg fækkun sauðfjár, eða úr 121.540 í 72.237 kindur. Það er fækkun upp á rétt rúmlega 40%. Er sauðfé í þessum landshluta nánast jafn margt og var á öllum Vestfjörðum fyrir 33 árum. Veruleg fækkun varð líka á umræddu tímabili í alifuglaeldi sem fór úr 76.969 fuglum í 16.402 fugla. Hafa verður þó fyrirvara um áreiðanleika í alifuglatalningunni þar eins og á öðrum stöðum á landinu. Þá fækkaði loðdýrum einnig í þessum landshluta, eða úr 10.117 í 4.264 dýr.
 
Bændum á þessu svæði hefur þó auðnast að bæta talsvert við í nautgriparæktinni, eða úr 13.661 í 17.852 gripi. Er þetta því þriðja stærsta nautgriparæktarsvæði landsins. Þá hefur hrossum einnig fjölgað, eða úr 4.959 í 6.377. Svínaræktin hefur einnig verið í uppsveiflu og þar má segja að stofninn hafi nær tvöfaldast, eða úr 263 í 506 dýr. 
 
Samdráttur í öllum búgreinum á Austfjörðum nema í loðdýraeldi og hrossarækt
 
Sauðfé á Austfjörðum hefur fækkað um rúmlega 43% á liðnum 33 árum, eða úr 112.420 í 63.630 fjár. Nautgriparæktin er nálægt því að halda í horfinu, en samt hefur gripum fækkað úr 3.572 í 3.416. Veruleg fækkun hefur orðið í alifuglaeldi, eða úr 8.068 fuglum í 653. Svín voru svo með öllu horfin úr austfirskum búskap árið 2015.
 
Loðdýraeldi var ekki til samkvæmt tölum MAST í þessum landshluta árið 1982. Þar voru hins vegar taldar vera 2.910 læður 2015. Það eldi er allt í Vopnafirði.  Þá hefur hrossum aðeins fjölgað á Austfjörðum, eða úr 1.722 í 2.200. 
 
69% fækkun sauðfjár á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi
 
Sauðfjárrækt á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi hefur verið meiri en margir ætla í gegnum tíðina, en samt farið ört minnkandi á liðnum áratugum. Er hlutfallslegur samdráttur á síðustu 33 árum reyndar sá langmesti á landsvísu, eða tæp 69%. Þannig fækkaði sauðfé úr 12.034 árið 1982 í 3.754  kindur árið 2015. Skýringin er án efa vaxandi þéttbýli sem gerir allt sauðfjárhald erfiðara. 
 
Þá hefur orðið gríðarlegur samdráttur í alifuglarækt á síðustu 33 árum. Þar er um met að ræða, samdrátt upp á ríflega 65%, eða úr 177.834 í 61.231 fugl samkvæmt tölum MAST. Hafa verður þó alla fyrirvara á þessum tölum í ljósi mismunandi aðferðarfræði í gegnum tíðina.
 
Spurning hvort tölur um 45% samdrátt í hrossaeign standist
 
Þótt áhugi fyrir hrossum virðist mikill á þessu svæði, þá hefur samt orðið nær helmings samdráttur í þeirri grein samkvæmt tölum MAST. Fækkaði hrossum úr 6.125 árið 1982 í 3.365 árið 2015, eða um 45%. Virðist þarna um mikla öfugþróun að ræða miðað við flesta aðra landshluta. Ekki er samt ólíklegt að þessar tölur endurspegli þann vanda sem verið hefur uppi um talningu hrossa hjá tómstundabændum í mesta þéttbýlinu. Vonast menn til að breyting verði til batnaðar á þeirri skráningu strax í haust. Því kann að vera að tölur um hrossaeign á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi kunni að breytast talsvert á næsta ári. 
 
Fjölgun í öðru dýrahaldi
 
Aðrar breytingar í búfjáreign á þessu svæði eru þær að nautgripum hefur fjölgað úr 1.076 í 1.279 og svínum hefur einnig fjölgað, eða úr 515 í 1.376. Því til viðbótar hófst minkarækt að nýju í Helgadal árið 1986 eftir nokkurra ára hlé og voru þar skráð 2.974 dýr árið 2015.
 

Talnasöfnun um búfjárhald nú í höndum búnaðarmálaskrifstofu MAST

Í síðasta Bændablaði var fjallað nokkuð um flutning búfjáreftirlits til nýrrar búnaðarmálaskrifstofu Matvælastofnunar (MAST) í samræmi við breytingu á lögum um búfjárhald nr. 38/2013. Framkvæmdastjóri búnaðarmálaskrifstofunnar er Jón Baldur Lorange.
 
Að sögn Jóns Baldurs tók MAST að fullu við búfjáreftirliti, söfnun forðagæsluskýrslna, úrvinnslu og afgreiðslu gagna um fjölda búfjár og fóðuröflun í landinu, af Bændasamtökum Íslands um mitt ár 2010. Frá ársbyrjun 2006 höfðu Bændasamtökin sinnt þessu opinbera hlutverki í umboði MAST eftir lagabreytingu þar um, en fram að því hafði Búnaðarfélag Íslands og forverar þess haft umsjón með forðagæslumálum, allt frá fyrstu lagsetningum um þessi efni seint á 19. öld og snemma á þeirri 20.  
Segja má að endanlegum flutningi stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökunum til MAST hafi verið lokið um síðustu áramót með flutningi á umsýslu stuðningsgreiðslna í landbúnaði sem byggði á breytingu á búvörulögum sem samþykkt voru á Alþingi sumarið 2015. Þar með er hagtölusöfnun, sem Hagstofa Íslands nýtir sér um íslenskan landbúnað, umsjón með hjarðbókum um lifandi búfé, tölur um framleiðslu og sölu búvara og stuðningsgreiðslur í landbúnaði komið á einn stað á búnaðarmálaskrifstofu MAST.  
 
Verið að leysa úr vanda við talningu á hrossum
 
Jón Baldur, sem samhliða starfi sínu hjá MAST sinnir einnig starfi verk­efnisstjóra WorldFengs, upprunaættbókar íslenska hestsins, segir að alla tíð hafi verið erfitt að eiga við gagnasöfnun um fjölda hrossa. Fyrir því séu margvíslegar ástæður. Þó að þorri bænda séu með gögn í lagi í hrossaræktinni eins og öðrum greinum, fylgi ákveðinn vandi hrossaeign einstaklinga í þéttbýli. Bylting hafi orðið með tilkomu upptöku skipulags skýrsluhalds í hrossarækt í kringum 1990 og síðan með skýrsluhaldskerfinu Feng, sem var tekið í gagnið árið 1991, sem síðar varð WorldFengur, alþjóðlegur gagnagrunnur, árið 2001. 
 
„Það skapaði ákveðinn vanda þegar voreftirlit var lagt af með breytingu á lögum um búfjárhald árið 2013 og sex dýraeftirlitsmenn MAST komu í stað rúmlega 40 búfjáreftirlitsmanna, sem voru á vegum sveitarfélaganna.  Frá þeim tíma hafa tölur um hross ekki skilað sér frá hrossaræktendum í þéttbýlinu með ásættanlegum hætti. 
 
Við hjá MAST, búnaðarmálaskrifstofa og Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa, funduðum með Þorvaldi Kristjánssyni, ábyrgðarmanni hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), og útfærðum hvernig bæta megi þessa talnasöfnun. Við fórum yfir það hvernig við gætum sem best treyst talnagrunn hrossa í landinu á næstu misserum. 
 
Það var niðurstaða okkar að efla skýrsluhaldið í hrossarækt og koma upp árlegum skilum á því í WorldFeng. Jafnframt því sem það myndi tryggja betri skil á hjarðbók, þá bætir þetta skýrsluhalds- og ræktunargögn til muna fyrir Bændasamtökin og RML. Það vinnst því margt með þessu. Hluti þessarar lausnar var að bæta inn í WorldFeng skráningu á umráðamanni í samræmi við reglugerð um merkingar búfjár. Með því fæst heildstæð skrá um alla umráðamenn hrossa sem ber að skila inn hjarðbókarupplýsingum og haustskýrslum vegna búfjáreftirlitsins. Þegar þetta hefur náð fram að ganga þá geta umráðamenn valið með sjálfvirkum hætti að skila gögnum úr WorldFeng inn í haustskýrslu í Bústofni samhliða því sem þeir skila inn skýrsluhaldinu.“ 
 
Öflugt skýrsluhald er í þágu bænda
 
Jón Baldur segir alltaf best að notast við jákvæða hvatningu og sem byggir á því að bændur þurfi aðeins að skila sömu gögnum einu sinni. Þannig sé kerfið byggt upp í dag. Bændur, sem eru þátttakendur í skýrsluhaldi Bændasamtakanna, skila inn fullnægjandi hjarðbókargögnum í samræmi við lög og reglur þar um. Skil á haustskýrslum fyrir búfé, forða og landstærðir eru lögbundin og þær upplýsingar eru grunnur að hagtölusöfnun um lifandi búfé í landinu en jafnframt grunnur að stuðningsgreiðslum til bænda. Þeir sem ekki skila haustskýrslum fyrir 20. nóvember ár hvert eiga þá von á því að dýraeftirlitsmenn MAST komi í heimsókn til að fylla út haustskýrsluna á kostnað umráðamanns. MAST hefur hægt og bítandi verið að herða þetta eftirlit,“ segir Jón Baldur. 
 
Engin skráning – enginn stuðningur
 
Þá segir Jón Baldur nauðsynlegt að tryggja fullnægjandi skil og eftirlit með þeim búfjáreigendum, sem aðeins skila inn hjarðbókarupplýsingum, en eru ekki þátttakendur í skýrsluhaldi búgreinanna. Samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár þurfi að skila inn upplýsingum með reglubundnum hætti inn í hjarðbækur. Fastar verður nú tekið á því að hjarðbókum verði skilað á réttum tíma, enda getur það haft áhrif á stuðningsgreiðslur til bænda. Það geta bændur gert með rafrænum hætti í gegnum skýrsluhaldskerfi Bændasamtakanna.
 

6 myndir:

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...