Mynd/TB
Fréttir 17. janúar 2018

Sækjum fram í vöruþróun og framsetningu - Upptökur af Hellufundi

Tjörvi Bjarnason

Á þrettándanum var haldinn fjölmennur fundur í íþróttahúsinu á Hellu þar sem fundarefnið var markaðsmál kindakjöts. Um 370 gestir mættu til fundarins og hlýddu á erindi um markaðssetningu á lambakjöti og gæddu sér í kjölfarið á fjölbreyttum lambakjötsréttum.

Frummælendur voru þeir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, Jón Örn Stefánsson í Kjötkompaníi og Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelandic Lamb. Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda ávarpaði fundinn og sagði meðal annars að skoða þyrfti verðmyndunarferli lambakjöts niður í kjölinn og nýta alla hagræðingarmöguleika, "... og kannski helst af öllu; sækja fram hvað varðar vöruþróun og framsetningu. Við þurfum stöðugt að minna okkur á að hlusta eftir þörfum og vilja neytenda og haga okkar framleiðslu í takt við það," sagði Oddný Steina.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns og sauðfjárbændanna Jóns Bjarnasonar í Skipholti og Erlends Ingvarssonar í Skarði. Styrktaraðilar og aðstoð við framkvæmd veittu IKEA, Kjötkompaní, Markaðsráð kindakjöts, Bændablaðið, Sláturfélag Suðurlands og Norðlenska.

Erindin voru tekin upp og eru aðgengileg hér undir.