Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Rússar banna alla notkun erfðabreyttra nytjajurta
Fréttir 29. ágúst 2016

Rússar banna alla notkun erfðabreyttra nytjajurta

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sífellt fleiri vísindamenn og stofnanir eru farin að vara við óhóflegri notkun jurta- og skordýraeiturs sem og fúkkalyfja í landbúnaði. Er það í takt við upplýsingar um afar neikvæð áhrif sem þessi efni eru farin að hafa á heilsu fólks víða um heim.

Hluti af þessari umræðu er ræktun á erfðabreyttum nytjajurtum eins og korni og sojabaunum, sem Rússar hafa nú bannað notkun á innan sinna landamæra. Þar í landi hafði þegar stöðugt verið dregið úr áhrifum af erfðabreyttri framleiðslu síðastliðin 10 ár, eða úr 12% í 0,01%.

Erfðabreyttar tegundir eru beinlínis hannaðar af vísindamönnum til að gefa mikla uppskeru og til að þola eiturefni sem úðað er yfir akra til að drepa „illgresi“ sem annars truflaði vöxt nytjaplantnanna. Gallinn við þetta er að stöðugt meira þarf að nota af illgresiseyði til að halda þeim plöntum í skefjum. Plöntur í náttúrunni hafa nefnilega þann eiginleika að þróa með sér þol fyrir eitrinu líkt og erfðabreyttu nytjajurtirnar. Þess vegna er stöðugt unnið að þróun á enn þolmeiri nytjajurtum gagnvart eiturefnum með það í huga að nota um leið sterkari eiturefni á akrana. Roundup dugar ekki lengur til að halda illgresinu í skefjum. Í því sambandi hefur verið talað um leyfisveitingar fyrir„Agent Orange Ready Corn“. Agent Orange var framleitt af Monsanto fyrir Bandaríkjaher á árunum 1965 til 1969 (sjá heimasíðu Monsanto).

Var það m.a. notað í stríðinu í Víetnam til að eyða laufi trjánna í regnskógunum svo auðveldara yrði að finna felustaði skæruliða. Það efni olli í kjölfarið hrikalegum afleiðingum fyrir íbúa og fæddist mikill fjöldi alvarlega vanskapaðra barna þar í kjölfarið.

Keyrt áfram af stórfyrirtækjum

Einn angi á þessu máli er að erfðabreyttu afbrigðin eru einkaleyfisvarin og flest slíkra afbrigða eru í eigu efnafyrirtækja á borð við Monsanto og Syngenta sem hafa mjög verið að herða tökin á sáðkornsmarkaðnum. Þessi fyrirtæki og önnur hafa einnig verið að kaupa sig inn í nýtingarrétt á landi og hafa m.a. hart sóst eftir að tryggja sín áhrif í Úkraínu sem nú er ásteytingarsteinn ESB, Bandaríkjanna og NATO annars vegar og hins vegar Rússlands. Ekki er talið ólíklegt að stefna Rússa um að banna alla notkun erfðabreyttra afbrigða þar í landi sé m.a. svar við ásælni stórfyrirtækjanna í Úkraínu.

Þar sem eiturefnaþolin kornafbrigði eru einkaleyfisvarin, þá þurfa bændur að greiða sérstaklega fyrir að fá að nota sáðkorn frá Monsanto og öðrum sem búa yfir slíkum einkaleyfum. Samkvæmt frétt Reuters frá því í febrúar, fer stöðugt aukinn hluti af innkomu bænda í að greiða fyrir slíka notkun. Í þetta fari nú nærri 30% af nettóinnkomu og það hlutfall fari vaxandi. Bændur eru því að verða þrælar stóru líftæknirisanna sem hafa jafnframt lögsótt bændur sem ekki eru þar í viðskiptum, ef þeir verða fyrir því að fræ af ökrum með erfðabreyttu korni fýkur yfir á þeirra akra.

Rússar banna notkun erfðabreyttra nytjajurta

Í Moscow Times var greint frá því þann 24. júní að rússneska þingið (Duman) hafi afgreitt frumvarp um að banna innflutning á erfðabreyttum lífverum. Á fréttavef Natural News 29. júlí gat síðan að líta umfjöllun um að rússnesk yfirvöld hafi ákveðið að banna allan innflutning á erfðabreyttu fóðurkorni fyrir dýr.

Greint var frá því að tilkynning þess efnis hafi verið send út 21. júlí af Rosselkhoznadzor, sem er fæðuöryggisstofnun Rússlands. Samkvæmt henni er nú bannað að flytja inn dýrafóður sem að fullu er af erfðabreyttum tegundum (GMO) eða inniheldur hátt hlutfall erfðabreyttra tegunda. Kemur þetta í kjölfar setningar laga í júní um algjört bann á ræktun erfðabreyttra tegunda og notkun erfðabreytts fóðurs við dýraeldi sem undirrituð voru af Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Eiga lögin að taka gildi um mitt ár 2017. Er þetta í samræmi við stefnu sem mörkuð var 2015 og innleiðingar nýs regluverks um matvælaframleiðslu. Var hún kynnt af Arkady Dvorkovich, aðstoðarforsætisráðherra, á alþjóðlegri líftækniráðstefnu sem haldin var í borginni Kirov í september 2015. Víða um heim er litið til þessara aðgerða sem mikilvægs fordæmis í baráttunni gegn notkun erfðabreyttra tegunda til manneldis. Nokkur fjöldi ríkja, eða 38, hafði þó áður lýst yfir banni á erfðabreyttum afurðum, en það er mis víðtækt og nær t.d. ekki alls staðar til notkunar á fóðri. 

Skapa fordæmi fyrir aðrar þjóðir

Þann 15. júlí setti Rosselkhoznadzor tímabundið bann á innflutning frá úkraínska fyrirtækinu Katerynopil Elevator. Ástæðan var að hátt hlutfall af erfðabreyttu korni hafði uppgötvast í kjúklingafóðri frá fyrirtækinu. Frá 29. júlí var einnig sett bann á innflutning frá fjölda fyrirtækja í Brasilíu, Kína, Argentínu og Þýskalandi af sömu ástæðu.

Þótt pólitískt valdatafl, sem m.a. snýst um yfirráð yfir mikilvægu ræktarlandi í Úkraínu, sé hluti af þessu dæmi, þá þykir ljóst að Rússar séu að verða leiðandi á heimsvísu í baráttunni við stórsókn risafyrirtækjanna í innleiðingu á notkun erfðabreyttra tegunda.

Virðast Rússar samkvæmir sjálfum sér í þeim efnum og staðfastir í að verða land án erfðabreyttrar framleiðslu. Í febrúar á þessu ári bannaði Rosselkhoznadzor allan innflutning á sojabaunum og korni frá Bandaríkjunum vegna þess að þessar tegundir voru mengaðar af erfðabreyttum tegundum og örverum. Var þessi ákvörðun mikið högg fyrir bandaríska bændur, þrátt fyrir að útflutningur þeirra til Rússlands hafi oft verið meiri. Hann hafði þó verið að aukast stöðugt frá 2013 þegar verðmæti hans nam  156 milljónum dollara.

Undir stjórn Vladimir Pútín hefur Rússland sett sér þá stefnu að sniðganga stöðugt vaxandi ásælni líftæknifyrirtækjanna. Í landbúnaði hefur einnig verið mörkuð sú stefna að efla lífræna ræktun í stað erfðabreyttrar ræktunar.

Haft er eftir Pútín að með þessu séu Rússar ekki einungis að tryggja að þeim sé óhætt að borða það sem þeir rækta, heldur einnig að vernda land og vatn fyrir mengun. Rússar geti þannig orðið öflugustu framleiðendur á heilbrigðum, umhverfis­vænum og hágæða matvælum, sem mikið skorti á hjá vestrænum framleiðendum.

Kaldhæðni í spillingarumræðunni

Í umfjöllun Natural News er bent á að það sé vissulega kaldhæðnislegt að í allri umræðu um spillingu í Rússlandi, þá séu þeir að taka svo djarfar ákvarðanir í þágu heilbrigðrar og umhverfisvænnar framleiðslu á hágæða matvælum. Á sama tíma hafi Bandaríkin og fjölmörg önnur lönd gefið líftæknifyrirtækjunum lausan tauminn með tilheyrandi spillingu. Rússar hafi séð í gegnum lygavef líftæknirisanna og berjist gegn þeirra „lobbýisma“ og hafi þar með tekist að skapa fordæmi fyrir önnur lönd heimsins. Nú stefna Rússar á að geta mætt öllum sínum innanlandsþörfum fyrir heilbrigð og lífræn matvæli árið 2020. Einnig að geta hafið útflutning á slíkum matvælum.

Vandi Bandaríkjamanna

Vaxandi eftirspurn eftir lífrænum matvælum eru að valda Bandaríkjamönnum vandræðum. Þar í landi eru um 92% af kornframleiðslunni og um 94% af sojabaunaframleiðslunni ræktuð með erfðabreyttum afbrigðum. Á sama tíma er fullyrt að meirihluti landsmanna vilji ekki erfðabreytt matvæli.

Annað dæmi um vanda Bandaríkjamanna er gríðarleg jarðvegsmengun vegna óhóflegrar notkunar eiturefna í landbúnaði. Það hefur síðan leitt af sér alvarlega mengun á grunnvatni sem þegar er orðið af skornum skammti eins og í Kaliforníu.

Natural News klykkir út með þeim orðum að rússnesk yfirvöld hafi valið að „eitra ekki fyrir íbúa sína“. Á sama tíma hafi Bandaríkin valið hið gagnstæða, þrátt fyrir skýr skilaboð þegnanna um að þeir vilji ekki erfðabreytt matvæli.

Batnandi mönnum er greinilega best að lifa og kannski tími til kominn að Rússar taki til hendinni hvað varðar umhverfismengun. Oft hafa þeir verið harðlega gagnrýndir fyrir ýmiss konar efnamengun heima fyrir og þá ekki síst geislamengun vegna kjarnorkunotkunar.

Mikið högg fyrir ameríska bændur

Bændur í Bandaríkjunum hafa verið stórtækastir í innleiðingu á ræktun erfðabreyttra tegunda ásamt bændum í Brasilíu. Ljóst er að bann Rússa mun koma illa við þessar þjóðir. Áætluð kornframleiðsla Bandaríkjamanna 2016 er samkvæmt tölum World Corn Production.com um 385 milljónir tonna og Brasilíumanna um 80 milljónir tonna. Vel yfir 90% þessarar framleiðslu er með erfðabreyttum kornafbrigðum.Til samanburðar er áætluð kornframleiðsla Rússa um 14 milljónir tonna og Úkraínu um 26 milljónir tonna. Rússar hafa flutt inn mikið af korni, mest frá Úkraínu, Bandaríkjunum og Brasilíu, en óljóst er hvernig þeim tekst að mæta þeirri þörf.

Kornframleiðsla Kínverja á þessu ári er áætluð um 218 milljónir tonna, Kanada um 12 milljónir tonna og ESB-landanna rúmlega 62 milljónir tonna.

Heildar kornframleiðsla í heiminum 2015 var tæplega 960 milljónir tonna, en áætlað er að hún verði rúmlega 1.028 milljónir tonna á árinu 2017.

Bandaríkjamenn eru líka stórtækir í framleiðslu á sojabaunum og þar eru yfir 90% erfðabreytt afbrigði. Er áætluð framleiðsla þeirra á sojabaunum 2016 um þriðjungur heimsframleiðslunnar, eða 110,5 milljónir tonna. Brasilía kemur næst á eftir með 103 milljónir tonna og Argentína með 57 milljónir tonna. Aðrar þjóðir eru með mun minni framleiðslu, en af þeim er Kína stærst með 12,2 milljónir tonna.

Soja er, eins og korn, mikið notað til fóðurgerðar svo höggið af banni Rússa (og reyndar fleiri þjóða) verður líka mikið fyrir þá framleiðendur.  

Stóraukin framleiðsla og eiturefnanotkun

Ljóst er að með ræktun erfðabreyttra korntegunda, er hægt að stórauka framleiðsluna. Því fylgir þó líka óhófleg notkun gróðureyðingarefna. Þar eru gríðarlegir peningahagsmunir í húfi því skordýraeitur er selt fyrir milljarða dollara um allan heim á ári hverju.

Um 1,6 milljarðar kílóa (1,6 milljónir tonna) af virka efninu glýfósat hafa verið notuð í Bandaríkjunum einum síðan 1974, samkvæmt ­skýrslu „Environmental Science Europe“. Það er um 19% af áætlaðri notkun á heimsvísu sem er um 8,6 milljarðar kílóa. Efnið er m.a. virka eitrið í gróðureyðingarefninu Roundup. Á heimsvísu hefur notkun á glýfósati fimmtánfaldast frá 1974, einkum vegna notkunar á erfðabreyttum og svokölluðum „Roundup Ready“ nytjajurtum sem komu til sögunnar 1996. Um tveir þriðju af heildarnotkun á glýfósati í Bandaríkjunum hefur komið til á síðustu tíu árum. Á árinu 2014 úðuðu bandarískir bændur eiturefnum yfir akra sína sem samsvöruðu notkun á 1 kg af hreinu glýfósati á hektara. Á heimsvísu var notkunin um 0,53 kg á hvern hektara ræktarlands að meðaltali. Talið er að ræktun á erfðabreyttum nytjajurtum sem hafa þol fyrir eiturefnum standi fyrir um 56% notkunar á glýfósati.

Samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar fyrr á þessu ári er Roundup, sem hannað var af Monsanto og inniheldur glyfósat,  langmest notaða gróðureyðingarefnið í landbúnaði á heimsvísu. Vitnað er í skýrslu Environmental Sciences Europe. Sem dæmi um notkun á glýfósati á heimsvísu segir að hún samsvari vatnsmagni sem kæmist fyrir í 2.300 ólympíusundlaugum. Bent er á að glýfósat hafi að mati vísindamanna truflandi áhrif á hormónastarfsemi í mönnum. Þar er einnig haft eftir fulltrúa Monsanto að mönnum stafi engin hætta af glýfósati.

Slakað á hættumatskröfum vegna þrýstings

Í Reutersfréttinni er bent á að glýfósat hafi fyrst í stað aðeins verið notað í tiltölulega litlu magni í gróðureyðingarefni. Á árinu 1987 hafi t.d. einungis verið notuð 5,5 milljónir kílóa af glýfósati á bandarískum bújörðum. Nú noti sömu býli nærri 150 milljónir kílóa á hverju ári af glýfósati. Á sama tíma hafa umhverfisyfirvöld (EPA) í Bandaríkjunum stöðugt verið að slaka á kröfum um hver leyfileg mörk eigi að vera þannig að notkunin teljist örugg heilsu manna. Greinilegt er að erfitt er að standast þrýsting stórfyrirtækjanna sem ganga hart fram með sinn lögfræðingaher í öllu stjórnkerfinu. Þannig sé nú heimilt að nota 50 sinnum meira af glýfósati til úðunar á korn og aðrar matjurtir en leyft var 1995. Einnig eru hættumörk fyrir ungbörn mun rýmri. Nú sé sagt óhætt að börn verði fyrir áhrifum glýfósatmagns sem var talið hættulegt 1983.

Í fréttinni var rætt við David Mortensen, prófessor í plöntulífræði við Tenn State-háskólann í Bandaríkjunum. Hann segir einfaldlega að menn séu komnir í öngstræti með að reiða sig á glýfósat til að koma í veg fyrir illgresi. Margar aðrar leiðir séu til sem ekki útheimti slíka eiturefnanotkun.

Skordýraeitrið er síst betra

Notkun skordýraeiturs er af svipuðum toga og mikið notað, ekki síst í ávaxtarækt. Þar er virka efnið neonicotinoid, sem efnafræðilega er líkt nikótíni. Það hindrar m.a. taugaboð og upp úr slíkum efnum var m.a. framleitt taugagas sem notað hefur verið í hernaði. Fyrir utan neikvæð áhrif á heilsu fólks, þá er notkun skordýraeiturs farin að ógna æxlun jurta. Stór þáttur er sú staðreynd að skordýraeitrið drepur býflugur sem eru nauðsynlegar við frjóvgun ýmissa nytjajurta. Til neonicotinoid-efnafjölskyldunnar teljast m.a. efnin acetamiprid, clothianidin, imidacloprid, nitenpyram, nithiazine, thiacloprid og thiamethoxam sem mikið eru notuð í skordýraeitur.

Samkvæmt rannsókn sem birt var í vísindatímaritinu Royal Society þann 27. júlí síðastliðinn, þá veldur notkun á thiamethoxam og clothianidin, sem eru tvö afbrigði eiturefnisins neonicotinoid, ekki bara dauða á umtalsverðum hluta býflugna þar sem efnið er notað, heldur orsakar það líka ófrjósemi meðal flugna sem eftir lifa. Þá dregur efnið úr sæðisframleiðslu karlflugna um 39%, samkvæmt rannsóknunum.

Neonicotinoid hefur verið notað í miklum mæli í Bandaríkjunum og einnig í Evrópu. Hins vegar var sett reglugerð um bann á notkun thiamethoxam og clothianidin  í ríkjum Evrópusambandsins frá árinu 2013, en tekist hefur verið á um staðfestingu bannsins. Efnafyrirtækin Bayer CropScience í Þýskalandi og Syngenta í Sviss hafa boðist til að kosta nýjar rannsóknir. Fullyrða talsmenn fyrirtækjanna að fyrirliggjandi gögn réttlæti alls ekki bann við notkun á skordýraeitrinu sem þau framleiða.

Glýfósat áfram leyft í ESB-löndum

Svipuð umræða hefur verið um efni sem hafa verið notuð til að drepa svokallað illgresi í ræktarlöndum bænda. Þar sem þau efni drápu líka oft nytjajurtirnar sem þau áttu að vernda, þá var farið í að þróa erfðabreytt afbrigði af t.d. korni sem þoldi eiturefnin. Þessi gróðureyðingarefni innihalda m.a. glýfósat sem reynt hefur verið að banna notkun á í Evrópu. Slíkt bann átti að ganga í gildi 30. júní síðastliðinn, en Evrópuráðið heyktist á að halda því til streitu. Þess í stað var samþykkt að heimila áframhaldandi notkun á glýfósati til bráðabirgða í 18 mánuði, eða til ársloka 2017.

EFSA telur glýfósat ekki skaðlegt, en samt …

Þrátt fyrir niðurstöður fjölda vísindamanna um skaðsemi glýfósats, þá hefur EFSA, matvælaeftirlitsstofnun Evrópusambandsins, þver­skallast við þeim niðurstöðum. Þar nægir að nefna viðbrögð við niðurstöðum Alþjóða krabbameinsrannsóknastofnunarinnar IARC, sem sagði glýfósat vera líklegt til að valda krabbameini. Gaf EFSA þá út sitt mat á hættunni á glýfósati í matvælum. Þar sagði: „Glýfósat er ólíklegt til að valda krabbameini í mönnum.“ Þrátt fyrir staðfestu EFSA um skaðleysi glýfósats, þá setti stofnunin samt fram áætlanir um að herða eftirlit og draga úr hættunni á að glýfósat berist í matvæli. Einnig var sett fram skilgreining á hámarksinnihaldi glýfósats í mönnum, eða 0,5 milligrömm í hverju kílói líkamsþyngdar. Mjög er þó deilt um hvað skilgreina eigi sem þolanlegt magn eiturefna í mannslíkamanum án þess að heilsu manna sé stefnt í hættu.

Glýfósat skilgreint í leiðbeiningum WHO um drykkjarvatn

Eiturefni sem innihalda glýfósat hafa verið notuð í ESB-ríkjunum til fjölda ára og í skjóli lagaheimilda síðan 2002. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO hefur ályktað um hættuna af glýfósati sem berist í grunnvatn og þar með í drykkjarvatni.

Fyrsta skýrsla WHO um gæði drykkjarvatns kom út 1958 og þar var settur alþjóðlegur staðall fyrir gæði drykkjarvatns. Á árunum 1984 til 1985 gaf WHO svo út leiðbeinandi reglur í þrem bindum undir heitinu; „Guidelines for Drinking-water Quality“. Þetta var síðan margendurútgefið með viðbótum, en 2002 var líförveruþætti bætt þar inn.

Að undirlægi kanadíska vísindamannsins dr. P. Toft var svo ákveðið 2003 að setja inn skilgreiningu á áhrifum af glýfósati og AMPA (amino-3-hydroxy-5-methyl-4-isoxazolepropionic acid) í endurútgáfu „Guidelines for Drinking-water Quality“. Það má því segja að fullyrðingar ýmissa hagsmunafyrirtækja og vísindamanna um skaðleysi glýfósats,  eigi síður en svo upp á pallborðið hjá alþjóðastofnunum og vísindamönnum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...