Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Gunnar Þorgeirsson formaður Sambands garðyrkjubænda.
Gunnar Þorgeirsson formaður Sambands garðyrkjubænda.
Mynd / smh
Fréttir 28. mars 2019

Orkupakki 3 mun stórskaða íslenska garðyrkju, heimili og allt atvinnulíf

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, segir þann fyrirvara um sæstreng sem ríkisstjórn Íslands hyggst gera við  innleiðingu á  orkupakka 3 frá ESB ekki halda vatni. Eftir standi að orkupakkinn eins og hann leggur sig sé óbreyttur og innleiðing hans muni stórskaða íslenska matvælaframleiðslu, heimili og atvinnulíf. 

Ríkisstjórn samþykkti í síðustu viku að leggja orkupakka 3 fyrir Alþingi til væntanlegrar samþykktar. Var frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 sett inn á samráðsgátt stjórnvalda 22. mars og einungis gefinn kostur á að senda umsagnir í fjóra daga, eða til 26. mars.  

Gunnar segir ekkert hafa breyst síðan í haust þegar hann sagði m.a. á forsíðu Bændablaðsins að innleiðing orkupakkans myndi leiða til stórhækkunar á orkuverði. 

„Mér líst ekkert á þetta og get ekki skilið af hverju íslensk þjóð á ekki að fá að vera sjálf með sína orkustefnu á sínum forsendum þar sem við erum ekki tengdir neinum öðrum. Hvers vegna í veröldinni þurfum við að taka upp Evrópureglur til að stýra okkar eigin málum?“

Hann segist standa við fyrri orð sín og segir málið grafalvarlegt fyrir Ísland og íslensku þjóðina og undrast áhugaleysi margra þingmanna á þessari stöðu. 

„Það er algjörlega ljóst í mínum huga að við innleiðingu á orkupakka 3 og hækkandi raforkuverði í kjölfarið verða ekki framleiddir hér framar tómatar, gúrkur, jarðarber eða grænmeti sem krefst raflýsingar. Kryddjurtirnar frá mér myndu örugglega hverfa úr verslunum.“ 

Getum ekki sett í Evrópureglur hvað sem okkur sýnist

„Ég veit ekki til þess að Evrópu-sambandið sætti sig við að við setjum inn í þeirra reglugerðir það sem okkur sýnist. Ekki var það í hráakjötsmálinu. 

Mér finnst það mjög athyglisvert ef menn ætla bara að setja þessar tvær línur inn í samþykkt á orkupakkanum að ekki komi til lagningar rafstrengs á milli Evrópu og Íslands nema með samþykki Alþingis. Það þykir mér mjög léttvægt og hvað með allt annað sem felst í pakkanum? Ég sé því hvergi hreyft í þessum ágæta texta. Á þetta að vera viðbót við orkupakka 3 sem á að skrifa undir gagnvart Evrópusambandinu? Eða á þetta bara að vera sérstök bókun sem Alþingi gerir bara fyrir okkur til að dást að á sunnudögum? Ég dreg stórlega í efa að við getum breytt samningnum sem ESB leggur fyrir í orkupakka 3. Norðmenn gátu það ekki. Hjáróma bókun þar við hliðina sem á að veifa framan í íslenska þjóð heldur alls ekki vatni þegar við mætum fyrir ESA. 

Ef það á að skrifa undir þennan orkupakka eins og hann lítur út núna á grundvelli Evrópusambandsins þá hlýtur þessi ákvörðun um  að við ætlum ekki að heimila sæstreng nema með sérstöku samþykki Alþingis að vera kæranleg til ESA. Ef við skrifum undir orkupakkann, erum við þá ekki búin að afsala okkur þessu? Er þá ekki líklegast að ESA komist að þeirri niðurstöðu að hér gildi frjálst flæði fjármagns og afurða? Við höfum þegar reynslu af slíkum kærum og þær hafa allar fallið með ESB.“

Hvað er búið að semja um við Breta?     

„Maður spyr sig líka hvaða samkomu-lag utanríkisráðherra er búinn að gera við Breta í tengslum við Brexit. Á að heimila Bretum að kaupa héðan orku eins og þeir hafa sóst eftir að fá? Hvort sem Bretar fara úr ESB eða ekki þá er orkukerfi þeirra beintengt evrópska orkunetinu og um það gilda ákvæði orkupakkanna.“ 

IceLink-verkefnið komið lengra en menn hafa þorað að viðurkenna

„Það skiptir engu máli þótt menn segist draga sig út úr IceLink-verkefninu til að koma orkupakkanum í gegnum þingið. Það verkefni er greinilega komið mun lengra en menn hafa þorað að viðurkenna opinberlega og auðvelt að setja það í gang aftur,“ segir Gunnar. 

IceLink-verkefnið er samstarfs-verkefni Landsvirkjunar, Landsnets og National Grid Interconnector Holdings Ltd. um lagningu sæstrengs til Bretlands. IceLink er inni á PCI-lista (e. Projects of Common Interest). Það er á verkefnaskrá ACER, orkustofnunar ESB, sem hóf starfsemi i Ljubliana í Slóveníu árið 2011. IceLink er þar inni sem liður í víðtækri samþættingu orkunets Evrópu. 

Gegn ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins

Gunnar segir undarlegt ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætli að leggja þetta mál fram á þingi og ganga þannig gegn ályktun atvinnuveganefndar á  landsfundi flokksins um iðnaðar- og orkumál. Þar segir m.a. orðrétt:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

„Hefur landsfundur Sjálfstæðis-flokksins þá ekkert vægi? Menn leita í grasrótina þegar það þarf að kjósa, en svo þegar það er búið virðist grasrótin ekki skipta neinu máli,“ segir Gunnar Þorgeirsson. /HKr.   

Sjá nánar á bls. 2 í nýju Bændablaði

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...